18.12.1976
Sameinað þing: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

112. mál, landhelgismál

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það hlýtur að vekja eftirtekt að hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, formaður utanrmn., formaður þingflokks Framsfl. og sá talsmaður Framsfl. í útvarpsumr. hér fyrir stuttu, sem hvað skeleggast kvað að orði að því er varðaði þetta mál af hálfu stjórnarliða, ætlar nú að sitja hér þegjandi undir þessum umr. Ég held að nú þegar sé komið tilefni til fyrir hv. 4. þm. Reykv. að stíga í stól og leiðrétta hv. þm. Guðmund H. Garðarsson varðandi það sem hann sagði áðan, að hér væri verið að mistúlka eða misskilja það sem hv. þm. Þórarinn Þórarinsson sagði. En eins og hér hefur verið vitnað til, þá talaði hv. þm. Þórarinn Þórarinsson á þann veg í útvarpsumr. að a. m. k. margir, þ. á m. ég, tóku ummæli hans á þann veg að Framsfl. teldi að ekki kæmi til mála að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir eins og mál nú stæðu. En á sama tíma virðist þessi hv. þm. og þingfl. Framsfl. sem heild standa að því að hafa úti í Brüssel samninganefnd sem er að ræða um samninga til langs tíma — 10 ár hafa verið nefnd — ekki bara um fiskverndunarmál og stjórnun á fiskveiðum, heldur og gagnkvæmar veiðiheimildir. Og í fréttum útvarpsins í gærkvöld var skýrt frá því, haft eftir Tómasi Tómassyni, að tilboð hafi borist um gagnkvæmar veiðiheimildir. Það er því ástæða til að spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvað felst í því tilboði sem Efnahagsbandalagið hefur nú samkvæmt ummælum Tómasar Tómassonar gert samningarnefndarmönnum hæstv. ríkisstj. í Brüssel, hvert er innihald þess tilboðs, hvað er um að ræða? Ég held að það verði ekki hjá því komist að Alþ. verði a. m. k. gerð grein fyrir því hvað hér er á ferðinni. Ég var satt að segja lengi vongóður um það eftir þessi ummæli hv. 4. þm. Reykv. að nú væri að koma sá tími að treysta mætti orðum hv. þm. Framsfl. í þessu máli. En eftir að þetta hefur komið í ljós, að þeir sýna þennan tvískinnung í málinu, að lýsa hér yfir í umr. á Alþ., að þeir séu algjörlega andvígir öllum samningum um gagnkvæmar veiðiheimildir, á sama tíma og þeir lýsa blessun sinni yfir samningaviðræðum, sem eru grundvallaðar að miklum hluta á gagnkvæmum veiðiheimildum, og taka við tilboðum af hálfu gagnaðilans um að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir, eins og málum er nú háttað, þá verður ekki hjá því komist og ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. utanrrh. hvað hafi falist í því tilboði sem Efnahagsbandalagsfulltrúarnir gerðu í Brüssel að því er varðar gagnkvæmar veiðiheimildir. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá það upplýst hér.

Það kom að því, sem m. a. ég átti von á, að hæstv. ríkisstj. treystir ekki á að láta ganga til atkvæða hér á Alþ. um hvort samþykkja eigi þessa tillögu eður ei. Það er greinilegt að hæstv. ríkisstj. þorir ekki nú á þessari stundu að leggja málið undir atkvæði Alþ., eins og staðan í því er nú. Það að leggja til, að þáltill. sé vísað til ríkisstj., það er bein yfirlýsing um að hæstv. ríkisstj. treysti ekki á að það sé þingmeirihl. fyrir því að halda áfram samningamakki við Efnahagsbandalagið um gagnkvæmar veiðiheimildir. Það, sem hún ætlar sér því að gera, er að synda fram hjá þessu með þessari fádæma afgreiðslu sem hér er lögð til af hálfu meiri hl. utanrmn. Það hefur enginn rökstuðningur komið fram um að það sé ástæða til þess nú að vísa þessari þáltill. til ríkisstj. Það sjálfsagðasta í málinu er því að till. verði hér borin upp, eins og hún liggur fyrir, til samþykktar eða synjunar. Ég er um það fullviss, að ef þannig væri staðið að afgreiðslu þessarar þáltill., þá er meiri hl. fyrir því hér á Alþ. samþ. hana eins og hún liggur fyrir. En það er það sem hæstv. ríkisstj. þorir ekki að láta koma í ljós. Það er sannleikurinn og kjarni þessa máls.