01.02.1977
Sameinað þing: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég var því miður fjarverandi þessar umr. í dag vegna þess að ég þurfti að vera við jarðarför og veit því ekki gjörla hvað hér hefur verið sagt áður en ég kom, Ég hef þó áður hlustað á umr. um þessi mál og geri ráð fyrir að ekki hafi komið ýkjamargt nýtt fram í þessum umr.

Ég minnist þess frá valdatíma síðustu ríkisstj., þegar lögin um Framkvæmdastofnun ríkisins voru sett, að þá voru af vissum mönnum verulegar vonir við þá löggjöf bundnar og það ekki að ástæðulausu. Lögin segja beint til um að þessi stofnun eigi m. a. að vinna að skipulegri — ég man ekki orðalagið nákvæmlega — en efnislega var það að vinna að skipulegri uppbyggingu í þjóðarbúskap íslendinga og auknum áætlunarbúskap. Þetta sýnist mér í stórum dráttum að hafi mistekist að mestu leyti. Það ásamt þeirri staðreynd, að mér finnst að fjárráðstafanir þessarar stofnunar og undirdeilda hennar hafi markast í allt of stórum stíl af tilviljunarkenndum þrýstingi, af sjónarmiðum þeirra sem ráðið hafa úthlutun fjármagns á vegum þessarar stofnunar, meir en af almennum þjóðfélagslegum hagsmunum, hefur gert það að verkum að ég hef leyft mér að gagnrýna þá stofnun vegna reynslunnar sem fengist hefur af starfsemi hennar.

Það hefur mikið verið talað á undanförnum árum um byggðamál og þörfina á því að halda öllu landinu í byggð. Ég tel mig engan veginn í hópi þeirra manna sem er á móti því að byggð sé viðhaldið í landinu þar sem skilyrði eru til slíks. Við skulum þó gjarnan minnast þess að stærð landsins og fjölmenni setur þessu marki ákveðin takmörk sem ekki er rétt að líta alveg fram hjá. Ég hlustaði með talsverðri athygli á þá ræðu sem hv. síðasti ræðumaður flutti áðan, Lárus Jónsson, og ég verð að segja að ég held að ég geti tekið undir allflest af því, sem hann sagði, og sé honum sammála. Með byggðastefnu hef ég skilið að ætti að stefna að þeim markmiðum, er hann gat um, eftir samræmdum leiðum og eftir einhverri áætlun, eins og hann var að tala um áðan. En þó að ég hafi leitað eftir bestu getu að slíkri heildarstefnu, slíkri heildaráætlun í þjóðarbúskap okkar, sem kenna mætti byggðastefnu víð, þá verð ég að segja það, því miður, að árangurinn hefur verið ansi rýr. Mig minnir að ég hafi sagt einu sinni hér við umr., og ég get vel endurtekið það nú, að mér virðist að reynslan af starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins fram til þessa dags sýni að hún hefur ekki að neinu verulegu marki stuðlað að áætlunarbúskap á Íslandi né heldur skipulegum vinnubrögðum í uppbyggingu atvinnuveganna — því miður.

Á árinu 1975 var eitt af því, sem gerði hvað erfiðast í efnahagsbúskap íslendinga, sú mikla þensla sem þá var í öllu þjóðlífinu, — sú staðreynd að við misstum, eða réttara sagt við náðum ekki tökum á ríkisfjármálunum það ár og lánastarfsemi ýmissa opinberra sjóða fór gersamlega úr böndunum, það hlaut að leiða til stórvaxandi verðbólgu í þjóðfélaginu. Ég held að ég muni það rétt af lestri skýrslna, að af öllum þeim sjóðum, sem þá brugðust því hlutverki að reyna að starfa þannig að það yki ekki á mesta efnahagsvanda þjóðfélagsins, sem er verðbólgan, þá hafi enginn brugðist jafnhrapallega og Byggðasjóður. Mig minnir að hann hafi aukið útlán sín á því ári frá árinu sí undan um 150% eða eitthvað nálægt því. Var það langtum meira en nokkur annar sjóður gerði. Menn geta talið að þetta sé æskilegt og þetta sé lofsvert út af fyrir sig. En við verðum að skoða íslenskt efnahagslíf í heild. Við verðum að setja því einhver ákveðin mörk að keppa að, og ég þekki ekkert annað markmið ofar í efnahagsstarfsemi landsmanna nú hin síðustu ár en að reyna að auka á efnahagslegt jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Ég held að það fari ekki fram hjá neinum hugsandi manni að mikið af þeim erfiðleikum, sem við eigum við að stríða, ekki einasta í efnahagsbúskap landsmanna, heldur og siðferðilega, verður beint eða óbeint rakið til þeirrar óhemju verðbólgu sem hér hefur verið í landinu undanfarandi mörg ár. Allir góðir menn af öllum flokkum ættu að leggja sig fyrst og fremst fram um að reyna að ráða meira við hana en tekist hefur. Því miður verð ég að segja það sem mína skoðun að Framkvæmdastofnunin hefur ekki hjálpað til að ná þessu marki.

