21.10.1976
Sameinað þing: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

5. mál, Vestfjarðaskip

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Það er rétt að halda í heiðri þann sið að Vestfjarðaþm. tali helst allir ef einn talar. En það er ekki oft að þeir tali sem einn maður, en það hefur e.t.v..nálgast það í þessum umr. A.m.k. vil ég eins og aðrir taka undir og fagna þeirri till. sem hér hefur verið flutt. Það er þarft að hreyfa þessu máli, og ég get tekið undir það sem aðrir hafa hér sagt um samgönguerfiðleika á Vestfjörðum. Vestfirðir eru sem eyja meira en helming ársins og verður raunar að hugsa um samgöngur þangað í því ljósi.

Ég stend upp til að vekja athygli á þeirri skýrslu sem legið hefur á borðum þm., skýrslu milliþn. um verðjöfnun vöruflutninga. Þar koma fram margar athyglisverðar upplýsingar og till. sem koma þessu máli mjög við. Þar segir svo m.a. á bls. 29, með leyfi forseta, um flutninga frá Reykjavík 1972: „Skipting þeirra á hina ýmsu landshluta frá Skipaútgerð ríkisins varð eins og hér segir: Til Vesturlandsins 2%, Vestfjarða 23%, Norðurlands 6%, Norðausturlands 5%, Austurlands 39%, Vestmannaeyja 25%.“

Einnig kemur fram í þessari skýrslu að breyting hefur orðið, eins og við öll vitum, með Vestmannaeyjar. Þar er komið sérstakt skip og því þessi flutningaþörf eða flutningahlutfall hjá Skipaútgerðinni mjög fallið. Það er jafnframt orðin breyting með austfirðinga með tengingu Austfjarða við Suðurlandið með vegi yfir sandana, þannig að það má ætla að sá hlutur sé eitthvað minni orðinn. Það eru leidd rök að því í þessari skýrslu að flutningaþörf Vestfjarða og Austurlands með skipum sé langsamlega mest af öllum landshlutum.

Það er einnig að finna í þessari skýrslu athyglisverðar till. um úrbætur á þessu, þar sem m.a. er lögð á það áhersla að flutningar Skipaútgerðar ríkisins verði endurskoðaðir og tryggðir flutningar til þessara landshluta, Vestfjarða og Austurlands, ekki sjaldnar en einu sinni í viku. Þetta finnst mér raunar vera kjarni málsins. Þessir landshlutar og kannske alveg sérstaklega Vestfirðir eru það einangraðir, eins og hér hefur verið rakið, og langsamlega stærstu viðskiptaaðilar Skipaútgerðar ríkisins, að það virðist eðlilegt að þeim sé tryggð sérstök þjónusta af þessum ástæðum.

Ég segi fyrir mitt leyti, að ég legg alls ekki höfuðáherslu á það, eins og kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni einnig, að þetta heiti Vestfjarðaskip. Ég legg höfuðáherslu á að þarna fáist tíðari flutningar, og ég vil að það verði reynt á vegum Skipaútgerðar ríkisins áður en við förum að gæla við nokkrar aðrar hugmyndir. Ég held satt að segja að þessi till. ætti líklegri framgang ef henni yrði breytt í það horf að hér væri um að ræða áskorun sem Alþ. samþ. til ríkisvaldsins, þess efnis að tryggðir verði flutningar til Vestfjarða og gjarnan til Austfjarða eigi sjaldnar en einu sinni í viku.

Ég sagði áðan, að ég vildi ekki á þessu stigi vera að gæla við þá hugmynd að vestfirðingar sjálfir færu að sinna þessum flutningum. Ég get tekið undir það, í samræmi við þá samþykkt sem gerð var á fjórðungsþinginu og lesin var áðan af hv. 3. þm. Vestf., að ef þetta bregst með Skipaútgerðina verður að skoða þann möguleika, en ég vil alls ekki gera því skóna nú. Ég satt að segja held að í okkar litla landi sé ákaflega þarft að við rekum slíka þjónustu sameiginlega. Ég held það hljóti að vera hagkvæmara. Og ég er ekki eins og sumir aðrir áfjáður í að skipta slíkum þjónustuhlutverkum í nánast því smæstu einingar á einstaka landshluta. Ég vil því varpa fram þeirri hugmynd til flm. hvort ekki kæmi til greina að hans mati að leggja höfuðáherslu á að það fáist tíðari flutningar, t.d. ekki sjaldnar en einu sinni í viku, í samræmi við samþykkt fjórðungsþingsins, en láta þá heldur liggja á milli hluta hvort það heitir Vestfjarðaskip eða er eitt af skipum Skipaútgerðar ríkisins.