29.03.1976
Efri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (2325)

195. mál, skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Fjmrh. (Matthías Á Mathiesen):

Herra forseti. Eins og kunnugt er hafa bókmenntaverðlaun og tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir árið 1976 fallið íslendingum í skaut, þeim Ólafi Jóhanni Sigurðssyni rithöfundi og Atla Heimi Sveinssyni tónskáldi. Ríkisstj. telur eðlilegt að verðlaun þessi verði undanþegin tekjuskatti og útsvari, en að óbreyttum lögum er 1/4 hluti þeirra skattskyldur.

Þegar Halldór Laxness rithöfundur hlaut Nóbelsverðlaunin voru þau með sérstökum lögum undanþegin tekjuskatti og útsvari, og á sama hátt voru Sonningverðlaun, er sami rithöfundur hlaut, undanþegin þessum gjöldum með sérstökum lögum.

Á Norðurlöndum gilda mismunandi reglur um skattlagningu slíkra verðlauna. Á Íslandi eru slík verðlaun, eins og áður segir, skattlögð að einum fjórða hluta, en í Danmörku greiðist skattur af allri fjárhæðinni, í Svíþjóð eru verðlaunin skattfrjáls, en nokkurt vafamál virðist vera að hve miklu leyti verðlaunin eru skattskyld í Finnlandi og Noregi, en þó er talið líklegt að ekki væri krafist skatts af þeim.

Á fundi menntmrh. Norðurlanda, sem haldinn var í Kaupmannahöfn fyrir skömmu, kom fram að dönsk stjórnvöld hafa í hyggju að gera bókmennta- og tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs skattfrjáls, og af Íslands hálfu var lagt til að þau yrðu gerð skattfrjáls í öllum aðildarlöndunum. Í samræmi við það, er þetta frv. flutt.

Í framsöguræðu fyrir þessu frv. í Nd. var gerð grein fyrir verðlaunum, er fyrrv. háskólarektor, Magnús Már Lárusson, hafði fengið, og meðferð þeirra og því jafnframt lýst yfir að með sams konar verðlaun, sem féllu í skaut Hannesi Péturssyni rithöfundi, yrði farið með sama hætti. Hér er um að ræða frv. til l. um skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs eingöngu.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.