22.03.1976
Efri deild: 79. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2692 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

154. mál, sálfræðingar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að blanda mér í hinar spaklegu umr. hv. síðasta ræðumanns um greindarvísitöluna og allt það sem henni fylgir. Í sambandi við greindarprófin er eflaust rétt að þar geta menn farið út í öfgar. Ekki mæli ég þar með. Ég álít að þessi svo kölluðu greindarpróf, sem hafa verið framkvæmd stundum, geti oft verið góð til vissrar viðmiðunar í skólastarfinu, og mæli ég þar af persónulegri reynslu. Þau mega hins vegar ekki vera annað og meira en til viðmiðunar. Ég held að sálfræðingar yfirleitt, a.m.k. þeir sem ég þekki til og þekki ég til nokkurra þeirra, þeir beiti þessum prófum ekki öðruvísi. A.m.k. hafa þeir lagt ríkt á við mig sem kennara að ég mætti á engan hátt taka þau öðruvísi en rétt til frekari glöggvunar á því sem ég kæmist að í mínu eigin starfi gagnvart viðkomandi nemanda. Ég held að þeir hafi allir tekið það mjög skýrt fram.

Það er hins vegar rétt, að hlutdeild sálfræðinga í okkar menntunarkerfi hefur verið að aukast. Menn getur greint á um það hversu gagnleg sú hlutdeild sé og hversu þörf hún sé. Ég segi það af persónulegri reynslu, sálfræðingar geta komið að sérstaklega góðu liði í mörgum erfiðum tilfellum. Það er að vísu rétt að þeir, sem við uppeldismál fást almennt, eiga að hafa nokkra innsýn í a.m.k. frumatriði þessarar fræðigreinar, en eru þó vitanlega ekki nægilega menntaðir sem slíkir og þurfa því í mörgum erfiðum tilfellum að leita aðstoðar sér færari manna, og ég held að það sé samróma álit kennara, svo að ég vitni nú í þá sérstaklega, — það er aðeins önnur hliðin, síðan kemur aftur heilbrigðishliðin á hinu leitinu gagnvart læknastéttinni, — ég held að það sé samróma álit kennara að í yfirgnæfandi tilfellum hafi þessi aðstoð sálfræðinganna gefist vel.

Það er auðvitað alveg ótvíætt, hvað sem við viljum segja um alla okkar fræðinga, eins og reyndar síðasti hv. ræðumaður kom inn á, að þegar við erum búnir að ganga svo langt í því að lögfesta þátt sálfræðinganna í okkar fræðslukerfi, þá leiðir það vitanlega af sjálfu sér að þeir þurfa að eiga tilverurétt sem starfsstétt. Það fer ekkert á milli mála. Fyrir sálfræðinga eins og aðra menn kemur vitanlega að mestu gagni hin hagnýta þekking sem þeir notfæra sér ásamt sínu námi, sinni menntun. Ef þessir menn kunna ekki að samhæfa þetta, hagnýta almenna þekkingu og eigin reynslu af lífinu og fræðigrein sina hins vegar, þá dæmast þeir vitanlega óhæfir til þess að standa í sínu starfi. En langflestir gera þetta vitanlega, að samhæfa þetta tvennt, og verða þar af leiðandi að liði í uppeldisstarfi t.d. alveg sérstaklega. Ég vitna um það einnig. Ég hef átt þátt í því að senda foreldra með böru sín til þessara manna, og ég hef einnig af því mjög góða reynslu. Því betur menntaðir sem þessir menn eru, þá held ég að starf þeirra geti orðið þeim mun betra, ef, eins og ég sagði, þeir samlaga það sinni almennu lífsreynslu. Ef þeir útiloka sig frá mannlífinu í kringum sig, eins og sumir hafa því miður gert, þá auðvitað er ekki lengur um menn að ræða sem hægt er að treysta. En þannig vill nú fara um æðimarga fleiri en sálfræðinga.

Ég sem sagt stóð aðallega hér upp til þess, þrátt fyrir það að ég hafi enga oftrú á sérfræði og mæli ekki með neinni oftrú á henni, þá vil ég aðeins vitna um það sem kennari í fjöldamörg ár að ég hef haft afbragðsreynslu af aðstoð og leiðbeiningum þessara manna í þeim tilfellum þar sem ég sjálfur hef staðið uppi ráðþrota.