18.05.1976
Neðri deild: 114. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4505 í B-deild Alþingistíðinda. (4039)

287. mál, vegalög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Hæstv, forseti. Á þskj. 853 er frv. til l. um breyt, á vegalögum, Ákvæði það, sem hér er breytt, er að vegáætlun sú, sem gerð verði, gildi aðeins fyrir árið 1976 eða yfirstandandi ár, en ekki, eins og lögin gera ráð fyrir, næstu fjögur ár. Rökin fyrir því, að farið er fram á þessa breytingu, eru þau, að það hefur sýnt sig við gerð vegáætlunar að kostnaðarauki á milli ára hefur reynst mikill. Hefur því verið erfitt að fylgja vegáætlunum og hefur orðið að breyta frá því og það komið sér mjög illa, enda erfitt að gera áætlanir þegar verðhækkanir eru svo miklar sem raun ber vitni nú.

Í öðru lagi er það að vegalögin í heild eru í endurskoðun og hafa verið það frá því á s.l. sumri. Í n. manna, sem að því vinnur, eru þm., einn úr hverjum þingflokki, auk ráðuneytisstjórans í samgrn., sem er formaður, og vegamálastjóra, sem er varaformaður. Rétt þykir að bíða þessarar endurskoðunar með gerð vegáætlunar til langs tíma þar sem hinar mörgu áætlanir, sem nú eru í gangi, gera mjög erfitt að afgreiða vegáætlun, eins og komið hefur fram á þessu og síðasta þingi, og reynist erfiðara eftir því sem fram líða stundir. Enn fremur er það svo að nú verður notaður hluti af því happdrættisfé í Norður-, Austur- og Vesturveg sem heimild er þó til sölu á þar sem ekki var talið framkvæmanlegt að ná því fjármagni sem þurfti til þess arna. Af þessum ástæðum er þessi breyting gerð, til þess að fella saman endurskoðun á vegalögum og gerð vegáætlunar eftir það. Jafnframt mundi þá tíminn einnig verða notaður til tekjuöflunar og til að koma þessum málum betur fyrir heldur en nú er.

Ég legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn., en í hv. Ed. var það lagt fram og fékk þar skjóta afgreiðslu.