17.12.1975
Efri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

121. mál, almannatryggingar

Sverrir Bergmann:

Herra forseti. Mig langar til að fara nokkrum orðum um frv. það sem hér liggur fyrir til umr. Ég ætti náttúrlega sem stjórnarsinni að vera ákaflega stuttorður og flýta fyrir því að koma málínu í gegn og eftirláta stjórnarandstæðingum öli meiri háttar ræðuhöld, eins og fram kom hjá hæstv. ráðh. áðan. Ég tek slíkri ábendingu að sjálfsögðu með mikilli vinsemd, — enda hefur ekki verið til annars ætlast.

Ég tel mig ekki sérstakan talsmann þess frv. sem hér liggur fyrir, en ég hef ákveðið að ljá því minn stuðning. Til þess liggja nokkrar ástæður og hin fyrsta er sú að hér er um bráðabirgðaráðstafanir að ræða og ég vil treysta því að sú mikla endurskoðun, sem nú fer fram á almannatryggingum í landinu, leiði til þess að við getum gert þær endurbætur sem við sem allra flestir getum sameinast um. Ég vona einnig að úr þeirri endurskoðun komi einhverjar þær hagstæðar niðurstöður að hægt verði að deila kostnaðarþátttöku við þetta mikla mál einnig með þeim hætti að við getum sem flestir vel við unað. Það er í rauninni svo með þessi mál, held ég að mér sé óhætt að segja, að við viljum allir reyna að gera vel og gera þannig að sem réttlátast sé.

Eftir að hafa lesið þetta frv. og síðan hlýtt á hv. þm. 7. landsk., hv. 4. landsk. og einnig hér við 1. umr. hv. 5. þm. Norðurl. v., þá blasa við okkur ákaflega alvarlegir hlutir og í rauninni mjög dapurlegar staðreyndir. En áður en ég vík máli mínu að þeim vil ég koma að öðru sem mætti gleðja okkur, en það er nú sú staðreynd að hér á Íslandi búum við við lífskjör sem eru með þeim bestu sem gerast í þessum heimi. Það er gott til þess að vita, að þótt ríkissjóður standi ekki rétt vel, þó að mér skiljist flest fyrirtæki þessa lands séu heldur illa stæð og þó að flestir einstaklingar þessa lands, ef miðað er við skattaframtöl og að undanskildum sérfræðingum í læknisfræði, standi einnig heldur höllum fæti, þá hefur samt tekist að byggja hér upp margháttaða aðstöðu sem hefur lagt grunninn að því góða lífi sem við yfirleitt lifum í landinu. Þetta er mikið ánægjuefni.

Það vill svo til að þegar ég held heiman frá mér, akandi að öllu jöfnu, þá eru tveir staðir á leið minni þar sem ég þarf að gæta sérstakrar varúðar. Á öðrum staðnum fer fram sala áfengis, en hinn staðurinn er ónefnt veitingahús þar sem ávallt er mikil örtröð að komast inn. Það er varla ástæða til að tala um þetta. Mér dettur ekki í hug að amast við þessu. Það er mín lífsskoðun að lífið sé ekki til þess eins að reyna að halda það út eða þrauka það af, heldur að reyna að lifa því. Staðreyndin er sú, að þrátt fyrir þennan bága hag, hvort sem rætt er um ríkið, fyrirtæki, sveitarfélög — eða einstaklinga, þá er einkaneysla íslendinga mjög há miðað við aðrar þjóðir og þeim hefur tekist að koma sér vel fyrir og veita sér margháttaðan munað, og það er vel. En um leið og þessar staðreyndir eru hafðar í huga, þá verður hin sorglega niðurstaða af frv. og af grg. hv. 1. og 2. minni hl. í hv. heilbr.- og trn. enn þá sorglegri því að það, sem kemur út úr þessu, er í stuttu máli að það hefur enginn efni á því að greiða fyrir almannatryggingarnar í landinu. Ríkið hefur ekki efni á því svo að vel sé. Það er augljóst mál að sveitarfélögin geta það tæplega. Og það virðist einnig ljóst að fólkið í landinu getur það ekki heldur. En um leið og þetta blasir við, þá vaknar auðvitað önnur spurning og hún er þessi: Skyldum við hafa efni á því að slá eitthvað af almannatryggingunum í landinu, láta minna af hendi rakna til þeirra? Gæti ekki svo farið, ef við gerðum slíkt, að það gæti orðið slík breyting á högum fólks í landinu að hin góðu lífskjör, sem ég var að gera að umtalsefni, yrðu öllu lakari?

