10.12.1975
Efri deild: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

92. mál, útvarpslög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er fyrir ýmissa hluta sakir þess vert að fjallað sé um það allítarlega. Ég hlýt að taka undir með hv. síðasta ræðumanni, að ég tel að á því séu ýmsir gallar eða öllu heldur að ýmislegt kunni að bresta á efnisgreinar frv. í þeirri mynd sem komið hefur fram og æskilegt sé að bæta úr, enda tók hv. 1. flm. Steingrímur Hermannsson fram í framsöguræðu sinni að þeir flm. væru til viðtals um að gera breytingar á frv. ef þær mættu verða til þess að það kæmist í aðalatriðum efnislega fram og nyti almenns stuðnings. Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson vakti athygli á því, að hann hefur oftar en einu sinni flutt þáltill. í þessa átt sem hér um ræðir í frv. Hann hefur gert það nokkrum sinnum á undan hv. þm. Steingrími Hermannssyni og nokkrum sinnum eftir líka. En ég kveð hv. þingmenn þessarar d. til vitnis um það, að þeir minnist þess að þessu sinni var hv. þm. Steingrímur Hermannsson á undan, en hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson gat þess að hann væri ef til vill til viðtals við hv. 1. flm. þessa frv. og leita leiða til þess, að þeir fái nú sameinað sjónarmið sín í þessu sérstaka máli, þannig að fram geli komið eitt frv. þessu sinni. Og ef hv. þm. Helgi F. Seljan hefði sömu aðferð og ræddi nú við þá báða hv. þm., sem ég hef nafngreint, um möguleika á því að koma einnig að sínum sjónarmiðum, þá gætum við fengið þarna ef til vill heilaga, járnbenta þrenningu sem mætti verða til þess að nú kæmist eitthvað fram í þessu máli. Ég tel ekki óeðlilegt og ósennilegt að a. m. k. hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson og Steingrímur Hermannsson geti komið sér saman um þetta, þeir hafa komið sér saman um ýmislegt sem verra er nýlega.

En hvað um það, ég er nú þeirrar skoðunar að þeir útvarpsstjórar, sem við höfum haft sem forstöðumenn Ríkisútvarpsins í 45 ár, þeir hafi allir verið mjög miklir áhugamenn, einlægir áhugamenn um að bæta dreifikerfi útvarpsins, koma því til leiðar í fyrsta lagi að gamla útvarpið okkar, hljóðvarpið okkar, gamla Gufuradíóið, kæmi til skila efni sínu út um hinar dreifðu byggðir landsins óbrjáluðu, og hið sama gildir náttúrlega um sjónvarpið seinna. Hér hefur verið við ramman reip að draga. Þegar sá útvarpsstjóri, sem hv. þm. Helgi F. Seljan vitnaði í áðan og ég hef stundum vitnað í, sagði að það væri í sjálfu sér ekki stefna Ríkisútvarpsins að heyrast út um hvippinn og hvappinn, þá var hann svo sannarlega ekki að gefa í skyn að hann teldi ekki fulla þörf á því að dagskrá útvarpsins kæmist til Austfjarða. Þetta var eins konar, ja, ef svo má segja neyðaróp, þetta var nauðvörn útvarpsstjóra sem hafði háð mjög harða baráttu fyrir því að fá fé, fá heimild til að hækka afnotagjöld útvarpsins með ákveðnum hundraðshluta mörkuðum til þess að bæta dreifikerfið, og það var einmitt hér á hv. Alþingi sem þetta mál var eyðilagt. Það er hv. Alþingi sem staðið hefur alla tíð á, þegar til kastanna hefur komið, að leggja af mörkum það fé sem þarf til þess að koma upp dreifikerfi fyrir Ríkisútvarpið og raunverulega búa að því þannig fjárhagslega að sæmilegt sé. Á þessu á hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson að vísu enga sök, því að það skal viðurkennt, sem satt er, að hann hefur verið Ríkisútvarpinu mikill haukur í horni þegar fjallað hefur verið um málefni þess hér á hv. Alþ., þó það atfylgi hafi ekki leitt til annars en þess að knýja meiri hl. þm. til þess að lýsa yfir góðum vilja sínum, en ekki nægt til þess þegar til kastanna kæmi að þá veittu þeir þessu máli atfylgi.

Það er rétt sem hv. þm. Helgi F. Seljan sagði, að eftir 45 ára starf heyra austfirðingar flestir hverjir, eftir að dimma tekur nótt á síðsumri, svo illa dagskrá íslenska hljóðvarpsins að heita má að ekki komi óbrjálaður tónn úr viðtækjum þar eystra þrátt fyrir endurvarpsstöð á Eiðum, a. m. k. til músíkflutnings.

