06.05.1976
Neðri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3784 í B-deild Alþingistíðinda. (3095)

154. mál, sálfræðingar

Frsm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um sálfræðinga hefur verið rætt í menntmn. og orðið algjör samstaða um það. Í Ed. var gerð á frv. breyt. á 5. gr. sem gengur út á það, að afturkalla megi löggildingu sálfræðinga séu vissar ástæður fyrir hendi, þ.e.a.s. sjúkdómur, misnotkun vímugjafa, hár aldur eða af öðrum ástæðum, Í Ed. var þessi upptalning á ástæðum: misnotkun vímugjafa og hár aldur, felld niður, en talið nægja að tilfæra sjúkdóm eða aðrar ástæður.

N. þótti full ástæða til að mæla með þessu frv. Það felur í sér löggildingu á starfsheiti og starfsemi sálfræðinga. Þetta er ung og vaxandi starfsgrein hér á landi og í öðrum löndum nýtur hún slíkrar lögverndar. Til samanburðar má nefna að í fyrra og á s.l. þingi hlutu félagsráðgjafar hliðstæða lögvernd. Því þykir eðlilegt og sjálfsagt að sálfræðingar, sem raunar eru á margan hátt í störfum tengdir félagsráðgjöfum, njóti hliðstæðra réttinda.

N. mælir því með frv. með áorðnum breyt. frá Ed. Einn nm. var fjarstaddur afgreiðslu málsins, Ellert B. Schram. Það er því niðurstaða menntmn. Nd. að málið, eins og það er komið frá Ed., hljóti samþykki.