25.10.1976
Sameinað þing: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Tómas Árnason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hæstv. forsrh. hefur flutt stefnuræðu sína sem jafnframt ber að skoða sem stefnuræðu ríkisstj.

Í efnahagsmálum mun ríkisstj. leggja áfram áherslu á eftirfarandi stefnu í aðalatriðum: að jafna viðskiptahallann við útlönd og draga verulega úr verðbólgunni, en tryggja jafnframt fulla atvinnu í landinu.

Ég er sammála þessari stefnumörkun hæstv. ríkisstj., en vil þó sérstaklega undirstrika nauðsyn þess að berjast gegn verðbólgunni og freista allra tiltækra ráða til að færa hana niður til samræmis við það sem gengur og gerist meðal nágranna og viðskiptaþjóða okkar.

Verðbólgan veldur stórfelldu misrétti í þjóðfélaginu, mengar siðferðismat borgaranna og magnar lánsfjárkreppu sem sýgur merg og blóð úr atvinnulífinu og hlýtur fyrr eða síðar að valda atvinnuleysi ef ekki tekst að beisla hana. Hér þurfa til að koma samstilltar aðgerðir á sviði kjaramála, verðlagsmála, ríkisfjármála og peningamála. Ráðamenn almannasamtaka og ríkisvalds verða að snúa bökum saman í þessu efni. Ég er mjög sammála því, að harðnandi sókn gegn verðbólgunni eigi að verða forgangsverkefni ríkisstj. á næstu mánuðum. Mestur vandinn er fólginn í því að ná verðbólgunni niður án þess að til komi atvinnuleysi.

Þess ber vel að gæta, að í efnahagsmálum er um mikla valddreifingu að ræða í okkar landi þar sem félagasamtök og félagafrelsi ráða ríkjum. Því er mjög þýðingarmikið að sem flestir kynni sér þessi mál til þess að geta tekið ábyrga og hyggilega afstöðu til þeirra. Þess vegna er það skynsamleg stefna af hálfu hæstv. ríkisstj. að skipa n. þar sem stærstu almannasamtök eiga fulltrúa ásamt ríkisstj. og þingflokkum til þess að greina orsakir verðbólgu seinustu ára og gera tillögur um ráðstafanir til þess að draga úr henni. En þegar allar leiðir lokast hlýtur það að vera hlutverk Alþ. að leysa málin. Það er grundvallaratriði í okkar stjórnskipan að starfa á þingræðis- og lýðræðisgrundvelli og leysa vandamálin að réttum landslögum.

Stærsta og merkasta mál hæstv. ríkisstj. var útfærsla fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur. Hún var gerð 15. okt. 1975. Mánuði síðar hófst þriðja þorskastríðið við breta. Þau átök öll reyndu mjög á staðfestu íslendinga. Bretar sendu flota hennar hátignar til verndar veiðiþjófum og fór flotinn fram af hinu mesta offorsi. Við beittum aftur á móti landhelgisgæslu okkar til hins ítrasta. Þessi viðureign var oft á tíðum hreinn háskaleikur og vandstýrt af okkar hálfu. Stjórnmálasambandi var slitið við breta og deilan kærð fyrir Sameinuðu þjóðunum og Atlantshafsbandalaginu. Við beittum m.a. þeim rökum, að fiskstofnarnir væru í yfirvofandi bráðri hættu og þar með væri ógnað lífi og tilveru íslensku þjóðarinnar. Þessar röksemdir bitu best. Öðrum þjóðum var ljóst að lítil, fámenn og vopnlaus þjóð barðist fyrir lífi sínu. Þróun hafréttarmála var okkur hliðholl í landhelgismálinu og hraðari en við mátti búast. Ríki eins og Bandaríkin, Noregur og Kanada lýstu yfir útfærsluáformum í 200 mílur, og bretar voru í vaxandi mæli beittir þrýstingi þjóða sem voru vinveittar okkar málstað.

Á utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló 20. maí s.l. hittust utanrrh. Einar Ágústsson og Anthony Crosland. Nokkrum dögum síðar var Oslóar samkomulagið undirritað, en þar var fullur sigur íslendinga innsiglaður. Hið heimsþekkta blað Times í London líkti lyktum þorskastríðsins við knattspyrnuleik og sagði á forsíðu: Ísland vann 3:0.