Ég býst við því að við getum verið sammála um að við viljum reyna með öllum mætti að draga ekki úr framlögum til almannatrygginga, þannig að bæði sjúkratryggingar og lífeyristryggingar geti gegnt sínu hlutverki sem best má vera. Við erum því hér í svolítilli klípu, svolítilli sjálfheldu, því að augljóslega verða peningarnir einhvers staðar frá að koma.

Ég er alveg viss um að umhyggja sú, sem hv. 7. landsk. þm. og hv. 4. landsk. þm. bera fyrir þeim þegnum þjóðfélagsins, sem mega sín minnst, er mjög einlæg. Ég dreg það ekki í efa. En ég get fullvissað þessa hv. þm. um að umhyggja mín fyrir þessu sama fólki er líka mjög einlæg. Og ástæðan til þess, að ég get stutt þessa bráðabirgðaráðstöfun, er sú, að ég tel að á rétt þessa fólks sé ekki gengið og ég tel að þessu gjaldi sé jafnað á menn eftir efnum og ástæðum, eins og við nefnum það, þannig að þeir beri stærri hlut hér sem meira geta og hinir minna, og það finnst mér vera réttlátt. Þetta mun ég skýra nánar síðar.

Þá hafa þessir hv. þm. haft nokkrar áhyggjur af því að verið sé að blekkja fólkið í landinu. En ég get alveg fullvissað þá um að það er ótrúlega mikið af heilbrigðri skynsemi í þessu landi, og ég hygg að við þurfum engar áhyggjur að hafa af því að fólk viti ekki hvað hér er verið að gera í raun og veru. Hitt er svo annað mál, að ég sé ekki ástæðu til þess að taka einhverja ánægju frá einhverjum yfirleitt, ef það kemur ekki verulega illa við náungann. Og ef svo virðist að einhver ráðh. vilji fara að klæðast svipuðum fötum og keisari einn gerði fyrir löngu og lýst er í ævintýri, þá hef ég ekkert við það að athuga, þótt ég telji það ekki umtalsverða glysgirni.

Niðurstaðan af þessu frv. er sú, að það er ákveðið að skerða ekki framlög til almannatrygginga. Meiningin er að ná því fé, sem á vantar, inn með öðrum hætti en þeim að bæta því á fjárlög. Sú spurning vaknar hvort hægt hefði verið að fara öðruvísi að. Hefði verið hægt að spara? Hefði verið hægt t. d. að minnka útgjöld á einhverjum öðrum liðum fjárlaga? Ég skal ekkert um það fullyrða hvort slíkt hefði verið mögulegt, því að ég hef satt að segja enga aðstöðu til að kveða upp neinn úrskurð um það. En mér virðist samt svo, að allar þær till., sem fram koma og horfa til breytinga á fjárl., gangi í þá átt, fremur að hækka þau en að lækka, a. m. k. koma ekki till. til lækkunar svo að nemi umtalsverðum upphæðum. Þá kemur næsta spurning: Hefði verið hægt að spara eitthvað í sjálfri heilbrigðisþjónustunni, þannig að hægt hefði verið að koma við jafngóðri þjónustu og halda óskertum greiðslum lífeyristrygginga? Að sjálfsögðu væri hægt að spara sitt af hverju en það eru hins vegar þættir sem ég er ekki viss um að við værum reiðubúnir til að leggja niður.

