12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Albert Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki rekja efnislega það frv. sem hér liggur fyrir til umræðu, en þrátt fyrir það að á nefndarfundi fjh.- og viðskn. kæmu ráðuneytisstjóri fjmrn. og fleiri stórmenni, m. a. fulltrúar frá Þjóðhagsstofnuninni, þá hefur það ekki breytt viðhorfum mínum til þeirra skatta sem hér er um að ræða. Ég móta mér skoðun samkv. mínum lífsvenjum og mínum lífsskoðunum, og þess vegna hef ég verið á móti þeim ákvæðum til bráðabirgða, sem hér eru lögð fram af hæstv. ríkisstj., og látið frá mér fara sérstakt nál.

2. minni hl. fjh.- og viðskn. hefur einnig látið frá sér fara sérnál. og gert þar samtímis till. um breytingar á því frv. sem hér liggur fyrir. Þó að ég styðji ekki þá brtt., þá er hún heldur nær því að vera samþykkjanleg af mér heldur en frv. sjálft. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa nál. mitt sem er á þskj. 159, en það er svo hljóðandi:

„Þar sem ég tel eignarskatt óréttlátan skatt til tekjuöflunar ríkissjóðs, mæli ég gegn hækkun þeirri, sem nú er fyrirhuguð, og tel að stefna beri að því að leggja eignarskatt niður.

Gjaldþol fólks þolir ekki íþyngjandi álögur eins og málum er nú komið.

Frv. þetta gerir ráð fyrir hækkun tekna til ríkissjóðs af eignarskatti af einstaklingum og félögum frá fjárlögum 1975 úr 443 millj. kr. í 952 millj. kr. Er hér um að ræða 509 millj. kr. viðbótarálag á umrædda skattgreiðendur sem ég met sem lið í eignaupptöku og leyfi mér að vara við.

Ungum og öldnum, sem lagt hafa afrakstur erfiðis síns til eignasköpunar í þjóðfélaginu, er hegnt með síhækkandi eignarsköttum. Þessu vil ég leggjast gegn og mun því mótmæla þessum hækkunum með því að greiða atkv. gegn ofangreindu ákvæði til bráðabirgða sem felst í frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt.“

Ég tel að allt hafi komið fram, sem ég tel mig þurfa að segja um þetta mál, í þessu nál. En án þess að lengja þessar umr. um of vil ég þó ljúka máli mínu með því að benda á þá staðreynd að stefna stjórnmátaflokkanna allra hefur um langt tímabil verið sú að almenningur í okkar harðbýla landi eignist í sem ríkustum mæli eigið húsnæði, þ. e. a. s. þak yfir höfuðið. Til þess að svo gæti orðið hafa verið samþykkt og sett lög á Alþ. til aðstoðar þessu fólki í gegnum ýmsa sjóði, m. a. þá sérstaklega í gegnum húsnæðismálastjórn, lífeyrissjóði og fleira þessum hugmyndum til framdráttar og fjárfrekar byggingaráætlanir kostaðar með slíkri lagasetningu. Þetta hefur að sjálfsögðu orðið íslenskri alþýðu mikil aðstoð við að koma sér upp eigin íbúðum, eigin þaki yfir höfuðið.

Ég held að það séu fleiri einstaklingar í okkar þjóðfélagi heldur en almennt gerist í öðrum þjóðlöndum sem eru íbúðareigendur og eru eignafólk að einhverju marki. Þessi hækkun úr einni millj. í tvær millj., sem enginn skattur á að greiðast af, er rúmlega það sem sæmileg bifreið er metin á í dag. Ég held að bæði íbúð og bifreið séu ein af nauðþurftum þjóðfélagsins, og ég tel að það sé rangt að ætla að skattleggja það sem við höfum, hvar sem við stöndum í stjórnmálaflokki, reynt að ýta að fólkinu, vegna þess að við höfum viðurkennt að fólkið þarf nauðsynlega á þessu að halda, íbúðum og svo farartæki til þess að komast frá heimili sínu og til baka, hvort sem það er til vinnu eða annað. Því hef ég ekki séð mér fært að vera samferða meiri hl. fjh.- og viðskn., en skila því sérnál. sem ég hef hér lagt fram, Og ég mun að sjálfsögðu í samræmi við það greiða atkv. gegn þessu frv. sem hér er lagt fram af hæstv. ríkisstj.