Með þessu samkomulagi viðurkenna bretar hina nýju 200 mílna fiskveiðilögsögu íslendinga og skera auk þess mjög verulega niður fiskveiðar hér við land. Þá leiddi samningurinn og til tollaívilnana fyrir íslenskar sjávarafurðir í löndum Efnahagsbandalags Evrópu.

Oslóarsamningurinn er sennilega stærsti stjórnmálasigur íslendinga að frátöldu fengnu frelsi og fullveldi þjóðarinnar á sínum tíma. Allar þjóðir viðurkenna nú í verki 200 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland og munu því aðeins veiða innan þeirra marka að það sé í samræmi við það, sem samþykkt kann að verða af íslands hálfu.

Með Oslóarsamningnum lýkur nær 30 ára sóknarlotu íslendinga í landhelgismálinu. Þar hafa margir menn og flokkar lagt hönd á plóginn. Við framsóknarmenn getum unað vel við okkar hlut í þessu máli. Það voru Hermann Jónasson, þáv. formaður Framsfl., og Skúli Guðmundsson sem árið 1946 lögðu fram þáltill. um uppsögn landhelgissamningsins við breta sem var í gildi frá 1901–1951 og ákvarðaði 3 mílna fiskveiðilögsögu frá fjöruborði að kalla.

Árið 1952 færði ríkisstj. Steingríms Steinþórssonar, sem þá var varaformaður Framsfl., út fiskveiðilögsöguna í 4 mílur frá grunnlínu, sem dregin var fyrir firði og flóa landsins. Síðan færði ríkisstj. Hermanns Jónassonar út í 12 mílur árið 1957 og ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar út í 50 mílur árið 1972. Og nú síðast færði núv. ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, hæstv. forsrh., út í 200 mílur.

Framsfl. lagði þunga áherslu á að samningar við breta til skamms tíma kæmu því aðeins til greina að þeir viðurkenndu útfærsluna í 200 sjómílur.

Það er full ástæða til þess að þakka hæstv. ríkisstj. framgönguna í landhelgismálinu. Auðvitað hvíldi málið mjög á ríkisstj. í heild og þingmeirihl. sem að henni stendur. Hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson fór að mestu með málið erlendis af hálfu ríkisstj. og var það vandasamt og erfitt verkefni sem hann leysti af hendi með hinni mestu prýði. Það var hins vegar hlutskipti hæstv. dómsmrh. Ólafs Jóhannessonar að hafa enn með höndum yfirstjórn landhelgisgæslunnar í þorskastríðinu og eiga auk þess einn stærsta þáttinn í að móta stefnu íslendinga í málinu sjálfu.

Að sjálfsögðu réð einurð og hyggileg málsmeðferð íslendinga úrslitum í landhelgismálinu. En þess ber að geta að sú utanríkisstefna, sem við höfum fylgt og er fólgin í því að hafa góða samvinnu við vestrænar lýðræðisþjóðir, en sýna þó einbeitni í þeim samskiptum, greiddi mjög götuna í þessum efnum. Án aðildar að Norður-Atlantshafsbandalaginu hefði sókn okkar í landhelgismálinu með þeim árangri sem raun ber vitni um orðið mjög torsótt. Þá er skylt að geta drengilegs stuðnings norðmanna og annarra Norðurlandaþjóða í landhelgisdeilunni.

Enginn vafi er á því, að viðurkenning annarra þjóða á 200 mílna fiskveiðilögsögu hér við land boðar nýja og batnandi tíma í sjávarútvegi landsmanna. Auðlindir íslenskra fiskimiða munu skapa ný og stórkostleg tækifæri við sjávarsíðuna ef rétt er á málum haldið.