En þetta mál er annars mjög umfangsmikið, og ég vil rétt leyfa mér að víkja að því í örfáum orðum. Það þýðir ekkert að ganga fram hjá þeirri staðreynd að heilbrigðisþjónusta í landinu hlýtur að kosta mikla fjármuni. Til þess eru margar ástæður. Þessi þjónusta er í gangi allan ársins hring og allan sólarhringinn. Hún krefst ákaflega mikils mannafla og hún krefst mannafla sem eðli sínu samkv. hlýtur ávallt að vera nokkuð dýr. Auk þess krefjumst við góðrar aðstöðu og nægrar aðstöðu hvað snertir húsrými, en einnig er nauðsyn ýmissa tækja og nauðsyn lyfja, og þessir hlutir kosta alltaf mikla peninga. Þarna er nauðsyn á ákveðinni endurnýjun og það er einnig nauðsyn á ákveðinni aukningu ef við eigum ekki að dragast aftur úr. Það er vafalaust ekki hægt að spara mjög mikið á þessum þáttum. Hins vegar er það mín skoðun, sem ég hef ekki aðstöðu til að lýsa hér nákvæmlega, að það sé hugsanlegt að spara verulega í þessari þjónustu með því að koma við öðru rekstrarfyrirkomulagi og öðru starfsskipulagi. Ég þykist þess fullviss að þetta muni fá nauðsynlega athugun í þeirri miklu endurskoðun sem nú fer fram á almannatryggingalögum. Ég tel mig hafa ástæðu til að ætla að hér megi ná fram nokkrum sparnaði án þess að rýra gæði þjónustunnar með nokkrum hætti.

En þegar ekki er hægt að koma við beinum sparnaði, eins og ekki liggur fyrir á borðinu nú, þá vaknar spurningin um það hvernig eigi að dreifa þeim kostnaði, ná inn þeirri upphæð sem á vantar? Það hefði að sjálfsögðu verið hægt að gera þetta með því að hækka niðurstöður fjárlaga. En á móti því hefðu hlotið að þurfa að koma tekjur. Það kann að vera að það stafi af minni einfeldni, en ég hef aldrei haldið að tekjur ríkisins og sveitarfélaganna kæmu t. d. frá himnaföðurnum. Ég hef alltaf reiknað með að þetta kæmi frá fólkinu í landinu. Það er því enginn vafi á því, að ef þessari upphæð hefði verið bætt við fjárl., þá hefði það að sjálfsögðu þýtt aukin útgjöld fyrir einstaka þegna þjóðfélagsins. Það, að sveitarfélögin taka að sér innheimtu að nokkru leyti, tel ég vera spor í rétta átt. Það er álit mitt að sveitarfélögin eigi að taka meiri þátt í rekstri sjúkrahúsa, í rekstri heilbrigðisþjónustunnar. Ég gæti vel hugsað mér að samtök í hverjum landshluta skipulegðu þjónustuna á sínu svæði, síðan innbyrðis og síðan sérstaklega í samvinnu við stóru sjúkrahúsin hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel æskilegt, að málin þróist nokkuð í þessa átt, og set mig því ekki upp á móti þessari aðferð.

En þá komum við næst að þeim liðum sem gera ráð fyrir því að einstaklingarnir sjálfir greiði meira fyrir ákveðna þjónustu. Það er t. d. ákveðið að fyrir viðtal eða skoðun hjá sérfræðingi greiði nú samlagsmaður fyrir hverja komu 600 kr., en nú er þetta gjald 300 kr. Þetta þýðir náttúrlega auknar greiðslur frá fólkinu. En ég leyfi mér líka að fullyrða að þetta þýði nokkra lækkun á tekjum þessara sérfræðinga og ég er einn þeirra. Ég hef ekkert við það að athuga. Fyrir þessu eru ástæður sem mönnum eru kannske ekki alveg augljósar. En þær eru fyrst og fremst mannlegar. Sérfræðingar hafa nefnilega fullan rétt til þess að gefa fólki þetta gjald eftir með öllu. Og það er nú einu sinni svo, að við þekkjum nokkuð þá, sem sjúkir eru, öryrkjar og aldraðir, eða aðra þá, sem einhverra hluta vegna eiga í fjárhagslegum erfiðleikum, og gefum því þetta gjald iðulega eftir. Á því verður engin breyting, auk þess sem ég fullyrði að það að geta hugsanlega ekki staðið í skilum við þetta gjald mun aldrei koma í veg fyrir að fólk geti leitað til sérfræðinga og fengið þar jafngóða þjónustu og ef það greiddi þessa peninga á borðið.

