13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4144 í B-deild Alþingistíðinda. (3476)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég verð að segja það í sambandi við það nál. hv. félmn. sem hér liggur fyrir að ég er ekki ánægður með þá afgreiðslu sem þetta frv. hefur hlotið hjá þeirri virðulegu n. Ég get að mörgu leyti skilið þau sjónarmið, sem fram koma í nál. og lýst var af frsm. n., hv. 3. þm. Vestf., og það getur þvælst fyrir mönnum að gæta nokkurrar varkárni við það hversu langt eigi að fara út á þá leið að heimila almenna fasteignaskatta. En eins og tekið var fram í ítarlegri grg. sem fylgdi þessu frv., bæði þegar það var lagt fram í fyrsta skipti seint á árinu 1915 og eins núna, þá gildir um þetta frv. nokkur sérstaða og að mínu mati dálítið einstök staða.

Það háttar þannig til í þessu byggðarlagi, Akureyri, sem er verið að fara fram á heimild til að leggja á sérstakt gatnagerðargjald, að bak við þá ákvörðun eru almennar óskir bæjarbúa. Bæjarstjórn Akureyrar, skipuð 11 mönnum af 5 mismunandi stjórnmálaflokkum, hefur einróma lagt til að þetta frv. yrði flutt og þessarar heimildar yrði óskað. Það er sem sagt almennur vilji bæjarbúa á Akureyri að flýta eins og hægt er að gera varanlegar götur á Akureyri, og íbúar bæjarins eru reiðubúnir að taka á sig aukakvaðir í þessu sambandi. En formsins vegna er ekki hægt að verða við þessum almennu óskum íbúa bæjarfélagsins nema fá til þess lögmæta staðfestingu ríkisvaldsins.

Maður heyrir það ákaflega oft á vettvangi stjórnmálanna að flokkarnir tala mikið um það í stefnuskrám sínum, að ég tala nú ekki um skömmu fyrir kosningar, að rétt sé að efla valdsvið sveitarstjórna. Þess vegna get ég ómögulega skilið hvað getur verið því til fyrirstöðu að verða við jafneindreginni ósk og hér er fram borin og er studd af almennum vilja þeirra íbúa sem skattinn eiga að gjalda og af hverju hið opinbera, í þessu sambandi löggjafinn, hið háa Alþ., bregst á neikvæðan hátt við þessum tilmælum. Ég get vel skilið það sjónarmið að mönnum sé það nokkuð til efs að skapa hin og þessi fordæmi. En ég fæ þá ekki heldur skilið að það væri mikil hætta að samþ. þetta frv. og lofa reynslunni að skera úr um það hvernig framkvæmd samkv. ákvæðum þessa frv. mundi reynast.

Ef aftur bærist ósk til löggjafans frá öðrum sveitarfélögum sem vildu feta þessa sömu slóð, þá sé ég ekki að það væri nein hætta á ferðum þó það væri orðið við slíkum óskum. Sú beiðni, sem felst í ákvæðum þessa frv., er studd svo almennum vilja að mér finnst það vægast sagt hálfandhælislegt, að ekki sé meira sagt, að geta ekki orðið við þeim tilmælum sem felast í ákvæðum þessa frv., að ég tali nú ekki um þegar einnig má hafa það í huga að samþykkt þess kostar ríkissjóð ekki nokkra minnstu fjármuni. Ég get því ekki annað en lýst andstöðu minni við það nál., sem hér liggur fyrir, og mun óska þess að þetta frv. verði samþ.