30.03.1976
Sameinað þing: 72. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2877 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

124. mál, rannsóknir og hagnýting á sjávargróðri

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég varð nú fyrir nokkrum vonbrigðum með minn ágæta félaga, hv. 2. þm. Vestf. Mér fannst liggja illa á honum og hann hefði ýmislegt á hornum sér. Þó sagði hann að ég hefði haldið hjartnæma ræðu, svo að hann hefði nú mátt gleðjast yfir því. En það hefur sýnilega ekki dugað.

Það var furðulegt margt sem hann sagði. Hann sagði í upphafi sinnar ræðu að hann hefði frekar kosið, að mér skildist, að þessi till., sem hér er til umr., hefði komið fram við afgreiðslu fjárl. Till. felur ekki í sér nein fjárútgjöld, nema þá þóknun til nm., og það tíðkast ekki að flytja slíkar till. sem þessar við afgreiðslu fjárl. Ég verð að upplýsa þennan hv. þm. um það.

Hann sagði að kjarni málsins væri að það vantaði peninga. Auðvitað þarf peninga til allra hluta. En við erum ekki að ræða hér hvernig eigi að efla rannsóknir á sjávargróðrinum við Ísland. Við erum ekki að tala um það hér. Við erum að tala um að fá skipaða n. til þess að gera till. um það. Ég hefði nú haldið að það hefði mátt bíða að ræða fjármálin þar til þær till. sæju dagsins ljós.

Þá hafði þessi þm. orð um að það hefði verið furðulegt af mér að telja þetta mál eitt hið mikilvægasta mál sem hugsanlegt væri. Það sagði ég í framhaldi af því þegar ég var búinn að segja að einmitt þetta mál varðaði uppeldisstöðvar nytjafiska og viðgang fiskstofnanna. Honum finnst einkennilegt að ég segi að það sé eitt af okkar þýðingarmestu málum. Ég held að þessi hv. þm. hafi verið meira en lítið miður sín þegar hann var með svona nöldur í svo þýðingarmiklu máli sem hér er um að ræða.

Þá segir hann að við höfum hvorki á að skipa hæfustu mönnum né stofnunum til að vinna þetta verk. Það er hans skoðun. Ég held að þær stofnanir, sem við tilgreinum í þáltill. og er ætlað að tilnefna menn í þessa væntanlegu n., það séu allt hinar merkustu og hæfustu stofnanir. Þar á ég við Hafrannsóknastofnunina, Háskóla Íslands og Iðnþróunarstofnun Íslands. Hv. 2. þm. Vestf. talar eins og það sé eitthvert hneyksli að ég skuli halda þessari skoðun fram.

Svo vék hann nokkrum orðum að dr. Sigurði Jónssyni, og það var ærið tilefni til þess. En hann sagði: Hann starfar erlendis. Auðvitað er það rétt. Auðvitað er það mjög alvarlegt mál að einn færasti vísindamaður, sem nú er uppi á þessu sviði, skuli starfa erlendis. Hins vegar er það staðreynd að þó að svo sé, þá hefur þessi maður afrekað það á undanförnum árum að vinna aðalstarfið sem hefur verið unnið í vísindalegri rannsókn á þessu sviði, eins og ég kom að í minni ræðu.

Þá vék hv. þm. að öðrum heiðursmanni sem ég minntist einnig á, Sigurði Hallssyni efnaverkfræðingi. Hann sagði í sambandi við það, að það væri lítið gert úr styrkjum sem hann hefði fengið, ég hefði lítið gert úr því. Ég sagði einmitt að hann hefði verið styrktur af opinberum stofnunum og nefndi sumar þeirra. En ég fór ekki að telja upp þessar upphæðir í krónum. Ég get vel unnt hv. þm. Vestf. að gera það, eins og hann gerði ef hann telur að það sé eitthvert innlegg í þetta mál. Hann sagði um störf Sigurðar V. Hallssonar hins vegar að hann hefði skrifað mikla bók sem hefði verið falleg og kostað mikið fé. Þá þurfti hann í leiðinni að telja það eftir.

Já, það er margt skrýtið sem kom fram í ekki lengri ræðu en hv. 2. þm. Vestf. hélt hér. Mér þykir leitt að þurfa að vera að svara þessu, því að ég vil meina að þetta sé þessum hv. þm. ákaflega óeðlilegt, að tala eins og hann gerði hér áðan. Hann hafði flest á hornum sér. Hann sagði að hann efaðist um að verksmiðja eins og þörungaverksmiðjan að Reykhólum verði reist annars staðar. Það kann vel að vera að slík verksmiðja verði ekki reist annars staðar. Ekki var ég að halda því fram. En það er um margs konar hagnýtingu að ræða á sæþörungum við Ísland aðra en varðar þörungaverksmiðjuna á Reykhólum. Það er ekki slíkt höfuðmál í þessu sambandi að við þurfum að miða framtíðarrannsóknir við það. Hv. þm. má ekki halda það þó að hann sé núna stjórnarmaður í þessari verksmiðju.

Svo vék hann að kalkþörungunum sem ég minntist á að væru t.d. í miklu magni í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Hann sagði að þetta væru skýjaborgir. Ég get sagt hv. þm. það, að ég tel mig geta sagt að hér sé um raunhæft verkefni að ræða, og ég er illa svikinn ef það verður ekki tekið á þessum málum þannig. Það verður gaman að sjá hv. 2. þm. Vestf. segja í Arnarfirði og við Ísafjarðardjúp, þegar þeir tímar renna upp, að þetta séu skýjaborgir. Það eru furðulegar slíkar fullyrðingar sem þessar.

