13.05.1976
Sameinað þing: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4309 í B-deild Alþingistíðinda. (3640)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Óhætt er að fullyrða að aldrei hefur verið við völd á Íslandi ríkisstj. sem notið hefur jafnlítils trausts almennings og núv. ríkisstj. Stjórnin hefur að vísu stuðst við allmikinn flokkslegan meiri hl. á Alþ., en einnig þar má nú sjá uppgjafar- og vonleysissvipinn á stuðningsmönnum hennar. Fall ríkisstj. er því augljóslega ekki langt undan.

Lánleysi núv. ríkisstj. er með ólíkindum. Það er eins og öll mál snúist í höndum ráðh. og að allar aðgerðir stjórnarinnar fari á þveröfugan hátt við það sem boðað er. Það var sannarlega ekki lítill völlur á núv. stjórnarherrum þegar þeir tóku við völdum á miðju ári 1974. Öllu átti að kippa í lag á stuttum tíma. Verðbólguna átti að stöðva, ríkisfjármálum átti að koma í lag, skuldasöfnun við útlönd átti að hætta og leiðrétta átti rekstrargrundvöll atvinnufyrirtækja.

Á tveggja ára valdatíma hafa öll þessi fögru fyrirheit orðið að engu. Og þó leyfir hæstv. sjútvrh. Matthías Bjarnason sér í umr. í kvöld að halda því fram að samstjórn íhalds og Framsóknar hafi bara tekist vel. Sá er lítilþægur eða hefur hann ekki áttað sig á því hve sjávarútvegsmálin hafa tekist illa í hans höndum. Verðbólgan á fyrsta valdaári stjórnarinnar jókst um hvorki meira né minna en 54.5% miðað við framfærsluvísitölu og þar af nam hækkun, sem beinlínis stafaði af ákvörðunum ríkisstj. sjálfrar, um 40 prósentustigum. Síðan hefur verðbólgan haldið áfram að magnast og mun að öllum líkindum vaxa um 80–85% á tveimur heilum valdaárum stjórnarinnar. Fjármál ríkissjóðs hafa verið slík raunasaga í tíð núv. stjórnar að engin dæmi eru slíks áður. Engar áætlanir um fjármál ríkissjóðs hafa staðist. Fjárlög hafa reynst marklaus tveimur mánuðum eftir samþykkt þeirra. Leggja hefur þurft á nýja og nýja skatta, og þá, sem fyrir voru, hefur þurft að hækka. Skatta, sem lagðir voru á vegna jarðelda í Vestmannaeyjum og annarra náttúruhamfara, hefur ríkissjóður orðið að taka til sin. Og þrátt fyrir alla skattana og öll ríkislánin hefur núv. ríkisstj. orðið að taka yfirdráttarlán, í rauninni nauðungarlán, í Seðlabankanum sem nema hvorki meira né minna en 10 milljörðum kr. Þvílík lagfæring á ríkisfjármálunum!

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum námu erlendar skuldir þjóðarinnar til langs tíma um 45 milljörðum kr. miðað við núverandi gengi, en nú nema þær um 80 milljörðum kr. og hafa því hækkað um 35 milljarða. Áður voru tekin erlend lán nær einvörðungu til kaupa á skipum og til mannvirkjagerðar, en nú er stór hluti hinna erlendu lána tekinn vegna neyslu.

Og hvernig er með rekstrarafkomu atvinnuveganna? Hefur þar orðið breyting til batnaðar? Nei, því fer víðs fjarri. Að dómi forustumanna í iðnaði og útgerð hefur ástandið í þeim atvinnugreinum aldrei verið verra en nú. En ríkisstj. hefur hins vegar tekist með alrangri stefnu í efnahagsmálum að minnka kaupmátt launa verkamanna, sjómanna ok bænda og annarra launþega um 25–30%. Henni hefur einnig tekist að draga úr þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum. Afsakanir hennar um óhagstæð ytri skilyrði eru lítils virði því að hið rétta er að erlendar verðhækkanir hafa verið litlar síðan stjórnin tók við. Þær höfðu að mestu gengið yfir á miðju árinu 1974. Verðfall á útfluttum vörum nemur aðeins litlum hluta af þeim kjaraskerðingarfjárhæðum sem stjórnin hefur knúið fram.

Það ástand, sem við blasir í efnahagsmálum landsins nú í dag, er stjórnleysi, — stjórnleysi á öllum sviðum. Dýrtíðin æðir áfram. Vextir eru almennt orðnir 20–24% eða þrísvar til fjórum sinnum hærri en í nálægum löndum. Lánskjör eru nú orðið bundin verðtryggingu í ríkum mæli, sem í reynd þýðir enn þá hærri vaxtagreiðslur. Ríkissjóður sjálfur rambar enn á greiðsluþrotsbarmi, en bætir þó sífellt á sig nýjum útgjöldum með fleiri og fleiri embættum og nýjum stofnunum.

