04.11.1975
Sameinað þing: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

29. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég átti ekki upptökin að því að Ármannsfellsmálið kæmi hér á dagskrá, og ég ætla ekki að ræða það hér. Hins vegar vil ég í örfáum orðum gera að umtalsefni það sem kom fram í ræðu hv. 12. þm. Reykv. áðan, þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði styrkt Alþfl., jafnvel Alþýðublaðið, að því er mér skyldist — ég var nú ekki alveg viss um hvort það var meiningin hjá honum líka.

Það getur vel verið að hv. þm. hafi gert þetta, ég hef ekki minnstu hugmynd um það. Ég tel þó enga ástæðu til þess að efa orð hans þar um, þó að hann hafi að vísu ekki tekið fram í hverju þessi styrkur hafi verið fólginn né hvenær hann var inntur af hendi. Það er að sjálfsögðu ekkert við því að segja að maður, þótt úr öðrum stjórnmálaflokki sé, a. m. k. núna, heldur en þeim stjórnmálaflokki sem hann styrkti eða styrkir, — það er að sjálfsögðu ekkert við því að segja þótt hann láti eitthvert framlag af hendi rakna. Ég held að flestir okkar, hv. þm., sem hér erum inni, höfum einhvern tíma t. d. keypt happdrættismiða af öðrum flokki. Ég hef gert þetta, keypt slíka miða af kunningjum mínum úr öðrum flokkum. Ég hef keypt happdrættismiða í happdrætti Þjóðviljans og þar með styrkt Þjóðviljann gegn því að kunningjar mínir keyptu happdrættismiða af happdrætti Alþýðublaðsins. Ég hef keypt happdrættismiða af Sjálfstfl. Það hefur oft komið til að menn úr flokkum hafi styrkt aðra flokka en þeir tilheyra sjálfir með slíkum hætti, og ég tel ekkert athugavert við það. Það er ekkert athugavert við slíkt fyrr en það er hægt að segja að það sé samhengi á milli ákveðins fjárframlags frá einstaklingi, stofnun eða fyrirtæki og ákveðinnar fyrirgreiðslu sem þessum gjafara er veitt af opinberum aðila eða mönnum í opinberri trúnaðarstöðu, þannig að ástæða sé til þess að ætla að tengsl séu á milli gjafarinnar annars vegar og fyrirgreiðslunnar hins vegar. Það er þá sem hægt er að fara að líta á slíka hluti alvarlegum augum — þá og þá fyrst.

Ég vil alveg sérstaklega taka það fram í sambandi við það sem fram kom hjá Albert Guðmundssyni, að ég get lýst því yfir að hann hefur a. m. k. enga tilraun gert til þess sjálfur né neinn á hans vegum að hafa nokkur áhrif á skrif Alþýðublaðsins, hvorki um Ármannsfellsmálið né Albert Guðmundsson persónulega. Hafi Albert Guðmundsson veitt Alþýðublaðinu einhvern styrk, sem ég ekki veit um, getur vel verið, þá hefur hann a. m. k. ekki gert tilraun til þess að notfæra sér þá gjafmildi sína til þess að þagga niður í Alþýðublaðinu þegar það hefur skrifað eitthvað sem Albert Guðmundssyni hefur ekki líkað. Hafi hann veitt Alþfl. sjálfum einhvern styrk, þá er mér ekki heldur kunnugt um að hv. þm. hafi nokkurn tíma fengið lóð í verkalaun.