Landhelgismálið er án efa einn jákvæðasti þátturinn í starfi hæstv. ríkisstj. Fram til þessa hefur ríkisstj. einbeitt öllum kröftum sínum að lausn þess. Vera má að þetta hafi eitthvað komið niður á öðrum málaflokkum, svo sem efnahagsmálum. Þegar nú landhelgismálið er í höfn verður ríkisstj. að snúa sér að efnahagsmálum af fullum krafti.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh., hefur verulegur árangur náðst á vissum sviðum efnahagsmála. Dregið hefur úr viðskiptaballa við útlönd og vonir standa til að ríkisbúskapurinn verði eðlilegur á þessu ári. Þegar til lengdar lætur eru hallalaus ríkisbúskapur og ballalaus viðskipti við útiönd forsendur heilbrigðs efnahagslífs. Jafnframt verður að leggja aukna áherslu á baráttuna við verðbólguna og tryggja auk þess fulla atvinnu. Kröfugerð í launamálum verður að takmarka við það sem er til skipta hverju sinni.

Margir draga í efa að framleiðslustarfsemin í landinu sé nægilega öflug til að standa undir þeim lífskjörum sem við íslendingar höfum búið við á undanförnum árum. Þess vegna ber brýna nauðsyn til að efla atvinnulífið og stuðla að meiri verðmætasköpun. Það verður að halda áfram að. beina fjármagni til uppbyggingar atvinnulífsins til þess að tryggja þjóðinni atvinnuöryggi og góð lífskjör.

Annar jákvæðasti þátturinn í starfi ríkisstj. er að hún hefur haldið áfram hinni þróttmiklu byggða- og framleiðslustefnu sem hafin var af ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Í reynd hefur orðið hrein atvinnubylting víða á landsbyggðinni. Það þekkja þeir best sem kunnugir eru um landið. Í kjölfar sóknarinnar í landhelgismálinu hefur verið byggður upp myndarlegur skuttogarafloti og bátaflotanum enn fremur haldið við. Hraðfrystihúsaáætluninni hefur verið haldið áfram með þeim árangri að risíð hafa vel vélvædd fiskiðjuver víðs vegar um landið. Þessu starfi þarf að ljúka sem allra fyrst.

Ég er sannfærður um að við íslendingar getum gert okkur enn meiri mat úr sjávarfanginu ef aðstaða er bætt í landi til að vinna verðmæta vöru úr aflanum. Það er t.d. athyglisvert að þegar fiskurinn lækkaði í verði á Bandaríkjamarkaði hélst jafnan hátt verð á neytendapakkningum. Þetta sýnir svo að ekki verður um villst hvert ber að stefna. Auðvitað að því marki að hver einasti uggi verði unninn í verðmæta vöru. En til þess þarf mannvirki, vélvæðingu og þjálfað starfslið.

Sjávarpláss með þúsund íbúa, sem hefur byggt upp aðstöðu til sjós og lands, framleiðir nú útflutningsverðmæti fyrir a.m.k. 600–1000 millj. kr. á hverju ári. Besti vitnisburður um þýðingu stóreflingar útgerðar og vinnsluaðstöðu seinni ára er sú staðreynd að heildarútflutningsverðmæti sjávaraflans á þessu ári er áætlað 50.7 milljarðar kr. Auk þess sem tryggja verður eðlilega endurnýjun fiskiflotans þarf að leggja aukna áherslu á sókn þeirra fiskstofna sem ekki eru fullnýttir. Ríkisstj. hefur varið verulegu fjármagni m.a. til loðnurannsókna og veiðitilrauna á þessu ári. Ekki voru þó allir sammála um fjáröflun í þessu skyni. Ágætur árangur varð á loðnuveiðunum í sumar og haust og hefur verið talað um að útflutningsverðmæti sumarloðnuaflans geti numið allt að 1200—1300 millj. kr. Jafnhliða þessari uppbyggingu við sjávarsíðuna þarf að efla íslenskan iðnað. Þáttur iðnaðarins í gjaldeyrisöflun og gjaldeyrissparnaði er orðinn mjög stór, og auk þess verður það hlutskipti iðnaðar að taka við þúsundum manna sem bætast á vinnumarkaðinn í framtíðinni. En iðnaðurinn verður ekki efldur nema því aðeins að hann búi við sömu kjör og erlendur iðnaður sem hann þarf að keppa við. Ég er þeirrar skoðunar að iðnaðurinn þurfi lengri aðlögunartíma að EFTA og að því beri að vinna. Síðan verður að fara ofan í saumana og bera saman aðstöðu íslensks iðnaðar við erlendan og tryggja iðnaðinum sambærilega aðstöðu. Því aðeins er þess að vænta að iðnaðurinn vaxi og dafni í samræmi við þarfir þjóðfélagsins og framtíðarinnar.