Ég nefndi reynsluna af útlánum Byggðasjóðs árið 1975. Ég get tekið annað dæmi, og það er uppbygging fiskiskipaflotans undanfarandi ár. Ég veit að sumir halda því fram að hann sé hvergi nærri því að vera of stór, það sé allt í lagi með helstu fiskstofnana við landið og við munum koma standandi niður úr því heljarstökki sem við svifum nú í. En það er erfitt að spá um það í dag. Ég hef áður sagt það og ég get endurtekið það, að að mínu viti voru skipakaup til landsins of mikil árin 1972, 1973, 1974. Ég segi þetta ekki einungis vegna þess að ég óttist um afkomu fiskstofnanna við landið. Ég segi það líka vegna þess að það er ekkert sem bendir til þess sérstaklega að við hefðum ekki getað náð svipuðum afla á land með nokkru færri skipum og með nokkru minni tilkostnaði sem hefði gefið þeim, sem skipin eiga og fiskvinnslustöðvarnar í landi reka, og því fólki, sem starfar við þessi atvinnutæki, hærri og betri laun.

Þetta er meginástæðan til þess að ég hef stundum leyft mér að deila á starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins. Ég tel að hún hafi ekki náð því marki sem hún á að stefna að samkv. lögum. En svo bættist annað atriði við sem er tilfinningalegs eðlis, en þó kannske skiljanlegt líka, og það er að mér virðist að þeir, sem ráðið hafa þessari stofnun, hafi mismunað svo herfilega íbúum ýmissa sveitarfélaga eftir því hvar þeir hafa búið í landinu að það nái ekki nokkurri átt. Oddur Ólafsson, hv. þm., talaði hér áðan og lýsti ástandi í fiskveiðum og fiskvinnslu á Suðurnesjum, og ég get tekið undir hvert eitt orð sem hann sagði um þau efni, enda styðja skýrslur allt það sem hann hefur um það sagt. Ég fæ ekki séð hvaða rök liggja til þess hjá ráðamönnum þessarar miklu stofnunar að setja, að því er tekur til lána til skipakaupa og lána til að reisa fiskvinnsluver, staði t. d. eins og annars vegar Sandgerði og Grindavík í flokk þar sem ekki má lána neitt til þessara framkvæmda, en að hins vegar, svo að bara eitthvert dæmi sé nefnt, skuli Ólafsvík og Patreksfjörður vera í allt öðrum flokkum. Ég hef aldrei skilið þau rök sem liggja til þessarar ákvörðunar og tel hana raunar handahófskennda, markast af því einu að í stofnuninni réðu menn sem höfðu hagsmuni af því að setja svona reglur.

Ég skal nú ekki, eins og ég sagði í upphafi, verða til þess að lengja þessar umr. Ég hefði afskaplega gaman af því einhvern tíma við tækifæri — það þarf ekki að vera endilega nú — ef einhverjir af þeim, sem þarna ráða ríkjum, skýrðu fyrir mér hver sú byggðastefna sé sem þeir hafa mótað á undanförnum árum, síðan þessi stofnun var sett á laggirnar.