Landhelgismálið var frá upphafi eitt af aðalmálum ríkisstj. 50 mílur, sem þó náðu yfir um 97% af öllum fiskimiðum við landið, voru lítils virði að dómi hinna nýju stjórnarherra og því lofuðu þeir strax 200 mílum. Útfærslan í 200 mílur hafði þó ekki fyrr átt sér stað en ríkisstj. bauð erlendum þjóðum frjálsar veiðar á öllu viðaukasvæðinu, úr 50 út í 200 mílur, og þar til viðbótar bauð hún miklar veiðiheimildir innan 50 mílnanna. Í landhelgisdeilunni við breta og vestur-þjóðverja hefur stefnuleysi og aumingjaskapur ríkisstj. verið með þeim hætti að engu tali tekur. Ríkisstj., sem fyrst gumaði af 200 mílum og vissi mætavel að ástand helstu fiskstofna við landið var orðið mjög alvarlegt, semur algerlega að óþörfu við vestur-þjóðverja um veiðar til tveggja ára. Hún svíkur hátíðlega gefið loforð um skilyrði sem sett voru fyrir samkomulaginu við þjóðverja og opnar friðlýst veiðisvæði aðeins til þess að þóknast þjóðverjum.

Það er öllum landsmönnum ljóst að hefði ekki komið til kröftug andstaða almennings í landinu og hörð mótmæli verkalýðssamtakanna og stjórnarandstöðunnar gegn undanhaldi í landhelgismálinu, þá væri ríkisstj. búin að glutra niður því máli eins og öðrum sem hún hefur haft til meðferðar.

Nú eru hins vegar orðin þáttaskil í landhelgismálinu. Réttur okkar og annarra strandríkja til 200 mílna er nú viðurkenndur af nær öllum þjóðum í heiminum. Bretar hafa opinberlega lýst yfir fylgi sínu við þá stefnu. Það er því aðeins spurning um stuttan tíma þar til bretar hljóta að gefast upp formlega og draga herskip sin heim. En síðustu átakadagarnir geta orðið örlagaríkir. Nú má ekki láta undan að beygja sig fyrir ofríkinu.

Sú reynsla, sem þjóðin hefur fengið í landhelgismálinu, er vissulega lærdómsrík. Þjóðin á nú að vita hverjir það eru sem varið hafa rétt hennar, og einnig hitt, hverjir það eru sem alltaf hafa verið tilbúnir til undanhalds og alltaf hafa verið með undansláttartón.

Þjóðin hefur líka fengið sína dýrkeyptu reynslu af NATO og fengið að sjá og heyra hvers virði það bandalag er íslendingum. Eitt af forusturíkjum bandalagsins hefur beitt okkur hernaðarlega ofbeldi, sent á fiskimið okkar vígdreka sína, og nú síðast hefur það hótað skotárás á íslenskt löggæsluskip. NATO-ráðið hefur ekki einu sinni fengist til þess að fordæma breta fyrir framkomu þeirra í landhelgisdeilunni.

Þjóðin hefur líka fengið að reyna hvers virði ameríski herinn er okkur þegar á reynir. Svo ósvífin hafa bandarísk stjórnvöld reynst að þau hafa neitað okkur um fyrirgreiðslu til þess að kaupa eða leigja óvopnuð gæsluskip.

Hvernig hafa svo íslensk stjórnvöld brugðist við framkomu NATO og Bandaríkjanna gagnvart okkur? Þau hafa raunverulega legið hundflöt og ekkert gert að gagni. Send hafa verið að vísu formleg mótmæli til NATO og dómsmrh. hefur eitthvað lítils háttar kvakað og sýnt óánægju sina út af viðbrögðum bandaríkjamanna á sambandi við skipaútvegun, en svo gjörsamlega hafa íslensk stjórnvöld legið marflöt fyrir frekju og yfirgangi breta að þau hafa t.d. knúið íslenska starfsmenn Landssímans til þess að greiða fyrir landhelgisbrjótum með talstöðvaafgreiðslu, en slíkt er auðvitað hreint hneyksli.

