16.10.1975
Neðri deild: 7. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki vera langorður að þessu sinni. Það er margt af því, sem fram hefði þurft að taka í sambandi við það mál sem hér er til umræðu, komið fram, en það er þó einstaka atriði sem ég vil víkja að örfáum orðum.

Ég held að ég geti tekið mér í munn hið forna spakmæli, að svo lengi lærir sem lifir. Ég hafði ekki búist við þessu, eftir það sem hv. 1. þm. Suðurl. og fleiri talsmenn úr þingliði Sjálfstfl. á haustinu 1971 sögðu í ræðustól á Alþingi um þann lagabálk sem þá var lagður fram og var um Framkvæmdastofnun ríkisins. Þau voru mörg og stór, þau orð sem þá voru látin falla, og þá fyrst og fremst vegna þess ákvæðis sem hér er fyrst og fremst verið að ræða, þ. e. um stjórn stofnunarinnar eða framkvæmdaráð, eins og ég hygg að það hafi þá heitið og heiti enn.

Ég tel ástæðu til þess nú við 1. umr. þessa máls að víkja örfáum orðum að því sem gerðist haustið 1971 þegar þessi löggjöf var til umræðu í þáv. ríkisstj. Það fór ekki dult þá að fulltrúar SF, þeir tveir ráðherrar í þáv. ríkisstj., voru sömu skoðunar og gert er ráð fyrir í því frv., sem nú er til umræðu, að það væri æskilegast og eðlilegast að ráðinn væri einn framkvæmdastjóri við stofnunina. Ef ég man rétt, það verður leiðrétt ef það er rangt með farið, — ef ég man rétt, þá gætti svipaðrar afstöðu hjá fulltrúum Alþb. Og þá er aðeins eftir þriðji aðilinn sem stóð að þessari ríkisstjórn, Framsfl., og ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að það var einmitt á hans afstöðu sem strandaði í því efni að ekki varð úr að farið væri inn á þá braut sem hér er um talað, að ráðinn yrði einn framkvæmdastjóri við stofnunina. Og ég heyrði ekki betur en að einmitt hæstv. dómsmrh. í hans ræðu hér áðan undirstrikaði einmitt þetta sjónarmið sitt og að ég hygg Framsfl. það skyldi nú ekki vera, hvað sem góðum vonum hv. 1. þm. Suðurl. og óskum líður um að samkomulag takist væntanlega í ríkisstj eins og hjá „okkur fjórmenningunum“, held ég að hann hafi orðað það, tókst í nefndinni, þá skyldi nú ekki vera að einmitt á þessu atriði strandaði innan stjórnarflokkanna? Það er greinilegt að þarna er um ágreining að ræða, að því er þetta varðar, annars vegar milli Framsfl. og hins vegar Sjálfstfl. þ. e. a. s. ef hv. Sjálfstfl.-þingmenn eru enn sömu skoðunar og þeir voru haustið 1971, og það virtist mér hv. 1. þm. Suðurl. vilja undirstrika hér áðan, að hann væri sömu skoðunar og hann var þá.

Þetta sjónarmið þingfl. SF. haustið 1971 fékk ekki hljómgrunn. En þrátt fyrir það stóðum við að setningu þessarar löggjafar á því hausti, og ég hygg að hefði ekki verið gert slíkt, þá hefði ekki verið um að ræða að þessi þjóðþrifastofnun, að ég tel, hefði verið sett á laggir. En eins og ég sagði áðan, þá voru mörg og stór orð látin falla af talsmönnum Sjálfstfl. og að því er virtist að þeir mættu vart vatni halda í fordómum og stóryrðum um einmitt þetta atriði frv. Þá hlýtur að skjóta nokkuð skökku við að á s. l. hausti, eftir að ný ríkisstj. var mynduð, skyldu þeir sömu hv. þm. sem mest gagnrýndu þetta kann ske fyrst og fremst vera talsmenn og verjendur þess sem þeir áður fordæmdu. Ég hefði ekki látið mér detta það í hug að ég ætti eftir að heyra hv. 1. þm. Suðurl., þegar hann talaði um Framkvæmdastofnun ríkisins, segja í hvert einasta skipti: „þessi virðulega stofnun“. Það var ekki þessi tónn eða þessi ummæli í ræðu þessa hv. þm. meðan fyrrv. ríkisstj. sat að völdum. En ég tók eftir því áðan að í hvert skipti sem hann nefndi þessa stofnun sagði hann: „Þessi virðulega stofnun“. — Í hvert einasta skipti. Ég er alveg sammála hv. þm. að þetta er virðuleg stofnun.

