29.03.1976
Neðri deild: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

215. mál, vegalög

Flm. (Pálmi Jónsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 447 hef ég ásamt hv. 4. þm. Vesturl. leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á vegalögum. Frv. þetta hefur tvíþættan tilgang: í fyrsta lagi að kveða skýrar á en nú er gert um sjálfstæði sýsluvegasjóða og yfirstjórn sýslunefnda yfir sýsluvegasjóðum. Þó að hér sé um tiltölulega litla breytingu að ræða er hún nokkuð mikilvæg að mínum dómi. Ég tel að það sé mikilvægt að kveða á um það í lögum, svo að ótvírætt sé, að sýslunefndir hafi til þess óskorað vald að fara með fjárreiður sýsluvegasjóðanna og taka ákvarðanir í sambandi við framkvæmdaáætlanir sýsluvegasjóða.

Það hefur borið við að heyrst hafi raddir um það á síðustu árum að rétt væri að leggja sýsluvegasjóði niður. Að mínum dómi væri þar um stórt skref aftur á bak að ræða. Það væri skref aftur á bak að því leyti í fyrsta lagi að taka úr höndum sýslunefndanna málefni, sem þær hafa haft með höndum, og skerða þannig verkefni þeirra sem ekki eru of mikil fyrir. Í annan stað mundu væntanlega fylgja slíkri breytingu minni tök og minni yfirstjórn heimaaðila yfir þessum þætti vegamálanna. í þriðja lagi held ég að flestum sé ljóst, sem fengist hafa við gerð og endurskoðun vegáætlana, að ef sýsluvegasjóðir væru felldir niður og þeir hlutar veganna, sem undir þá heyra, væru teknir inn í hina almennu vegáætlun, yrði meiri hætta á því að aukavegir ýmiss konar yrðu útundan við gerð vegáætlunar. Á því ber nokkuð þegar, en sú breyting sem yrði við að leggja sýsluvegasjóði niður mundi stórlega auka þá hættu. Ég taldi rétt að láta þessa skoðun mína koma hér fram, því að ég hef heyrt þessar hugmyndir og sá hitti þessa frv., sem fjallar um ákveðnari yfirstjórn sýslunefnda yfir sýsluvegasjóðum, er til þess að styrkja sýsluvegasjóðina og það kerfi sem þeir eru byggðir á.

Í annan stað fjallar þetta frv. um breytingu á tekjuöflun sýsluvegasjóða. Þær breytingar eru á þá lund, að kauntúnahreppar með 200 íbúa og fleiri greiði ekki lengur sýsluvegasjóðsgjald. að svo miklu leyti sem þar er um eiginlegt þéttbýli að ræða. Tekjutap sýsluvegasjóðanna við þessa breytingu verði unnið upp með framlagi Vegasjóðs, og er meiningin með frv. að sýsluvegasjóðirnir standi jafnréttir eftir þá breytingu. Í annan stað, til þess að Vegasjóður verði ekki fyrir auknum útgjöldum af þessum sökum, þá verði þéttbýlisvegafé lítils háttar skert á móti þessari breytingu, á þann hátt að í stað 12.5% af heildarútgjöldum vegamála, sem nú fara til þéttbýlisvega, verði um 12% að ræða, þannig að þessi minnkun er um 1/2 %.

Ég vil taka það fram að þessi breyting er í mínum huga sett fram einungis til þess að allir aðilar standi sem næst jafnréttir eftir. Ég vil jafnframt taka það fram, að ég fyrir mitt leyti er til viðræðu um að þessi liður um skerðingu þéttbýlisvegafjárins verði felldur út úr frv., ef þingnefnd sýnist það koma frekar til álita.

Tillögur um þessar breytingar eiga í mínum huga þær rætur að á undanförnum árum hefur orðið um mikla fjölgun kaupstaðanna í landinu að ræða. Á Alþ. veturinn 1973–1974 voru samþ. kaupstaðarréttindi til handa eigi færri en fimm kauptúnahreppum í landinu og á yfirstandandi Alþ. hafa veríð samþ. kaupstaðarréttindi til handa tveim þorpum til viðbótar. Þessar breytingar stafa, að ég tel, að miklu leyti af því að kaupstaðir þurfa ekki að greiða þau gjöld sem önnur sveitarfélög í landinu greiða til sýslnanna. Kaupstaðir þurfa þannig ekki að taka þátt í ýmsum sameiginlegum kostnaði sem önnur sveitarfélög bera í sambandi við sýslufélögin. Einn gildasti þátturinn í þessum útgjöldum sveitarfélaganna til sýslnanna er sýsluvegasjóðsgjaldið, og ég hygg að ein aðalorsökin til þeirrar tilhneigingar ýmissa þorpa í landinu að vilja verða kaupstaðir sé einmitt að losna við sýsluvegasjóðsgjaldið. Vitaskuld er þarna um nokkur önnur gjöld að tefla, svo sem sýslusjóðsgjöld, en ég hygg að þessi atriði eigi a.m.k. verulegan þátt í því að auka tilhneigingu ýmissa kauptúna til að óska eftir því við Alþ. að þau fái kaupstaðarréttindi.

Nú er það í sjálfu sér ekkert einkennilegt að kaupstöðum fjölgi í landinu með vaxandi fólksfjölda einstakra þéttbýlissveitarfélaga. Ég hygg þó að hér hafi verið gengið óþarflega langt á undanförnum árum. Þessar breytingar hafa það í för með sér að sýslurnar standa veikari eftir, þær eru verr í stakk búnar til að valda þeim verkefnum sem þeim eru falin, og enn fremur er á það að lita að slíkum breytingum fylgir oftast aukinn kostnaður í sambandi við stjórnsýslu. Þess vegna er að mínum dómi rétt að hafa a.m.k. nokkurt hóf á í sambandi við þær breytingar á umdæmaskiptingu og stöðu sveitarfélaganna í landinu sem þessi þróun hefur í för með sér. Ég held a.m.k. að það sé engin ástæða til þess að láta óheppileg lagaákvæði verða til þess að ýta undir þessa þróun. Ég segi óheppileg, því að ákvæði um að kauptún greiði til sýsluvegasjóðs er í rauninni gersamlega óþarft þegar þess er gætt að þau fá á sama tíma framlög úr Vegasjóði og allt eins má haga þeim málum á þann veg sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að Vegasjóður greiði meira til sýsluvegasjóðanna. en kauptúnin verði undanþegin því að greiða þetta gjald.

Ég held að það sé ekki ástæða til að fara um þetta fleiri orðum. Það má e.t.v. aðeins bæta því við til nánari skýringar á þessu atriði, að þetta fyrirkomulag að kauntúnin greiði til sýsluvegasjóðs og Vegasjóður aftur til kauptúnanna er í svipuðum anda eins og að ríkissjóður innheimtir söluskatt af tilteknum vörum sem aftur eru svo greiddar niður úr ríkissjóði. Þess háttar fyrirkomulag er óheppilegt og ætti að vera óþarft í okkar löggjöf og þarf að leiðrétta á sem flestum sviðum.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgn.