25.03.1976
Sameinað þing: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2790 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

206. mál, ráðstafanir til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og búseturöskun í Norður-Þingeyjarsýslu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. 6. þm. Norðurl. e. að þakka hv. þm. Kristjáni Ármannssyni fyrir hans ágætu ræðu, að undanskildum hans lokaorðum sem ég hef þegar gert að umræðuefni og mun ekki gera frekar að umræðuefni. Ég hef alltaf litið svo á sem íþróttamaður að sá, sem gerir eitthvað rangt að hans eigin mati og biður afsökunar á misgerðum sínum, sé drengur góður og síst minni maður, heldur meiri. Ég tek orð hans, sem hann flutti, sem afsökun á því gáleysislega tali sem ég tel að hafi verið í hans ummælum og virði þau.

Ég sný mér þá að hv. 5. þm. Norðurl. e. sem hóf mál sitt með því að segja að sér blöskraði hin sígilda hræsni sem kemur úr kokum sumra hv. þm. í þessum sal — og þetta er rétt eftir haft, skrifað. Ég verð að segja að ég hef ekki orðíð var við þetta og er best að aðrir þm. svari fyrir sig, jafnvei ekki frá hv. 5. þm. Norðurl. e. Ég vil ítreka það, að ég tel það óviðeigandi við Alþ. þegar ummæli eins og viðhöfð voru hér og ég hef gert að umræðuefni eru viðhöfð af þeim sem eiga og bera skylda til að viðhalda virðingu Alþ. og skila því fram í tímann helst betra og virðulegra en þeir tóku við því. Ég tek undir með hv. 5. þm. Norðurl. e. að gagnrýni á alltaf rétt á sér, svo framarlega sem hún er borin fram af drengskap og að vel athuguðu máli. Alþ. hefur hverju sinni reisn sína frá kjörnum fulltrúum þjóðarinnar sem skipa hér stólana. Og ég vil endurtaka það, að okkur ber að verja þetta virki, en ekki kippa undan því stoðum með gáleysislegu tali.