17.05.1976
Neðri deild: 112. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4496 í B-deild Alþingistíðinda. (3979)

161. mál, skipan sóknarnefnda og héraðsnefnda

Frsm. minni hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, þá klofnaði allshn. í þessu máli og við skilum áliti á þskj. 836. Við töldum að það væri óþarft að hraða þessu máli svo mjög sem gert hefur verið. Við töldum eðlilegt eftir atvikum að leita umsagna um málið hjá ýmsum aðilum, svo sem Prestafélagi Íslands, héraðsfundum og Kirkjuþingi.

Við flytjum brtt. við 8. gr. frv. vegna þess að ef frv. yrði samþ. óbreytt, þá getur einfaldur meiri hl. á safnaðarfundi eða jafnvel samstæður minni hl. ráðið vali allra sóknarnefndarmanna. Þar sem enn fremur er uppi hreyfing um það að svipta söfnuðina rétti til þess að kjósa presta og færa það vald í hendur embættismanna kirkjunnar, m. a. sóknarnefnda, þá þarf að gæta vandlega að því að fyllsta lýðræðis sé gætt við val sóknarnefndarmanna. Nái brtt. okkar ekki fram að ganga, þá leggjum við til að frv. verði fellt. En brtt. okkar á þskj. 836 er þannig, að úr 3. gr. frv. falli niður orðin „Kosningar skulu vera óhlutbundnar“, en það er einmitt breyting sem sett var í frv. í Ed.

Nú skýrði síðasti ræðumaður frá því hvernig þessi breyting væri til komin, það hefði þótt skynsamlegt að hafa skýr ákvæði um það hvernig kosning skyldi fara fram. En við föllumst ekki á það að því sé betur fyrir komið með þeim hætti. Ég hygg að söfnuðum ætti að vera frjálst að velja sér kosningafyrirkomulag sjálfum.