03.12.1975
Efri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

71. mál, launaskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti.

Á þskj. 76 er frv. til l. um breyt. á l. um launaskatt. Hér er um að ræða framlengingu á gildandi lögum, alveg óbreyttum eins og þau eru nú og hafa verið frá því að lög um skattkerfisbreytingu tóku gildi. Eins og rakið er í grg. með frv. eru lögin að stofni til frá 1965, en þá var lagður á 1% launaskattur. Árið 1970 var lagður á sérstakur launaskattur, 1.5%, í tengslum við efnahagsráðstafanir sem þá voru gerðar. Launaskattur hækkaði enn á s. l. ári um 1%. Var sú hækkun tengd ráðstöfunum til lausnar vinnudeilu sem uppi var fyrri hluta þess árs.

Gildistími launaskatts samkv. l. nr. 95 1974 rennur út nú um n. k. áramót. Frv. á þskj. 76 gerir ráð fyrir að gildistíminn verði enn framlengdur um eitt ár, og hefur verið við það miðað við gerð fjárl. Að mínu mati er óeðlilegt að binda gildistíma skatta í lögum, en þar sem hér hefur verið talið um bráðabirgðaskattheimtu að ræða að hluta til er að sjálfsögðu rétt að framlengja gildistíma laganna aðeins um eitt ár.

Ég legg svo til. herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.