Í sambandi við aukna þátttöku í lyfjakostnaði er vert að undirstrika að stór hópur sjúklinga er undanþeginn þessu ákvæði vegna þeirra sjúkdóma er þeir þjást af, eru upp taldir hér, og ég sé ekki ástæðu til að fara að lesa upp. Þá er það einnig svo í framkvæmdinni, að sé sjúklingur með annan sjúkdóm en þann, sem hér er upp talinn, en fyrirsjáanlegt er að um mjög langvarandi lyfjanotkun verður að ræða, þá er oft leitað undanþágu eða þátttöku í lyfjakostnaði viðkomandi. Yfirleitt hafa þau mál fengið góða úrlausn, og ég býst ekki við að á því verði nein breyting. Annars er meginmálið um þetta sem og auknar greiðslur fyrir röntgengreiningu og geislameðferð að hér er ekki verið að breyta neitt í sjálfu sér, þessar greiðslur hafa verið og eru hækkaðar raunverulega hvergi nærri til samræmis við þá breytingu sem orðið hefur á verðlagi að undanförnu. Hitt er aftur annað mál. að enda þótt þetta sé svona nú til bráðabirgða, þá gæti ég alveg fallist á að þessir liðir gætu í framtíðinni allir fallið niður. Það er ekki mín skoðun, að þótt fólk fengi þetta án þess að til neinnar beinnar greiðslu kæmi frá því, hafi það í för með sér neina misnotkun. Enda er staðreyndin sú, að það er betra fyrir heilbrigðisþjónustuna, svo að hún sé góð, að þar sé svolítil misnotkun fremur en að fólk veigri sér jafnvel við að leita til sérfræðinga eða veigri sér við að leysa út lyf.

Það 1% gjald, sem lagt er á, kemur að sjálfsögðu þannig út að þeir, sem meiri tekjur hafa, greiða einfaldlega meira en hinir. Það hefur komið fram að þetta sé að því leyti ranglátt sem skattakerfi okkar sé ranglátt, og ég býst við að það sé rökrétt ályktun. En það má vel vera að á hv. Alþ. síðar í vetur komi fram einhverjar þær breytingar á skattalöggjöfinni er horfi til bóta og skapi meira réttlæti meðal þegnanna í þeim efnum heldur en nú er og mundi það þá einnig koma fram í sambandi við þetta gjald.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta miklu fleiri orð, en ég vil endurtaka það, að ég mun greiða þessu frv. atkvæði með tilliti til þess að það sé til bráðabirgða og að betri úrræða verði leitað og þau muni fljótt koma fyrir hv. Alþ., og vegna þess einnig að ég tel þessa aðferð, eins og á stendur, vera manneskjulegasta og mannúðlegasta með tilliti til þess að hún hlífir þeim, sem síst mega við álögum, en leggur tiltölulega réttlátlega byrðarnar á hina, og í þriðja lagi með tilliti til þess að þær beinu greiðslur, sem upp eru teknar, eru engin stefnubreyting og því þannig ekki spor aftur á bak, hér er aðeins um hækkun að ræða með tilliti til þeirrar hækkunar sem orðið hefur og þó hvergi nærri hlutfallslega, og jafnframt vegna þess að ég veit að hvað þetta ákvæði snertir, þá mun það ekki koma hart niður á þeim sem síst mega við því.