12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Albert Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég vil láta í ljós hryggð mína yfir því að sæmilega vel gerður maður skuli hvað eftir annað standa að því að koma á gjöldum í einhverri mynd. Ég held að hv. síðasti ræðumaður hafi ekki tekið nógu vel eftir því sem ég sagði hér áðan. Ég sagði eftir hans orðum að það bæri að leggja niður eignarskatt. En ég las upp úr nál. þar sem stendur orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Ég tel að stefna beri að því að leggja niður eignarskatt.“ Það er dálítið annað. Og það er mín lífsskoðun, ég tók það líka fram, en ekki að leggja hann niður nú á þessari stundu. Ég er hér með að mótmæla því sem ég kalla viðbótarskattinn sem fram kemur í frv. Ég ítreka það og það er engin sýndarmennska. Það er ekki langt frá því að gjaldþol fólksins sé þegar komið á spennupunkt og geti brostið þegar við er bætt. Og það fer ekkert á milli mála að viðbótareignarskattur, ef hann heldur áfram að hækka árlega, skref í hvert skipti nær eignaupptöku, og það er tilfellið í drag án hækkunar. Sumt fólk borgar talsverða húsaleigu í eigin íbúðum, í eigin húsum, og sú húsaleiga er alls ekkert lág.

Ég tel ekki óeðlilegt að sveitarfélög taki einhvern fasteignaskatt, eins og hér kom fram áðan, en ég tel óeðlilegt að ríkið seilist inn á þann markað sem á að vera í friði fyrir ríkinu, en sveitarfélögum kannske eðlilegri. Þar er dálítill munur á.

En hvað það snertir að það eigi miklu fylgi að fagna að vera á móti sköttum vil ég segja þetta : Að sjálfsögðu hlýtur það að eiga fylgi að fagna. Ég vona að það eigi miklu fylgi að fagna því að meðan fólk er á móti sósíalismanum sem í því felst líka, þá er landinu betur borgið. Nú veit ég að einhver þm. hlýtur að fylgja mér upp í ræðustólinn og mótmæla þessum orðum. (StJ: Ertu að segja þetta villandi svona.) Ég vil nú ekki kannske beint taka undir orð forsrh. töluð úr þessum ræðustól fyrr í dag, ég vil ganga það langt að mótmæla forsrh. því að ég held að ég mundi ekki vilja breyta hv. 5. þm. Norðurl. e. að einu eða öðru leyti, ég vil leyfa honum að halda áfram að gjamma fram í. Það er óeðlilegt ef hann gerir það ekki.

Að sjálfsögðu er það rétt hjá hv. flm. meiri hl. að eignir veita ákveðið öryggi. Þetta eru engin ný sannindi. En það, sem er sárgrætilegt við hans málflutning og þann hugsunarhátt sem í honum felst, er að taka beri af þeim sem eiga eignir. Til hvers ? Til að gera alla jafna, það má enginn skara fram úr, hvorki í þessu né öðru. Það er sósíalisminn. En ef svo væri nú að öllu leyti, þá væri kannske skiljanlegra að takmarka athafnaþrá manna í þjóðfélaginu á einhverjum sviðum. En það er ekki bara það, heldur er verið að bæta hér við víðbótargjöldum til þess að setja í þá ríkishít sem hefur verið byggð upp hér á undanförnum árum og þessi ríkisstj. er að reyna að komast út úr. Þetta er bara ekki leiðin að mínu mati, að velta hlutunum yfir á fólkið sjálft. Og ég ætla mér hér að verja stóreignamenn og stóreignafólk, en það er ekki þar með sagt að það sé alltaf tekjuhátt fólk. Það getur verið það fólk sem er í hvað mestri peningaklemmunni.

Það er rétt að benda á að fasteignir í dag gera menn ekki ríka. Það er viðurkennt, það vita allir, að fasteignir gefa ekki helming í leigutekjur af því, sem þær ættu að gera ef þær ættu að standa undir sínum gjöldum, sínum eðlilega kostnaði, — ekki helming. Og þó er leigan orðin það há að fólk sligast undir henni. Þetta er staðreynd. Ég held að hver þm. geti aflað sér upplýsinga um það gamla fólk sem býr í litlum íbúðum og nú á að falla undir þessar 2 millj. kr. sem nú er talað um að verði álagningarfrjálsar. Við skulum segja að það búi í tveggja herbergja íbúð. Tveggja herbergja íbúð í dag kostar 2–4 millj. á sölumarkaðnum, þannig að ég get ekki séð hvaða fólk það er sem er undanþegið, fellur ekki undir þessar 2 millj. Það er margur sem býr í kannske eins herbergis íbúð með eldhúsi og þá frekast í mjög gömlu húsi. En ég vil bara mótmæla þeim hugsunarhætti, sem kemur fram hjá frsm. meiri hl. Hann er rangur og furðulegur af ungum manni, ungum vel menntuðum manni í nútíma þjóðfélagi.