Það er orðið býsna langt síðan tækni var tiltækileg með FM-stöðvum til þess að dreifa útvarpsefninu út um allt land, þannig að hvarvetna mætti hlýða á óbrjálaða tónlist. Það hefur verið augljóst mál, að allt síðan sjónvarpsdreifistöðvakerfinu var komið upp var hægt með tiltölulega litlum kostnaði að bæta dreifikerfi útvarpsins, þar sem koma mátti fyrir sjálfvirkum sendistöðvum í sömu húsum, í sömu kofum og sjónvarpsstöðvunum var komið fyrir á fjöllunum. Með tiltölulega litlum kostnaði, sagði ég, en samt var það meiri kostnaður en svo að Ríkisútvarpið hefði bolmagn til þess með óbreyttum tekjum að inna þetta verk af hendi.

Ef rakin eru samskipti Ríkisútvarpsins og fjármálavaldsins í þessu landi frá upphafi, þá kemur ýmislegt í ljós sem bendir til þess að hið æðsta vald á Íslandi kynni að standa í óbættri sök við Ríkisútvarpið frá upphafi vega. Ríkisútvarpið hefur áður farið þær leiðir að marka sér fé til þess að standa undir framkvæmdum. Ríkisútvarpinu tókst á tiltölulega fáum árum að eignast nægilega mikið fé til þess að reisa fullkomið útvarpshús. Það átti 6 millj. í sjóði við stríðslok, á þeim tíma þegar dollarinn kostaði ekki nema 6.54, fjárupphæð sem hefði nægt til þess að reisa mjög vandað hús yfir starfsemi sína. Þessa peninga tók ríkisstj. með engum vilja yfirstjórnar Ríkisútvarpsins á sínum tíma og notaði þessa peninga til annars — til annarra framkvæmda og skilaði ekki aftur, eins og segir í fornum hæstaréttardómi, þótt eftir væri gengið um langa hríð, fyrr en dýrtíðin hafði nagað það mikið úr þessum sjóði að ekki nægði einu sinni til þess að steypa upp húsakynni yfir fréttastofu útvarpsins á sínum tíma, þannig að hún varð að leigja húsnæði annars staðar.

Síst ber að lasta imbakassann, síst ber að lasta sjónvarpið og það yndi, þá dægrastyttingu og menntun sem það getur veitt fólkinu í dreifðum byggðum landsins. Ég ber aftur á móti sérstaklega fyrir brjósti — og hlýt að viðurkenna það — málefni hljóðvarpsins. Sú hefur orðið reyndin í grannlöndum, þ. á m. í Noregi, að jafnframt því sem dreifing sjónvarpsefnis hefur aukist, þá hefur hljóðvarpið farið að gegna sérstöku menningarlegu hlutverki og einkum í byggðunum.

Það er rétt, sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson sagði áðan, að hér er um að ræða sérstakt byggðamál. En það lýtur miklu fremur að dreifingu hljóðvarpsefnis og fullkomnun sendikerfa hljóðvarps heldur en sjónvarps. Í Noregi hafa nú um 8 ára skeið verið reknar sérstakar héraðs eða sveitaútvarpsstöðvar, sem norðmenn kalla Lokalradio, og með tæknilegri uppbyggingu, skipulagningu og vali á útvarpsefni hafa þessar stöðvar náð geysilega miklum vinsældum. Þær gegna efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu hlutverki fyrir byggðarlögin. Og til þess að við gætum hugað að þeim möguleika að taka upp héraðsútvarp á Íslandi, þá hygg ég að við yrðum að hafa nokkra forsjá um það einmitt við fyrirhugaða uppbyggingu dreifikerfisins núna.

Ég er því hlynntur að markaður verði sérstakur tekjustofn til þess að treysta og endurnýja dreifikerfi Ríkisútvarpsins, fyrst og fremst hljóðvarps, en sjónvarps líka. Ég er ekki ákaflega mikið áfram um hugmyndina um að tryggja sjónvarp frá ákveðnum grunnlínupunktum út á fiskimiðin. Ekki svo að skilja að ég sé mótfallinn að íslenskir fiskimenn geti horft á sjónvarp þegar tóm gefst til og þeir eru úti á miðunum. Mér er aftur á móti persónulega kunnugt um það, að þegar verið er á miðunum, þá gefst ákaflega lítill tími frá svefni og vinnu til þess að horfa á sjónvarp, og ég vildi heldur að þetta yrði nú látið mæta afgangi. En ég lýsi enn yfir þessu, að ég tel þetta frv. í aðalatriðum gott. Ég tel að þær breytingar, sem þurfi að gera á þessu frv. til þess að það nái alveg tilgangi sínum, séu lítils háttar, og ég vildi gjarnan að þessi hv. d. legði sóma sinn í, að afnema þá annmarka sem menn telja núna á frv., koma því í það horf að við getum staðið saman að því, og má þá einu skipta hvor flutti það fyrr, hv. þm. Steingrímur Hermannsson eða Þorv. Garðar Kristjánsson.