12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4130 í B-deild Alþingistíðinda. (3454)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Við höfum leyft okkur að leggja hér fram brtt., þ.e.a.s. ásamt mér eru þeir hv. þm. Gunnlaugur Finnsson, Þórarinn Sigurjónsson og Páll Pétursson, við 15. gr. frv. Við gr. bætist: „Af árlegu framlagi ríkissjóðs í Byggðasjóð skulu 26% renna Stofnlánadeild landbúnaðarins.“

Í sambandi við þessa till. kemst ég ekki hjá því að ræða þetta mál töluvert, þó að því miður sé tíminn stuttur sem við höfum til umráða, því að það er ekki hægt fyrir okkur bændafulltrúana að fara héðan af þingi öðruvísi en að ræða þessi mál og fá niðurstöðu hvernig eigi að fjármagna Stofnlánadeild landbúnaðarins og veðdeildina eins og nú horfir.

Þegar lánsfjárskýrsla hæstv. ríkisstj. kom fram fyrir áramótin, þá fylgdi sú yfirlýsing að það væri stefnt að því að fjárfestingarsjóðirnir mættu ekki auka sín útlán nema sem svarar 7%. En þegar þessi skýrsla kom fram, þá kom það í ljós að það vantaði 235 millj. upp á það að Stofnlánadeildin fengi sama fjármagn til útlána á árinu 1976 eins og hún hafði á árinu áður, 1975.

Í þessari lánsfjárskýrslu kemur líka í ljós að það var stefnt að því á árinu 1975 að útlán Stofnlánadeildarinnar væru 11% hærri en á árinu áður, en Fiskveiðasjóðs tæp 90% og Iðnlánasjóðs tæplega 50% hærri. Reyndin varð svo sú að á árinu 1975 voru útlán Stofnlánadeildarinnar 32% hærri en árið áður. Nú er það með Stofnlánadeild landbúnaðarins að hún í raun og veru lánar til ýmissa annarra hluta heldur en til landbúnaðarins beint. Hún lánar t.d. til alls íbúðarhúsnæðis í sveitum, og þegar það er skilgreint t.d. hjá Seðlabankanum, þá sé ég ekki betur en að sá líður sé settur með útlánum til landbúnaðarins, en ætti auðvitað að vera til íbúðarhúsabygginga. Enn fremur er það þannig, að í vinnslustöðvar landbúnaðarins, bæði sláturhús og mjólkuriðnað, lánar Stofnlánadeildin til þessara framkvæmda og það mun líka vera skilgreint á sama veg, að það sé til landbúnaðarins, en ætti að mínu mati að vera öðruvísi flokkað. E.t.v. skiptir þetta ekki meginmáli nema áróðurslega. Þegar er verið að tala um hvað fari af lánsfé til landbúnaðarins, þá verða menn að vera þess minnugir hvernig þessi skipting er.

Af þessum 1230 millj., sem deildin hefur til útlána á þessu ári, eru rúmar 400 millj. sem fara til þessara tveggja liða og eru þá rúmar 800 millj. til alls annars. Þannig er það nú með Stofnlánadeildina að hún hefur neyðst til þess að svara neitandi öllum lánsumsóknum sem hafa borist deildinni, bæði sem við neituðum í fyrra og hverri einustu lánsumsókn sem hefur borist nú. Deildin tók það til bragðs að gefa þó mönnum kost á því að endursækja og rökstyðja það og koma með vottorð um að það væri alls ekki hægt að fresta framkvæmdum. 5lfkar umsóknir áttu að vera komnar inn fyrir miðjan maí. Þessum umsóknum rignir nú inn, og í mörgum tilvikum er það þannig að bændur eru búnir að panta efni, þeir eru jafnvel byrjaðir á framkvæmdum og þeir vilja ekki trúa því að varðandi þær framkvæmdir, sem í eðli sínu er ekki hægt að fresta, fái þeir nú neitun frekar en ýmsir aðrir. En úr þessu hefur ekki verið leyst enn á nokkurn hátt.