Eins og hér hefur verið vikið að, þá var og er í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. ráð fyrir því gert að endurskoða löggjöfina um Framkvæmdastofnun ríkisins og átti að gerast og leggja fram frv. á síðasta Alþingi. Hæstv. forsrh. sagði áðan að málið ynnist seinna en ætlað hefði verið. Það, sem fyrst og fremst var ágreiningur um og þeir sjálfstæðismenn deildu á, var einmitt þetta atriði, fyrst og fremst þetta eina atriði, og maður skyldi ætla að væri ekki ýkjalangur tími sem þyrfti til að endurskoða þetta ákvæði gildandi laga um Framkvæmdastofnun ríkisins og komast þar að niðurstöðu. En það fór þó svo að ekkert slíkt gerðist á síðasta þingi. Og hvað sem hæstv. forsrh. eða hv. 1. þm. Suðurl. segja nú um að það muni gerast á þessu þingi, þá bendir þó allt til þess að málið sé seinunnið, það þurfi langan tíma til þess að sætta sjónarmið milli flokka, stjórnarflokkanna, og ekki útséð um það að málið komi fyrir þetta þing flutt sem stj.frv. af hálfu hæstv. ríkisstj. Ég skal ekkert um það segja, ég veit ekki um það hvort þeir fjórmenningarnir, 2 úr hvorum stjórnarfl., náðu saman í sambandi við drög að frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins, það má vel vera að það hafi gerst, en um það veit ég ekki og skal ekki fara um það fleiri orðum. En ég vildi sem sagt láta það koma hér fram að strax haustið 1971, þegar rætt var um í tíð fyrrv. ríkisstj. að setja á laggir stofnun, þ. e. Framkvæmdastofnun ríkisins, þá var það sjónarmið SF að það væri rétt stefna að einn framkvæmdastjóri yrði ráðinn. Og við höfum ekki breytt um skoðun í þeim efnum.

Hæstv. dómsmrh. vék aðeins að fyrirkomulagi í sambandi við ráðningu á framkvæmdastjóra eða stjórum þessarar stofnunar og talaði þá um æviráðningu. Ég sé ekki að það breyti neinu. Það er engin þörf á að hafa æviráðningu þó að einn framkvæmdastjóri sé, frekar heldur en þrír. Ég sé því ekki að það séu nein rök gegn því að hægt sé að breyta í það form að aðeins einn framkvæmdastjóri sé ráðinn. En að öðru leyti virtist hæstv. dómsmrh. vera á annarri skoðun en t. d. kom fram hjá talsmönnum Sjálfstfl. haustið 1971, og við því er auðvitað ekkert að segja. En einmitt þessi sjónarmið, sem þarna stangast á, koma að öllum líkindum í veg fyrir að þarna náist saman endar hjá stjórnarflokkunum.

Ég heyrði líka að hv. 1. þm. Suðurl. talaði ýmist um einn framkvæmdastjóra eða fleiri framkvæmdastjóra, hvort það væri framkvæmdastjóri eða stjórar. Hann er greinilega farinn að gera ráð fyrir báðum möguleikunum í þessu tilviki nú.

Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um þetta, en ég vil þó sérstaklega víkja að því, sem hv. 1. þm. Suðurl. kom inn á í sambandi við Byggðasjóð. Hann sagði að Byggðasjóður hefði verið stórefldur, 2% af útgjöldum fjárlaga, og Byggðasjóður ætti ekki að þurfa að berjast í bökkum fjárhagslega séð. Þó er það, að ég hygg, staðreynd að ekkert lán hefur verið greitt út úr Byggðasjóði nú í nær 4 mánuði. (Gripið fram í.) Er það rangt? (Gripið fram í: Já.) Hvað er langt síðan? (Gripið fram í.) Já, það er þá fyrst í gær. (Gripið fram í.) Ég held að þarna sé ekki um rétt mál að ræða. Nú, eru 4 mánuðir síðan? Ég þakka hv. þm. Jóni Skaftasyni fyrir ábendinguna. Er það rétt, hv. þm. Sverrir Hermannsson, að það séu 4 mánuðir síðan tekin var afstaða til lána? Ég sé að þú telur á fingrum. (Gripið fram í: Það er rétt.) Það er rétt, já. Þá er það komið. (Forseti: Ég bið hv. ræðumann að gjöra svo vel að tala í ræðuformi, en samtöl fari heldur fram utan þingsalarins.) Það er sjálfsagt að verða við því, hæstv. forseti. En ef gripið er fram í, þá áskil ég mér rétt til að svara. En sem sagt, það er rétt að það eru 4 mánuðir síðan ákvarðað var lán úr Byggðasjóði. Vegna hvers er það? Er það vegna þess að fjárhagurinn sé svo traustur að Byggðasjóður þurfi ekki að berjast í bökkum? Það skyldi nú ekki vera að það væri eitthvað annað, sem þar lægi að baki.

Sannleikurinn er auðvitað sá að Byggðasjóður hefur ekki verið stórefldur með þeirri breytingu sem gerð var við afgreiðslu fjárlaga á s. l. hausti. Þó að sú breyting væri gerð að ákveða 2% af útgjöldum fjárlaga, þá voru þar póstar sem teknir voru af. Það voru póstar sem voru á fjárlögum til Byggðasjóðs sem voru teknir út, en voru áður. Og ég a. m. k. get ekki litið svo á, hvað sem hv. 1. þm. Suðurl. segir, að fjárhagur Byggðasjóðs hafi verið svo stórefldur að hann þurfi ekki að berjast í bökkum, þegar það er viðurkennt að það eru liðnir 4 mánuðir síðan síðasta ákvörðun var tekin um síðustu lánveitingu í stofnuninni. Mér þætti a. m. k. vænt um ef formaður stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins, hv. 1. þm. Suðurl., upplýsti hér hvernig á því stendur að það liðu 4 mánuðir á þessu sumri milli þess sem ákvarðanir voru teknar um lánveitingu. Hvað var það sem kom í veg fyrir að ákvarðanir um lánveitingar væru teknar allan þennan tíma. Ekki efast ég um að þörfin var brýn í því stjórnarfari sem yfir okkur íslendinga hefur dunið undanfarið ár. Það er þá eitthvað annað sem komið hefur þar til.