04.05.1976
Neðri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3548 í B-deild Alþingistíðinda. (2932)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. þm., sem hér var að tala síðast, beindi fyrst og fremst, held ég, fsp. sínum til landbrh. og ég ætla ekki að svara fyrir hann. (KP: Heyrir ekki þessi stofnun undir hann?) Jú, jú. En hann talaði dálítið meira almennt um þessi mál og þess vegna vildi ég segja út af því, sem hann ræddi um launaákvarðanir í bönkum, að ég veit ekki betur en í bankalögum yfirleitt sé mælt þannig fyrir að laun starfsmanna skuli ákveðin með reglugerð sem bankaráð setur. Að vísu eru sérlög um hvern banka og ég skal ekki ábyrgjast að þau séu öll samhljóða að þessu leyti, en ég hygg það þó vera.

Hitt er svo annað mál, að í framkvæmdinni hefur ekki verið farið eftir þessu ákvæði bókstaflega, heldur hafa bankastarfsmenn í reyndinni fengið, að ég ætla, samningsrétt um sín kjör og hafa þá samið við bankaráðin eða nefndir sem bankaráðin hafa væntanlega sett sem samningsaðila við starfsmannafélögin. Þannig hygg ég þetta vera í framkvæmd. Ráðh. hefur hins vegar ekkert um launakjör bankastarfsmanna að segja. Ráðh. hefur aðeins, og ég hygg að það sé eins um þann ráðh. sem fer með Búnaðarbankann, hann hefur aðeins vald til að ákveða þóknun bankaráðsmanna og ég get upplýst það að hún hefur ekki enn fengist hækkuð.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fara að ræða um það hvort þessi hækkun, sem hann talaði um á launum eða fríðindum bankastjóra, hafi verið réttmæt eða ekki eða hvaða ástæður hafi til hennar legið. Ég þykist þó vita að þar hafi verið miðað við aðra ákveðna starfsmenn í ríkiskerfinu.

En út af því, sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði um ásetning fyrri stjórnar og hennar gerðir til þess að koma við sameiningu ríkisbanka, þá er það rétt, sem hann mælti um þá nefndarskipun, sem átti sér stað á sínum tíma, og um þær till. sem hún gerði um sameiningu Útvegsbankans og Búnaðarbankans. Frv. um það mun hafa verið lagt fram á Alþ., en það hlaut ekki afgreiðslu. Ég hygg að verið hafi þrátt fyrir þá stefnuyfirlýsingu, sem ríkisstj. hafði gert um þetta á sínum tíma, nokkur ágreiningur um hvort að þessu ráði skyldi horfið, bæði innan þings og utan, og þetta mál þess vegna verið lagt á hilluna, enda ekkert slíkt ákvæði í málefnasamningi núv. ríkisstj.

Hins vegar tek ég mjög undir það sem landbrh. sagði, að það þarf að eiga sér stað viss breyting á verkaskiptingu hjá ríkisbönkunum og þá fyrst og fremst á þá lund að Búnaðarbankinn, sem er orðinn mjög stór og öflugur banki, verður að taka í stærri stíl en hann hefur gert hingað til að sér viss verkefni. Það hygg ég að verði gert með eðlilegustum hætti með samningum á milli bankanna og þá ekki hvað síst með samningum á milli Búnaðarbankans og Útvegsbankans, og Landsbankinn kemur þar auðvitað inn í líka og þá sérstaklega með tilliti til þess að sá atvinnuvegur, sem hvílir þyngst á Útvegsbankanum, sjávarútvegurinn, þyrfti að mínum dómi að meira leyti en nú er að flytjast yfir til Búnaðarbankans. Ég tel eðlilegt að Búnaðarbankinn taki í því sambandi á sig meiri skyldur heldur en hann hefur nú. Að vísu hefur hann gengið talsvert í þá átt að taka þetta að sér eða a.m.k. einstök útibú hans. En ég tel þetta sanngjarnt, ekki síst vegna þess að t.d. sá staður sem Útvegsbankinn hefur viðskipti við og hefur haft viðskipti við, ein stærsta verstöð landsins, Vestmannaeyjar, varð fyrir því áfalli á sínum tíma sem öllum er kunnugt um og það hefur auðvitað komið talsvert þungt niður á Útvegsbankanum. En jafnframt því sem slík breyting ætti sér stað, þá er auðvitað eðlilegt að Búnaðarbankinn fái gjaldeyrisréttindi, og Seðlabankinn hefur heimild til þess að veita honum slík réttindi samkv. seðlabankalögunum. En um leið og hann fær slík réttindi, þá er eðlilegt að hann taki á sig fullkomnar skyldur í samræmi við það. Þegar lítið er á þetta og hann settur þannig að öllu leyti á bekk með hinum ríkisbönkunum, þá er ekki óeðlilegt að stjórn hans verði skipað með sama hætti og þeirra.

En þetta álít ég að sé ekki heppilegt að gera með valdboði og raunar ekki gerlegt að stokka þannig upp á ný verkefni á milli bankanna, heldur verði það að gerast með samningum þeirra á milli.

Að öðru leyti vil ég upplýsa það, að þó að hafi verið horfið frá fyrirhugaðri sameiningu bankanna, sem mörg skynsamleg rök mæltu með að mínum dómi, þá hefur verið samið frv. til allsherjarbankalaga, um ríkisbankana, sem mundi leysa af hólmi hin einstöku sérlög sem um þá gilda og hvort eð er eru nú að miklu leyti samhljóða. Ég tel eðlilegt að það sé sett heildarlöggjöf um þá. Þetta frv. er tilbúið hjá mér. Sömuleiðis hefur verið samið heildarfrv. um einkabankana.

En um þá ýmsu hlutafélagsbanka eða einkabanka, sem hafa verið settir á stofn, hefur þeirri reglu verið fylgt að sett hafa verið sérlög um hvern einstakan banka. Það gildir að vísu sama um þá eins og ríkisbankana, að þau sérlög eru í mörgum greinum og ég held að sé óhætt að segja í flestum greinum svipuð, og þess vegna er líka að mínum dómi eðlilegt að steypt sé saman þessum einstöku sérlögum í heildarlög. Og það er líka tilbúið Frv. um það efni sem hjá mér liggur. En þar sem langt er liðið væntanlega á þingtímann nú, þá taldi ég það tæpast þjóna nokkrum tilgangi að vera að leggja þessi frv. fram nú, því að þau eru þess eðlis að það er eðlilegt að menn vilji fá nokkurn tíma til þess að athuga þau og íhuga, og þess vegna hefur verið gert ráð fyrir því að þau yrðu fyrst lögð fram að hausti. En ég tek undir það, að í þessum væntanlegu lögum er þörf á því að mínu mati að skilgreina öllu skýrar og betur valdsvið bankaráða heldur en gert er í núgildandi löggjöf, ekki aðeins að því er varðar vald þeirra, heldur líka ábyrgð. og setja skýrari og fyllri ákvæði um það.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en vildi aðeins taka þetta fram í tilefni af því sem fram kom hjá hv. þm. Vestf., Karvel Pálmasyni, og upplýsa þetta um þá fyrirhuguðu bankalöggjöf sem um er að ræða að reynt verði a.m.k. að setja. En þó að sú breyting, sem nú er verið að tala um á Búnaðarbankanum, verði gerð, þá fellur hún að sjálfsögðu að öllu leyti inn í þann ramma sem gert er ráð fyrir að væntanleg bankalöggjöf sníði bönkunum.