Í skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins kemur fram að það eru 26.4% sem búa í sveitum ef maður dregur frá þéttbýlið hér í Reykjavík og á Reykjanesskaga. Það þykir því ekki óeðlilegt að landbúnaðurinn fái sinn hlut af því fé sem fer í Byggðasjóð. Í þessari merkilegu skýrslu kemur fram að heildarfjárveiting til landbúnaðar, — ég fer eftir skýrslunni, hún er sjálfsagt rétt, — hafi verið 2.79%, og ef landbúnaður er ekki byggðamál, ef það er ekki skilgreint byggðamál hér á Alþ. eða í Framkvæmdastofnuninni eða annars staðar, hvað er þá byggðamál? Ég vil spyrja. Á s.l. ári var það afgr. af hæstv. ríkisstj. að í Stofnlánadeildina skyldu fara 150 millj., og mér satt að segja fannst það ekki nema eðlilegt þar sem þá var líka mikil fjárvöntun. En hvað gerðist? Það gerðist það að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar hafnaði því sem ríkisstj. á fundum sínum hafði þá samþ. og lagt til. Og ég vil þakka hæstv. ríkisstj. fyrir það, að þrátt fyrir þessa neitun var staðið við það. Við fengum þetta fé með öðru móti, en það var ekki Framkvæmdastofnuninni að þakka.

Nú eru þessi mál, eins og ég sagði áðan, þannig að nú er kominn 12. maí. Nú bíða bændur eftir því að fá svar við því hvort þeir megi byggja hlöður við hús, þar sem eru engar hlöður við, eða hús við hlöður sem voru byggðar í fyrra eða hittiðfyrra, en hefur ekki verið hægt að byggja húsin. Ég vil spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvaða úrræði eru önnur heldur en að taka þá fé af Byggðasjóði sem er ætlað á fjárlögum um hálfur annar milljarður, að mér sýnist, ef er ekki hægt að taka það þar? Ég geri ráð fyrir því að ýmsir komi hér upp á eftir mér og bendi á það, að ef þetta verði gert, þá geti Fiskveiðasjóður og aðrir sjóðir komið líka og krafist þess sama. (Gripið fram í.) Já, ég veit að hann fær það. En þá vil ég spyrja: Hvernig á að leysa málið? Það er ekki hægt að svara því á þann veg að þessi leið sé ekki fær vegna þess að við höfum samþ. það og ég verið aðili að því að það sé sinnt byggðamálunum. Ef þetta eru ekki byggðamál, þá er ég hættur að skilja hvað byggðamál eru.

Ég var á ferðalagi um Norðurlönd fyrir örfáum víkum og ég ræddi þar við ýmsa menn um hvernig þetta væri gert í þeirra löndum, að standa að slíku. Það væri allt of langt mál að fara að segja frá því hér og ég ætla ekki að eyða tímanum í það. En ég vil segja það, að okkur hefur t.d. verið sagt að danskur landbúnaður fengi ekki styrk vegna þess að hann væri í Efnahagsbandalaginn, það mætti ekki. Ég fékk nú aðrar upplýsingar. Ég fékk þær upplýsingar að danskur landbúnaður geti fengið allt upp í eða yfir 90% að láni. Þessi lán eru með 91/2 %–141/2 % vaxtakjörum, til 30 ára í sumum tilvíkum, eða allt frá 10–30 ára eftir því til hvers það er. En ef einyrkjabóndi, sem er í litlum efnum, kaupir jörð og allt til þess, þá getur hann fengið 110 þús. danskar og styrk til þess að borga niður vextina, þó aldrei nema 5% á ári af þessum vaxtagjöldum, þannig að vextirnir fyrir hina efnaminni eru 41/2–91/2%. Og þeir, sem hafa stórbýli, eru með menn í vinnu, geta fengið upp í 220 þús. í styrk á sama hátt.

Ég tók eftir því í Noregi að landbúnaðurinn er styrktur þar með svo margs konar móti að ég held að hv. alþm. ættu að kynna sér það og viðhorf til þeirra mála. Ég talaði t.d. við fyrrv. landbrh. Torstein Treholt, sem er alþýðuflokksmaður, og ég er hræddur um að flokksbræður hans á Íslandi líti á landbúnaðarmál öðrum augum en hann gerir.

Ég ætla ekki að tefja meira tímann að sinni. Ég geri ráð fyrir því að það verði einhverjar umr. um þetta og mun ég þá einhverju bæta við. En ég endurtek það að við félagarnir fjórir höfum flutt þessa till. Við bendum á leið til þess að fá fjármagn í Stofnlánadeild landbúnaðarins og leysa þann vanda sem þar er. Ef hv. alþm. sjá sér ekki fært að fara þessa leið, þá spyr ég aftur: Vill hæstv. ríkisstj., vill hæstv. forsrh. benda á aðra leið? Sé það hægt, þá er vel, en sé það ekki, þá látum við þessa till. ganga til atkv.

Till. er víst of seint fram komin, enda skrifleg, og þarf því afbrigða við.