03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3470 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

256. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég get ekki neitað því að ég átti von á einhverju slíku tali úr þessari átt, það kom mér ekki á óvart. En ég vil ítreka það að hv. d. eða hæstv. Alþ. hefur falið landbn. meðferð þessara mála og landbn. falið þau samtökum framleiðenda sem gerast innflytjendur um leið. Það getur vel verið að þetta sé rétt leið, ég er ekki að leggja neinn dóm á það. En það er augljóst að Grænmetisverslun landbúnaðarins í því formi, sem hún hefur starfað, hefur gjörsamlega brugðist skyldu sinni. Ég legg þó ekki til að hún verði lögð niður, heldur að eðlileg samkeppni verði henni við hlið.

Varðandi markað fyrir íslenskar kartöflur hér heima fyrir ef uppskera erlendis er góð og verð á íslenskum kartöflum og íslensku grænmeti undirboðið, þá eru hagstjórnartæki til þess að fyrirbyggja innflutning á erlendum vörutegundum ef við höfum nægilegt magn á einhverjum tíma hér heima af góðri vöru. Þetta er því eins og að blása út í loftið, að tala eins og hv. síðasti ræðumaður talaði.

Hv. síðasti ræðumaður heldur því fram að það fyrirkomulag, það kerfi, sem við búum við, virðist vera óhagganlegt. Ég ætla að leyfa mér að vitna hér, með leyfi hæstv. forseta, í ummæli formanns Neytendasamtakanna, en hann segir í viðtali:

„Neytendasamtökin hafa reynt að koma í veg fyrir að þessi vara væri flutt til landsins, en það er á einskis annars valdi en heilbrigðisyfirvalda að stöðva innflutning á skemmdri vöru. Við höfum reynt að benda á hvað hér er raunverulega að gerast, en eins og sjá má hefur þeim ábendingum ekki verið sinnt. Við höfum sem sagt ekkert vald til þess að stöðva svona innflutning, þó ekki skorti til þess viljann.“

Ég sé ekki ástæðu til að lesa það sem hann segir áfram. Það er um annað mál, en kemur þó einokun við, þegar einokunarfyrirtæki ákveður í hvaða magni hver og einn skal kaupa. Hann segir að það sé ekki aðeins óhentugt fyrir fátækt, gamalt fólk, sem ekki hefur efni á að kaupa mikið magn í einu, að leggja út fyrir vörunni sem skemmist svo í hita við geymslu, heldur líka erfiðleikum bundið fyrir gamalt fólk að bera 5 kg poka frá verslun og heim til sín. Það er því margt sem kemur hér inn í annað en bara skemmda varan.

Þar fyrir utan vitnaði ég hér í verð á vörunni og hvað hún hefur hækkað umfram það sem önnur matvara hefur hækkað. Það er kannske skýringin á því að þetta er eina fyrirtækið a.m.k. í Reykjavík sem er gulli búið í umgerð sinni. Þetta er best búna og virðulegasta og reisulegasta bygging sem er utan um eitt verslunarfyrirtæki í Reykjavík. Það furðar kannske engan þegar þeir sjá hver álagningin virðist vera.

Ég kem nú aðallega aftur í ræðustólinn, ekki kannske til að svara hæstv. síðasta ræðumanni, heldur til þess að bæta því við mína ræðu að ég óska eftir að þessu frv. verði vísað til fjh.og viðskn.