13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4158 í B-deild Alþingistíðinda. (3491)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að óska þess að ég fái nægilegan tíma til þess að svara fyrir mig. Ég skal reyna að gera það í eins stuttu máli og mér er unnt.

Ég vil ítreka að ég tel það óeðlilegar og ósanngjarnar fullyrðingar frá hv. 3. þm. Vestf. þegar hann bendlar mig og þá, sem hann minntist á í sínum málflutningi og geta varið sig sjálfir, við einhverja sérstaka skattpíningarstefnu í þessu máli eða einhverju öðru. Ef hann gæti nefnt eitt mál sér til stuðnings — eitt, þá væri ég honum afskaplega þakklátur, þar sem hann gæti rökstutt að ég hafi í þessu máli eða einhverju öðru haft uppi skattpíningarstefnu. Í þessu máli er ég að taka undir óskir íbúa á Akureyri sem bornar eru hér fram af réttkjörnum fulltrúum þeirra og hafa verið samþykktar einróma af öllum pólitískum fulltrúum í bæjarstjórn. Ég er að taka undir þær óskir, en ég er ekki að flytja hér neinn persónulegan boðskap.

Ég vil þá beina svörum mínum til hv. 10. landsk. þm. Ég tel að það sé mikil framför og það sé heilræði frá minni hlið að óska eftir því að hann vitni miklu oftar í mínar ræður miklu oftar. Það gæti eflaust bætt málflutning hans verulega, ef hann slítur það ekki úr samhengi. Það var engin samstaða í borgarstjórn Reykjavíkur um að láta gatnagerðargjöld verka aftur fyrir sig 5 ár eða lengur eða skemur, það er langt frá því, og það verður aldrei samstaða um það, meðan borgarstjórn er skipuð eins og hún er skipuð í dag, að láta gatnagerðargjöld verka aftur fyrir sig. En hitt er annað mál og það er rétt, að ég mótmælti því á sínum tíma sem borgarstjórnarmaður. En ég vil svara honum á sama hátt og hv. 3. þm. Vestf., að ég er að taka undir óskir bæjarstjórnar Akureyrar, ég ítreka það, þar sem samstaða hefur náðst með öllum pólitískum fulltrúum fólksins um að gera hreint í kringum sig með sérstöku átaki með sameiginlegum sjóði. Ég hef ekki neina ástæðu til þess að rengja það hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að það sé ekki rétt með farið þegar hann segir að það sé samstaða um það. Ég vil taka undir það og ég ítreka það.

En hvað varðar framlag hv. 4. þm. Suðurl. til þessa máls, að það sé varhugavert að búa til lög um hvert einstakt atriði í þágu sveitarfélaga. Ég tel að það sé rangt af löggjafanum að búa til allsherjarbúning allra sveitarfélaga. Það er svo misjafnt hvað sveitarfélögin vilja gera sínu byggðarlagi til hagsbóta og í hvaða röð þau vilja gera það. Og ég vil leggja á það áherslu að það verði ekki búin til einhver algild regla um sveitarfélög, að eitt sveitarfélag geti ekki dregið sig út og gert eitthvað annað en öll sveitarfélögin hafa rétt til þess að gera. Það á að vera eftir mati kjörinna fulltrúa á staðnum í hvaða framkvæmdaröð þau vilja búa að sínu byggðarlagi, en ekki eftir lögum frá Alþ., í hvaða röð þau eigi að taka verkefnin. Það er líka mismunandi hvaða verkefni eru aðkallandi á hverjum stað fyrir sig, og ég lýsi enn þá meiri stuðningi við þetta frv. en ég gerði áðan.