12.05.1976
Efri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4092 í B-deild Alþingistíðinda. (3377)

261. mál, laun starfsmanna ríkisins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð til andsvara því sem hv. 5. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, sagði í ræðu sinni nr. 2. í þessu máli. Ég er honum sammála um meginatriði þessarar till. og hef því ekki fremur en hann neina breytingu við hið svokallaða kerfi að gera, þó að það sé kannske verkefni út af fyrir sig og athugunarefni hvers vegna þessir starfsmenn geta ekki starfað að fullu af samvískusemi án aukatekna eins og aðrir þjóðfélagsþegnar að innheimtustörfum eða öðrum þeim störfum, sem þeim er falið að vinna og ber skylda til að gera samkv. sínum embættisskipunarbréfum. En það er annað mál og ég hef ekki neina till. um það frekar en hv. 5. þm. Austurl. að gera. En ég held, að hann hafi tekið hér afskaplega slæm dæmi þegar hann tók dæmið um sölu vélar sem kostaði kannske 10 millj. og af henni fengju menn þá eitthvað meiri þóknun heldur en, eins og hann sagði, innheimtulaun, heldur en þeir sem selja stykkjavöru. Ég held að þetta sé mjög mikill misskilningur. Hröð sala í stykkjavöru hefur yfirleitt miklu meiri veltu heldur en hæg sala í vélum, fyrir utan það, að vélasala kallar á alls konar skyldur við framtíðarþjónustu vélanna, bæði hvað varahluti snertir og eins þjónustu eins og upplýsingastarfsemi ef um bilanir er að ræða.

En það er annað sem ég vil alveg sérstaklega benda á vegna þess að það er stórt atriði. Innheimtulaun eru ekki innifalin í álagningu, þ.e. innheimtulaun fyrir innheimtan söluskatt eru ekki í álagningargrundvelli. Og ég veit ekki til þess, eins og hann sagði hér, — ég vitna í það sem ég skrifaði ettir honum: Það tíðkast ekki í neinu landi að innheimtulaun greiðist ekki fyrir innheimtu ríkissjóðstekna, — ég veit ekki um mörg lönd þar sem álagning er ekki að öllu leyti eða a.m.k. að mestu leyti algerlega frjáls. Ef svo væri hér þyrftu verslunarmenn og verslunin yfirleitt, hvort sem það heitir samvinnuverslun eða ekki, þá þyrfti hún ekki að taka á sig þann gífurlega innheimtukostnað, þann aukakostnað vegna vinnu við innheimtu ríkissjóðstekna eins og raun ber vitni, en fá hann ekki endurgoldinn. Sum stór fyrirtæki þurfa bókstaflega að hafa í sinni þjónustu sérstakt fólk til að gegna þessum kvöðum sem ríkisstj. eða ríkisinnheimtan leggur á þau í þegnskyldu, og þá er ég ekki víss um nema um stjórnarskrárbrot sé að ræða. Ég efast um að Alþ. geti sett þau lög sem skylda menn til að vinna fyrir ekki neitt. Ég stórefast um það. En það vita þeir, sem nokkuð fylgjast með verslun og þá stærri verslunum, að það þarf a.m.k. einn mann aukalega til að fylla út form á vegum ríkisins og sjá um að skil séu gerð á þann hátt sem lög mæla fyrir um.

Ég vil taka það fram, án þess þó að vita með vissu, að ég veit ekki um eitt einasta land 30–35 árum eftir lok heimstyrjaldarinnar síðustu sem enn þá býr við alls konar brbl. og reglugerðir sem settar voru á stríðsárunum, eins og t.d. álagningartakmarkanirnar sem koma í veg fyrir frjálsa verðmyndun í landinu. Ef verðmyndunin væri frjáls, þá væri hægt að byggja verðmyndunina upp á þann hátt að verðið stæði undir öllum tilkostnaði við rekstur fyrirtækja, en ég er sannfærður um að vörurnar yrðu þó ódýrari en þær eru í dag. Ég held því að þetta sé svo góð till., þessi brtt., að mér dettur ekki í hug að 1976 sé einn einasti þm. í Ed. — ég skal ekkert segja um Nd. — sem ekki samþykkir þessa brtt.