Þá sagði hann að mér væri eiginlega sæmra — ég gat ekki skilið hann öðruvísi — að flytja. till. um rannsóknir á íslenskum sveppum. Hvað eiginlega þarf nú þetta að koma til? Í hvaða samhengi er það við þessa till.? Geta nokkrir fundið það út? Nei, það er erfitt að finna það út.

Þetta á sennilega að vera eitthvað lítilsvirðandi um þá till. sem hér er, –ég segi sennilega, ég skal ekkert fullyrða um þá skýringu. Það kemur sennilega engin skýring nokkurn tíma á því.

Þá sagði hv. þm. að hér væri ekki um neina heildarstjórn að ræða. Ég sagði í minni ræðu að það þyrfti að koma á heildarstjórn í þessum efnum til þess að væri hægt að vinna markvisst og skipulega að framgangi þessara mála: Þá spyr þessi hv. þm.: Hvað er heildarstjórn? Það er ekkert sagt hvað er heildarstjórn, segir hann. Þetta er undir lok ræðu hans. Hann er engu nær um hvað till., sem hann er að tala um, fjallar. Hún fjallar um það, að skipa sérstaka n. til þess að gera till. um það m.a. hvernig þessi heildarstjórn á að vera. Nú svo segir hv. 2. þm. Vestf. að hann sé á móti því að skipa n. í þetta. Þá vitum við það, hann er á móti því.

Þá fór hann að tala um hina júgóslavnesku konu, Ivka Munda. Hún hafði skrifað honum bréf og kvartað undan því að ég hefði ekki nefnt hana á nafn í grg. Fyrr má nú veral Það getur verið að hv. 2. þm. Vestf. sé sérstakur umboðsmaður Munda, og það er ekkert við því að segja. En ég hélt að þessi hv. þm. væri það þingvanur að hann gerði sér grein fyrir að í einni grg., hvort sem er með frv. til l. eða með þáltill., er ekki hægt að nefna alla hluti sem koma við málinu sem um er að ræða. Ég veit ekki til þess að það sé gert. Ég nefndi ekki í grg. minni nafn eins einasta erlends manns sem hefur unnið að þessum málum á síðustu árum. Ég gerði það ekki, og ég gerði engan mun á vinkonu hv. 2. þm. Vestf. Ivka Munda, og öðrum En er nú þetta eitthvert atriði í þessu máli? spyr ég.

Hvað er þetta? Hvað hefur komið yfir hv. 2. þm. Vestf., að bregðast svo við jafnsaklausri till. og hér er, en líka þýðingarmikilli? Ég skal ekki fullyrða um það. En hann þurfti eitthvað að segja í upphafi ræðu sinnar sem formaður Rannsóknaráðs og eitthvað sagði hann í Íok ræðu sinnar um að það væri ekki svo sem lagt til að Rannsóknaráði væri falið þetta. Nei, hann hefði sennilega verið með því, en það mátti ekki skipa nefnd. Getur það þá verið að hv. 2. þm. Vestf. taki sig svo hátíðlega sem formann Rannsóknaráðs að hann telji óeðlileg vinnubrögð að flytja till. um að viss mál sem meðhöndluð þannig að það sé skipuð sérstök n. í þau, að að þessi mál séu þess eðlis að það mætti hugsa sér að Rannsóknaráð fjallaði um þau? En það eru engin lög um það. Ætlar þá þessi hv. þm. að setja upp sama hundssvip ef það kemur fram till. um að skipa menn í n. til þess að fjalla um ákveðið málefni, við skulum segja húsnæðismál, vegna þess að Rannsóknaráð ríkisins hefur haldið ráðstefnu um húsnæðismál? Væri nokkur goðgá að flytja till. þar sem gert væri ráð fyrir að skipuð yrði nefnd til þess að athuga einhverja sérstaka þætti sjávarútvegsins þó að Rannsóknaráð ríkisins hafi haldið ráðstefnu um sjávarútvegsmál? Svona mætti halda áfram með iðnaðarmál, og ég hef einhvers staðar heyrt að það yrði bráðum ráðstefna um landbúnaðarmál.

Samkvæmt þessu er Rannsóknaráði ríkisins ekkert mannlegt óviðkomandi. Það er e.t.v. ekkert nema gott um það að segja. En ég held að verkefni Rannsóknaráðs séu nú samt ekki svo víðtæk. En ef Rannsóknaráðið getur afrekað þetta allt fyrir utan það, sem því er sérstaklega falið á hendur samkvæmt íslenskum lögum, þá er ekkert nema gott um það að segja. En hv. 2. þm. Vestf. og formaður Rannsóknaráðs má ekki komast í illt skap þó að það komi fram till. hér á hv. Alþ. um að skipa sérstaka n. til þess að vinna að einhverjum málum, jafnvel þó að þau kunni kannske á einhvern hátt að snerta þá starfsemi sem Rannsóknaráðið lætur einkum til sín taka.

Ég vona að okkur hv. 2. þm. Vestf. verði ekki þetta að miklu misklíðarefni. Ég trúi því naumast að hann muni beita áhrifum sínum hér á hv. Alþ. til þess að koma í veg fyrir að jafnþýðingarmikil þáltill. og sjálfsögð sem hér er um að ræða nái fram að ganga.