12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

116. mál, fjáröflun til vegagerðar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel ekki nauðsynlegt að fara mörgum orðum um þetta frv. Því verður vonandi vísað til þeirrar nefndar sem ég á sæti í, fjh.- og viðskn. En ég vil benda á að það er talsvert í þessu frv. sem ég vil gera athugasemdir við, og úr því að hæstv. ráðh. gat um afstöðu leigubilstjóra til þessa frv., þá mun ég óska eftir því þar að fulltrúar frá leigubilstjórunum verði kallaðir á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir sínu máli. Ég held að það sé varhugavert að halda áfram á þeirri braut, sem þetta frv. stefnir, gagnvart leigubilstjórum og þeim sem hafa atvinnu af akstri.

Þá vil ég benda á að það er þungt gjald á Strætisvögnum Reykjavíkur. Það er kílómetragjald á þeim vegum sem þeir aka innanbæjar og eru að engu leyti fjármagnaðir með ríkisstyrkjum eða framlagi frá ríkissjóði. Ég tel óeðlilegt að Reykjavíkurborg eða Strætisvagnar Reykjavíkur séu látnir borga sérstakt kílómetragjald af innanbæjarakstri.

Það er fleira sem er athugavert við greiðslur til sveitarfélaga úr Vegasjóði sem ég ætla ekki að fara að telja upp hérna, en ég mun gera till. um það í nefnd að greiðslur úr Vegasjóði til sveitarfélaga eigi sér stað mánaðarlega. Að öðru leyti læt ég þetta nægja um frv. á þessu stigi.