NATO og Bandaríkin hafa tvímælalaust brotið samning á okkur íslendingum. Framkoma þeirra hefur verið niðurlægjandi fyrir Ísland og vanvirðing á hæsta stigi. Ríkisstj. hefur enn ekki fengist til þess að grípa til þeirra ráða sem mundu duga til þess að reka bresku herskipin út úr íslensku lögsögusvæði, — þeirra ráða sem eru rökrétt og eðlileg þar sem Ísland er aðill að NATO og hefur samning við Bandaríkin um hervernd. Þau ráð, sem nú á að beita, eru í fyrsta lagi að kalla sendiherra Íslands hjá NATO þegar í stað heim og loka sendiráðinu þar og hætta öllum samskiptum við bandalagið. Í öðru lagi á utanrrh. okkar ekki að mæta á NATO-fundinum í Osló í næstu viku. Í stað þess á að senda á þann fund hörðorð mótmæli gegn afstöðu bandalagsins. Í þriðja lagi á síðan að tilkynna NATO og Bandaríkjunum að herstöð bandalagsins á Keflavíkurflugvelli verði lokað og tekið verði fyrir alla aðstöðu bandalagsins og Bandaríkjahers hér á landi. Það er það eina sem er rökrétt í málinu.

Allir vita, að núv. ríkisstj. beitir ekki þessum ráðum, a.m.k. ekki ótilneydd. Af þeim ástæðum þarf þjóðin, þ.e.a.s. allir landsmenn, að taka til sinna ráða í málinu. Um þessa helgi eða nánar til tekið nú á laugardaginn munu þeir, sem eru andvígir þátttöku Íslands í NATO og andvígir herstöðvum í landinu, efna til Keflavíkurgöngu og mótmæla þannig herstöðva- og herbandalagsstefnunni. Nú ættu allir, sem vernda vilja landhelgishagsmuni Íslands og hafa séð og heyrt hvernig NATO og Bandaríkin hafa komið fram gagnvart íslenskum málstað í landhelgismálinu, að sameinast í öflugum landsmótmælum með fjölmennari Keflavíkurgöngu en nokkru sinni áður, og einstaklingar og félagasamtök um allt land þurfa að gerast þátttakendur í mótmælunum með því að senda mótmælaskeyti og mótmælaundirskriftir þar sem mótmælagöngum verður ekki við komið.

Um það er ekki að villast, að nú dregur að nýjum alþingiskosningum. Sennilega hanga þó stjórnarflokkarnir saman út þetta árið, en það verður þó mest að nafninu til. Hér í þessum umr. í kvöld mátti greinilega heyra uppgjafar- og kosningahræðslutóninn, t.d. í ræðu Steingríms Hermannssonar, þegar hann játaði að þýsku samningarnir hafi ekki verið góðir og hann ætti erfitt með að þola framkomu NATO og fjandsamleg viðbrögð Bandaríkjanna og fleira var hann að minnast á í sambandi við stjórnarsamstarfið. Bilunin í Framsfl. er augljós. Framsókn mun rjúfa stjórnarsamstarfið á næsta vetri og kenna þá auðvitað íhaldinu um allar skammirnar. Þetta eru hennar ær og kýr alltaf. En hún á sinn hlut af skömmunum.

Það er enginn vafi á því að á næsta ári verða alþingiskosningar. Nú þarf þjóðin að draga rétta lærdóma af reynslunni. Nú hafa menn fengið að reyna íhalds-framsóknarstjórn. Hver er svo ábyrgðarlaus að hann vilji slíka stjórn aftur? Landsmenn verða að gera sér fulla grein fyrir samhengi þeirra hluta sem eru að gerast. Launafólk getur ekki háð eðlilega kjarabaráttu í stéttarfélögum sínum eingöngu. Það verður að skilja að launabarátta með þeim hætti að styðja núverandi stjórnarflokka er í eðli sínu þversögn og fjarstæða. Og nær þúsundir landsmanna, sem áttað hafa sig á þeirri miklu þýðingu sem vernd auðlinda lands og sjávar hefur fyrir okkur og hvernig við eigum að hagnýta þær auðlindir, þær geta ekki falið þeim mönnum forsjá á stjórnmálasviðinu sem brugðist hafa jafnhrapallega og núv. stjórnarherrar hafa gert.

Ég sný máli mínu sérstaklega til launafólks, til verkafólks, sjómanna og bænda um allt land og til allra frjálslyndra manna. Nú er tíminn kominn til þess að undirbúa næstu alþingiskosningar. Nú þarf að mynda breiðari og sterkari samstöðu vinstri manna í landinu með bakstuðningi alls launafólks en nokkru sinni áður. Þannig þarf að tryggja þjóðinni nýja framfarastjórn og losa þjóðina sem fyrst við þá óheillastjórn sem nú fer með völd í landinu. — Góða nótt.