Landbúnaður hefur frá aldaöðli verið einn helsti atvinnuvegur íslensku þjóðarinnar og er það enn. Þýðing landbúnaðar fyrir íslenskan þjóðarbúskap er ótvíræð. Við landbúnaðarstörf vinna nú beint 7–8% þjóðarinnar, en við þjónustu- og úrvinnslustörf þúsundir manna. Þótt bændum hafi fækkað, en þjóðinni stórfjölgað, fæðir bændastéttin þjóðina af mjólk, kjötvörum og öðrum þýðingarmestu fæðutegundum. Auk þessa er verulegur útflutningur landbúnaðarvara. Fluttar eru út kjötvörur fyrir um það bil 2 milljarða kr. á ári og skinn og ullarvörur fyrir 3 milljarða og vex óðfluga. Landbúnaðarvörur eru því fluttar út fyrir um það bil 5 milljarða kr. á ári.

Á næsta ári er áætlað að verja 2.2% af útgjöldum fjárl. til útflutningsbóta á landbúnaðarafurðir. Á árunum 1964–1966 nam þessi prósentutala milli 5 og 6%. Spurning er hvort þessum fjármunum væri að einhverju leyti betur varið til þess að greiða niður kostnað við landbúnaðarframleiðslu eða til aukinnar lánastarfsemi á sviði landbúnaðar. Landbúnaðinn vantar tilfinnanlega ódýrt fjármagn til endurnýjunar húsa, ræktunar, vélvæðingar og tryggrar fóðuröflunar. Telja verður það eitt brýnasta mál íslensks landbúnaðar að geta byggt á öruggum markaði sem tryggi bændastéttinni svipuð kjör og öðrum landsmönnum.

Á undanförnum mánuðum hefur farið fram mikil umræða um dómsmál og réttarfar. Þessar umr. hafa einkum beinst að því að gagnrýna seinagang í meðferð dóms- og sakamála, og hafa ýmis stóryrði og óviðurkvæmilegar fullyrðingar fallið í þessum sviptingum öllum. Sérstaklega hafa verið tilnefnd meiri háttar sakamál og gjaldþrotamál. Þó hefur alls ekki verið sýnt fram á að dómsmál gangi nú hægar en áður hefur verið. Þessi umræða hefur farið fram um það bil þrem árum eftir að hæstv. dómsmrh. skipaði n. sérfræðinga til að endurskoða dómstólakerfi landsins á héraðsdómsstigi og gera um það till., hvernig breyta mætti reglum um málsmeðferð í héraði til að afgreiðsla mála yrði hraðari. N. samdi frv. til l. um rannsóknarlögreglu ríkisins ásamt tveim öðrum frv. sem fjalla um meðferð opinberra mála og skipan dómsvalds í héraði og lögreglustjórn. Hæstv. dómsmrh. lagði þessi frv. fram á Alþ. í fyrra, en þau hlutu því miður ekki afgreiðslu þá. Nú hefur hæstv. ráðh. lagt þau fram á nýjan leik og óskar enn eftir, að þeim verði hraðað gegnum þingið. Þá hefur dómsmrh. boðað framlagningu frv. til l. um gjaldþrotamál. Rétt er að geta þess í leiðinni, að hæstv. dómsmrh. flutti fyrir rúmum áratug þáltill. sem fjallaði um nauðsyn þess að hraða dómsmálum. Svo vel vill til að hæstv. dómsmrh. er einn besti og virtasti lögfræðingur landsins. Hann hefur um árabil kennt réttarfar við lagadeild Háskóla Íslands og var því manna best ljóst hvar skórinn helst kreppti að í þessum málum. Þegar af þessari ástæðu hefur hann beitt sér fyrir margháttuðum nýmælum á sviði dóms- og sakamála.

