05.04.1976
Neðri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2985 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

23. mál, umferðarlög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er ekki ein báran stök. Ég geri sömu játningu og hv. síðasti ræðumaður, að í þessu máli er ég sammála hæstv. dómsmrh. og býð honum stuðning minn við að koma fram ágætu stjfrv. gegn vanhugsaðri uppreisn í þn. sem um það hefur fjallað.

Því meira sem ég hef heyrt talað um mál þetta, bæði hér á þingi og utan þings, því sannfærðari hef ég orðið um að það, sem hér hefur verið kallað tilfinningasemi eða tregðulögmál, ræður miklu meiru um afstöðu manna í þessu máli heldur en þeir vilja sjálfir viðurkenna. Það er raunar mikil kurteisi að vera að nota þessi orð yfir það sem heitir manna á meðal númerasnobberí og er svo sterkt afl hér á landi, að mér er tjáð að valin númer séu seld fyrir tugi þúsunda.

Að öðru jöfnu mættu menn svo sem halda uppi þessum leik. En hér hefur verið lagt fram frv. um að gera breytingu á bílaskráningu sem er í áttina til aukinnar hagræðingar og stórfellds sparnaðar og heilbrigð skynsemi þar að auki. Þá tel ég ekki að Alþ. eigi að leyfa númerasnobberíínu að hrifsa af þjóðinni 20 millj. kr. sparnað.

Það er mjög í tísku að amast við númeranotkun yfirleitt, og má vel vera að persóna einstaklinganna sé komin í hættu af þeim sökum. Númeragjafir geta farið út í öfgar, en ég verð að játa að mér finnst ég hafa nálega hvern dag töluvert mikið gagn af nafnnúmerinu mínu.

En þetta mál snýst ekki um að númera persónur. Hv. 11. þm. Reykv. talaði um að við værum allir orðnir að númerum í sambandi við þetta frv. Hann gerir ekki lengur greinarmun á sjálfum sér og bílnum sínum. Það tvennt er ég, eitt og sama fyrirbrigðið. En það er töluvert annað að númera vélræna hluti, sem renna um götur og vegi og drepa fjölda manns á ári hverju, heldur en að stimpla sjálfa einstaklingana, svo að ég tel ekki ástæðu til þess að færa slík rök fram gegn frv.

Það, sem kalla má efnisleg rök og fram hefur verið fært úr umsögnunum, er mjög virtust snúast til tveggja vega, er t.d. vandamál varðandi veðsetningu bifreiða. Nú skal ég ekki neita því að miðað við núverandi kerfi hljótast vafalaust af þessu einhver vandamál, en ég hef því miður ekki mikla samúð með því. Mér finnst lánafarganið á einstökum þegnum þessa lands vera komið svo úr hófi fram að það sakaði ekkert þótt það væri bókstaflega bannað að veðsetja bifreiðar og öll þau viðskipti, sem í sambandi við þau veð eru, hreinlega þurrkuð út. Það væri stórkostleg efnahagsumbót ef skuldir einstaklinga væru minni og einfaldari hér á landi heldur en þær eru í dag.

Önnur mótbára er sú, að erfiðara mundi vera að hafa áhættusvæði varðandi bifreiðatryggingar. Þetta kann að vera rétt. En þó vil ég biðja menn um að íhuga hvað þeir sjá ef þeir líta kringum sig á götum Reykjavíkur um hávetur, þegar sáralítið er hér af bílum utan af landinu nema þá úr allra næsta nágrenni. Það er ótrúlegur fjöldi bifreiða sem er sýnilega í bænum alla daga, notaður af fólki sem býr hér, en bera númer utan af landinu. Ég er hræddur um að vegakerfið sé orðið það gott og hreyfing á tækjum og mönnum það mikil að svæðaskipting á 218 þús. sálum, þó að landið sé stórt, sé harla vafasöm og það séu líklega nokkuð margir hér í borg sem misnota þetta kerfi ef þeir geta fengið örlítið lægri tryggingu með því að skrá bíla sína annars staðar. Önnur skýring er ekki til á því hve mikið af bílum með númer úr öðrum sveitarfélögum er í notkun hér á höfuðborgarsvæðinu.

Varðandi það, sem sagt var um húsnæði Bifreiðaeftirlitsins, vil ég taka skýrt fram að það er alls ekkert hégómamál. Það er lítill vandi að segja að menn, sem vilja hafa ákveðin númer, séu ekki of góðir til þess að setja þau á bíla sína í roki og rigningu undir beru lofti. Það er út af fyrir sig ekki kjarni málsins. En skoðun, sem bæði fer fram við bifreiðaskipti og endranær, er gerð af Bifreiðaeftirlitinu, og sú vinnuaðstaða, sem Bifreiðaeftirlítið hér í Reykjavík hefur haft nú um langt árabil undir berum himni, er fyrir neðan allar hellur og er íslenskum yfirvöldum til hreinnar skammar að hafa ekki bætt úr því fyrir löngu. Það vill svo til að ég hef býsna oft aðsetur í húsi þar sem ég sé út um glugga yfir þennan vinnustað, og þykist ég því geta allvel dæmt um það hvernig hann er og hvað starfsmönnum er boðið. Það mæðir miklu meira á þeim heldur en eigendum bifreiðanna sem rétt þurfa að skjótast úr bílnum og inn í kofann sem stendur þarna á viðavangi, hér austur í bæ.

Að lokum vil ég segja þetta: Í þessum umr. hefur hæstv. dómsmrh. haldið því fram, að þetta frv. mundi í framkvæmd færa okkur 20 millj. kr. sparnað á ári. Talsmaður n. hefur dregið þetta í efa eftir þá athugun sem n. hefur látið fara fram á málinu. Mér finnst að d. eigi ekki að láta bjóða sér að ganga til atkv. meðan svo ólíkum tölum og niðurstöðum er haldið fram um eitt meginatriði málsins. Það er útilokað annað en það sé hægt að fá upplýsingar sem annað hvort sanna eða afsanna fullyrðingu hæstv. ráðh., en hann nefndi nokkuð ákveðna tölu, um 20 millj. Ég vil því beina því til hæstv. forseta að umr. verði ekki lokið, heldur verði þess farið á leit við hv. n. að hún taki málið aftur upp og kanni sérstaklega spurninguna um sparnað í sambandi við þá breytingu, sem lögð er til með frv., og d. fái að heyra niðurstöðu af þeirri athugun sem n. þá væntanlega gerir í samráði við hæstv. ráðh.