Hvað varðar málflutning flokksbróður míns, 2. þm. Norðurl. e., þá gleður það mitt hjarta að hann skuli vera samþykkur hugsuninni sem er að baki till. um greiðslu fyrir innheimtu ríkissjóðstekna til þeirra sem verða að innheimta þessar tekjur. Ég varð þess vegna nokkuð hissa að hann skyldi byrja mál sitt á þessum orðum, en enda með því að segja að hann ætlaði ekki að vera með till. Og hann tók fram að till. gæti orðið til góðs. En það er ekki rétt að tengja hana lögum um starfsmenn ríkisins. Með henni áleit hann að væri verið að fjölga í hópi ríkisstarfsmanna. Ég held að hópurinn, sem innheimtir þessar tekjur, breytist ekkert hvort sem till. er samþ. eða felld. Það heldur áfram að vera þegnskylduvinna fyrir þessa aðila að innheimta ríkissjóðstekjur ef hún verður felld. Það breytir engu. En það heldur líka áfram að vera þegnskylda, þessir aðilar og þessi vinnuhópur verður látinn inna af hendi þessi störf í þágu ríkissjóðs fyrir ekki neitt og minna en ekki neitt, vegna þess, eins og ég tók fram áðan, að mikill aukakostnaður er við mannahald og að sjálfsögðu allt sem leiðir af mannahaldi, skrifstofuhald og allt sem er í kringum það, húsnæði og annað, sem er hreinn mínus þá, vegna innheimtu ríkissjóðstekna. En hér segir — með leyfi hæstv. forseta — í aths. við lagafrv. þetta; ég las þetta reyndar upp áðan, ég ætla að lesa það aftur:

„Með bréfi, dags. 27. okt. 1971, skipaði fjmrh. n. til að gera till. um breytt fyrirkomulag um greiðslu aukatekna sýslumanna, bæjarfógeta og sambærilegra embættismanna“. Ég álít að þegar er búið að taka verslunarstéttina og gera hana að sambærilegum embættismönnum við aðra innheimtumenn ríkissjóðstekna, þá eigi það sama að ganga yfir alla.

Varðandi ummæli hv. 2. þm. Norðurl. e. í sambandi við þær 3 millj. kr. sem eru á fjárlögum til kaupsýslustéttarinnar, þá er það ekki alveg rétt orðað, enda talar hv. þm. af mikilli vanþekkingu um þetta framlag, ekki bara hér, heldur líka við afgreiðslu fjárl. Þessar 3 millj. eru til komnar eftir kjarasamninga og eru framlag til Kaupmannasamtaka Íslands til þess að þau komi á stofn hagdeild. Þetta er veitt í alveg sérstökum tilgangi. En þetta er ekki, eins og hv. þm. gat um, umbun til verslunarstéttarinnar fyrir þá þjónustu sem hér er um að ræða, þ.e. innheimtu ríkissjóðstekna. Það er mesti misskilningur. Mér þætti vænt um et hann vildi kynna sér málið betur og leiðrétta það síðan sjálfur.

Hvort það er góð till. eða slæm, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. gerði í lok máls síns að fella niður þessa 3 millj. kr. fjárveitingu á fjárl. og í staðinn komi þóknun í einhverju formi, þá þóknun fyrir innheimtu ríkissjóðstekna, það er mál sem þarf að athuga betur og ég get ekki sagt um á þessu stigi. En það þyrfti þá að hækka það eitthvað meira en um það sem ég er með í huga fyrir innheimtu söluskatts o.fl. ef á að standa undir hagdeild, sem er sett á stofn að ósk ríkisstj. sjálfrar við gerð kjarasamninga.