13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4209 í B-deild Alþingistíðinda. (3610)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil þegar við 1. umr. þessa máls lýsa yfir stuðningi þingflokks míns, þingflokks Alþfl., við framgang þessa frv. á þessu þingi. Ég tel mjög ánægjulegt að samkomulag skuli hafa tekist milli hæstv. ríkisstj. annars vegar og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hins vegar um lausn á ævagömlu deilumáli milli opinberra starfsmanna og ríkisvaldsins. Ég fagna því mjög að slíkt samkomulag skuli hafa tekist, en þetta frv. er byggt á því samkomulagi sem náðist. Ég hygg að báðir eigi þar þökk skilið fyrir góða og drengilega framgöngu til lausnar á málinu, bæði hæstv. ríkisstj. og forustumenn opinberra starfsmanna. Ég læt í ljós von um að áframhaldandi viðræður milli ríkisstj. annars vegar og Bandalags háskólamanna hins vegar leiði einnig til samkomulags milli þessara aðila sem geti síðan orðið grundvöllur að lagasetningu um þetta efni. Till. sú, sem hv. síðasti ræðumaður nefndi, mun að sjálfsögðu verða athuguð í fjh.- og viðskn. sem ég á sæti í.