01.02.1977
Sameinað þing: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það eru ekki ýkjamörg atriði sem mig langar til að drepa á í tilefni af ræðum hv. þm. hér á undan. Ég vil þó aðeins byrja á því að gera að umtalsefni nokkur atriði í ræðu hv. 4. þm. Reykn.

Í fyrsta lagi er það gróinn misskilningur hjá honum að það hafi nokkurn tíma verið hlutverk Framkvæmdastofnunar ríkisins að gera heildaráætlun um þjóðarbúskapinn. Framkvæmdastofnun ríkisins hefur haft vissa þætti með höndum, en það var skýrlega tekið fram í lögum um Framkvæmdastofnunina í upphafi að hún gerði ekki áætlanir um opinberar framkvæmdir nema í samráði við rn. Nú hefur lögunum verið breytt enn þá frekar í þá átt að hún nær ekki yfir alla fjárfestingu í landinu, langt í frá þannig að það er gróinn misskilningur hjá hv. þm. að deila á Framkvæmdastofnunina fyrir það að hún hafi ekki lagt fyrir heildaráætlanir um alla fjárfestingu í landinu. Það hefur aldrei verið hlutverk hennar, nema rn. hafi samið við hana um að fela henni það verkefni.

Varðandi það að fjár- eða lánveitingar Byggðasjóðs hafi farið eftir tilviljanakenndum þrýstingi, eins og þm. orðaði það, þá vil ég mótmæla því eindregið, vegna þess að eins og ég hef áður lýst hér á Alþ., þá vinnur Byggðasjóður þannig að hann tekur á móti umsóknum og þær eru athugaðar og rannsakaðar og síðan tekin ákvörðun um lánveitingu. Að það sé um tilviljanakenndan þrýsting að ræða, ég mótmæli því eindregið. Ég geri ráð fyrir að það sé eins og með aðrar lánastofnanir, að það sé togast á um fjármagnið. Það er ekkert einsdæmi í Framkvæmdastofnun ríkisins eða Byggðasjóði. En að þarna fari fram lánveitingar eftir tilviljanakenndum þrýstingi, það tel ég algerlega órökstutt hjá hv. þm. og sleggjudóm af versta tagi.

Þá langar mig til að víkja nokkrum orðum að því sem kom fram hjá hv. þm. Oddi Ólafssyni varðandi uppbyggingu fiskvinnslunnar á Reykjanesi. Það er rétt að upplýsa það, að þegar útiána- og fjáröflunaráætlun Framkvæmdasjóðs var samþykkt fyrir þetta ár, þá var tekinn upp sérstakur liður sem ætlunin er að lána af til viðbótar við Fiskveiðasjóð til uppbyggingar fiskvinnslu á Reykjanesi og í Reykjavík. Þar er einmitt verið að fallast á þau sjónarmið sem komið hafa fram um að það þyrfti að gera átök í því efni að byggja skipulega upp fiskvinnsluna eða fiskiðjuverin á þessu svæði. Þá er og gert ráð fyrir að gerð verði úttekt á þessum greinum og í samræmi við þá úttekt verði lánuð viðbótarlán úr Framkvæmdasjóði eða deild við Framkvæmdasjóð sem einmitt hafi það verkefni að lána til uppbyggingar fiskvinnslunnar í Reykjaneskjördæmi. Þetta tel ég rétt að komi fram í tilefni af því sem hér hefur verið sagt um uppbyggingu fiskvinnslunnar á þessu svæði í Reykjavik og Reykjaneskjördæmi.

Á síðasta ári var lánað sérstaklega úr Framkvæmdasjóði til uppbyggingar fiskvinnslu í Reykjavík. Það var ákveðnu fyrirtæki í Reykjavik lánuð veruleg fjárupphæð til fiskiðjuversuppbyggingar, og það er eina dæmið sem ég man eftir um að hafi verið lánað til slíkrar uppbyggingar sérstaklega úr Framkvæmdasjóði. Það hefur aldrei verið lánuð ein einasta króna úr Framkvæmdasjóði beint til uppbyggingar fiskiðjuvers á landsbyggðinni, heldur hefur það verið gert óbeint í gegnum Fiskveiðasjóð. En þarna var um að ræða viðbótarlánveitingu til þess að greiða fyrir þarfri framkvæmd og það var gert á þennan hátt, þannig að hér er verið að koma til móts við þau sjónarmið sem hv. þm. voru að lýsa hér áðan varðandi nauðsyn á uppbyggingu fiskvinnslufyrirtækjanna á þessu svæði.

Hv. fim. þeirrar till., sem hér er til umr., minntist á það, að sér fyndist að ég og hv. 1. þm. Suðurl. mynduðum vegg til þess að standa gegn upplýsingum um starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar. Það er þvert á móti, vegna þess að ég held að Framkvæmdastofnunin sé eina stofnunin í landinu, Byggðasjóður og Framkvæmdasjóður séu einu fjárfestingarsjóðirnir í landinu sem birta árlega skrá um allar lánveitingar, hverja einustu lánveitingu sem fram fer og er samþykkt þar af stjórninni. Ég held að það sé enginn annar sjóður, sem ég veit til, að geri þetta. Og þetta er auðvitað gert í þeim tilgangi að gefa mönnum kost á, m. a. alþm., að fylgjast með störfum þessarar stofnunar í þessum mikilvægu efnum, lánveitingunum.

Varðandi till. sem slíka, sem gerir ráð fyrir því að athuga hvaða áhrif lánastarfsemi Framkvæmdastofnunarinnar hefur haft á búsetu í landinu, þá mætti auðvitað með fullum rétti alveg eins spyrja: Hvaða áhrif hefur lánastarfsemi Byggðasjóðs ríkisins haft á búsetuna í landinu? Og svo mætti áreiðanlega til taka um fleiri lánasjóði. Ég sé ekkert minni þörf á því að slík athugun fari fram á breiðum grundvelli heldur en takmarka hana alveg sérstaklega við Byggðasjóð og Framkvæmdasjóð. Ég vonast til að sú n., sem fær þessa till. til athugunar, gefi gaum að því, hvort ekki sé þá rétt að útvíkka till., breyta henni á þá leið að hún nái til starfsemi fleiri fjárfestingarlánasjóða. Mér finnst ekkert óeðlilegt að menn reyni að kryfja til mergjar hvaða áhrif starfsemi þessara sjóða hefur á búsetu manna í landinu og búferlaflutninga.