23.03.1976
Sameinað þing: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2711 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

103. mál, rekstrarlán til sauðfjárbænda

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að rekstrarfjárskortur sauðfjárbænda er mikið vandamál. Það er augljóst að bændur þurfa einhvers staðar að fá fjármagn til að greiða rekstrarvörur sínar, þar sem afurðir sauðfjárins fást ekki fyrr en löngu eftir að rekstrarvörurnar þarf að greiða. Þetta er að vísu ekkert nýtt, en hins vegar hafa aðrar aðstæður breyst svo að vandamálið er sífellt að verða erfiðara viðfangs. Rekstrarlán Seðlabankans hafa átt að brúa þetta bil, en augljóst er að rúmlega 20% af andvirði framleiðslunnar hrökkva ekki nógu langt. Það, sem á hefur vantað, hafa kaupfélögin hingað til átt stærstan þátt í að leysa með því að veita bændum gjaldfrest á rekstrarvörunum sem kaupfélögin hafa að mestu séð um að útvega þangað til afurðirnar hafa verið lagðar inn. En sú leið er nú að lokast af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi hefur búreksturinn orðið sífellt meiri viðskiptabúskapur og af þeim sökum vex fjármagnsþörfin. Í öðru lagi voru kaupfélögin áður helstu innlánsstofnanirnar úti um land og fengu þannig allmikið fjármagn til ráðstöfunar, en nú hafa bankastofnanir að mestu tekið við þessu hlutverki. Og í þriðja lagi hefur verðbólgan sífellt margfaldað þær krónur sem þarna þarf.

Það er því augljóst að það er brýn nauðsyn að halda áfram á þeirri braut sem farin var á s.l. vori. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir að stuðla að því er rekstrarlánin voru þá tvöfölduð. Það virðist eðlilegt að taka upp tiltölulega einfalda reglu eða vinnubrögð í þessu sambandi. Rekstrarlánin út á afurðirnar hafa verið greidd frá því í mars og fram í ágúst. En á sama tíma er verið að greiða til baka afurðalán út á afurðir fyrra árs eftir því sem birgðir þeirra hafa verið seldar. Það, sem mér virðist að þurfi að gera, er að breyta þessum endurgreiðslum í rekstrarlán, þannig að bændur haldi áfram að hafa þetta fjármagn til afnota. Þetta ætti ekki að valda neinum sveiflum í útlánum ef þarna væri notað sama fjármagnið. Það er ekki verið að fara fram á nýtt fjármagn, heldur aðeins að nota það sem er endurgreitt. Ef þetta væri gert, þá held ég að ætti að vera hægt a.m.k. að gera mikið átak í því að leysa þetta mikla vandamál. Og ég vil að lokum undirstrika það, að ég vænti þess að sú viðleitni eða sú vinna, sem hæstv. landbrh. sagði að hefði nú verið lögð í að leysa þetta vandamál, beri þann árangur að viðunandi verði.