Að mínu mati er merkasta nýmælið í fyrrnefndum lagafrv. um stofnun rannsóknarlögreglu ríkisins. Stefnt er að því að koma á fót öflugri stofnun sem hafi á að skipa starfsfólki sem verði sérhæft til að rannsaka ýmsar tegundir afbrota og hafi lögsögu um land allt, eftir því sem nánar er greint í lagafrv. Til þess að slík stofnun fái notið sín verður að tryggja henni sómasamleg fjárráð. Kemur þá til kasta Alþ. að sýna hug sínu til þessa máls.

Þótt brýn nauðsyn sé á að styrkja réttarkerfið, þó á þann veg að saklaus maður verði aldrei sakfelldur, verður kjarni málsins sá, að þjóðfélagið í heild og þeir aðilar, sem um þessi mál fjalla, stuðli að því öllum árum að koma í veg fyrir að afbrot séu framin.

Í skattamálum vil ég taka undir þær breytingar sem hæstv. ríkisstj. boðar, á þá leið að skipta skattbyrðinni réttlátar á milli manna. Það er óþolandi að fólk, sem hefur rúm fjárráð að því er séð verður, skuli ekki greiða sambærilega skatta við samborgara sína. Rétt er að hafa í skattalögum heimildarákvæði til að áætla tekjur ef ekki er allt með felldu, en gefa viðkomandi að sjálfsögðu tækifæri til að skýra mál sitt. Þá er ástæða til að endurskoða ákvæði um vaxtafrádrátt svo að ekki verði um skör fram farið í þeim efnum.

Ég vil að lokum, góðir áheyrendur, skírskota til þess, að helstu verkefnin á sviði þjóðmálanna eru nú eins og raunar jafnan áður í fyrsta lagi að hagnýta sem best auðlindir landsins í þágu þjóðarinnar, í annan stað að skipta þjóðartekjunum réttilega og viturlega á milli þjóðfélagsþegnanna og í þriðja lagi að efla íslenska þjóð, mennta og þroska æsku landsins andlega, líkamlega og siðferðilega.

Samkv. fjárlagafrv. næsta árs er ætlað að verja tæpum 12 milljörðum kr. til fræðslumála. Hér er um mikla fjármuni að ræða og mikið í húfi að vel takist til um hagnýtingu þeirra. Sérstaklega ríður á miklu að tryggja tengsl námsins við atvinnulífið í landinu. Hæstv. menntmrh. setti sér það mark að vinna að því að tengja námið atvinnuvegum þjóðarinnar. Nú er þess vegna unnið að endurskoðun framhaldsskólastigsins á þann hátt að leitast við að tryggja jafnan hlut verkmennta og bóknáms. Samtímis er unnið að því að styrkja verknám á ýmsum skólastigum, m.a með endurskoðun námsskrár og samkennslu þar sem það á við. Þá er verið að styrkja verknámsbrautir fjölbrautaskóla og verknámsdeildir Iðnskólans í Reykjavík, auka tækjabúnað Stýrimannaskóla og Vélskóla og efla Tækniskólann. há er einnig fjallað um samræmingu og samstarf Tækniskólans og verkfræðideildar Háskóla Íslands þar sem verið er að koma upp nýjum verknámsbrautum.

Skólanám, hvort sem er verklegt eða bóklegt, er hvergi nærri nægilegt. Skólarnir verða einnig að leggja ríka áherslu á að ala upp þroskaða þjóðfélagsþegna, örva líkamsrækt og reglusemi í hvívetna til þess að skapa alhliða þroskuð ungmenni sem geta tekist á við lífið með sem hestum árangri.

Herra forseti. Að lokum þetta: Þótt ýmsar blikur séu á lofti í efnahagsmálum hefur íslenska þjóðin þó aldrei haft eins miklu að tapa og einmitt nú og heldur aldrei til eins mikils að vinna. Þess vegna á hún að þjappa sér saman, a.m.k. að vissu marki, til þess að sigrast á verðbólgunni. Það er öllum fyrir bestu, hvar í stétt eða starfi sem þeir standa. Okkur hættir mörgum hverjum til að spyrja um það, hvað þjóðfélagið gefi gert fyrir okkur. En nú skulum við spyrja: Hvað getum við gert fyrir þjóðfélagið? — Góða nótt.