12.05.1976
Efri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4099 í B-deild Alþingistíðinda. (3405)

275. mál, stofnlánasjóður vörubifreiða

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég þarf held ég ekki að svara mörgum orðum því sem hv. 7. landsk. þm. sagði hér, þar sem ég held að það hafi komið fram í minni framsöguræðu hver ástæðan er fyrir því að þetta mál er tekið hér sérstaklega. Þeir aðilar, sem þetta frv. nær til, voru búnir að undirbúa þetta mál vel og mátti segja að það væri tilbúið til þess að leggja það fram þegar þáltill. var samþykkt hinn 18. mars s.l. um undirbúning að stofnun sjóðs fyrir stórvirkar vinnuvélar og stóra bila. En eftir samþykkt þeirrar þáltill. ætlaði samgrh. einnig að bíða með þetta mál og undirbúa það í sumar. En þessir aðilar, sem standa að þessum vöruflutningabifreiðum, leggja mjög mikla áherslu á að fá þetta frv. samþykkt vegna þess bráðabirgðaástands sem er á þeim lánum sem þeir fengu á s.l. ári og eru alger vandræði að geta ekki gengið frá. Þess vegna lögðu þeir mikla áherslu á að þetta mál yrði lagt núna fram.

Ég sagði einmitt það sama og hv. 7. landsk. þm. um nauðsyn þess að gera allt sem hægt væri til þess að létta á vegunum með betri skipulagningu á flutningum á sjó, en jafnframt að þessir landflutningar hljóta að halda áfram fyrir því vegna ástæðna sem ég tilgreindi.