08.02.1977
Sameinað þing: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

80. mál, hámarkslaun

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er stundum sagt hér í okkar hóp og kannske úti á meðal fólks, að þingræður hafi lítið að segja og veki menn lítt til umhugsunar. En ég ætla að segja það hv. 1. flm. þessarar till., ágætum vini mínum, Stefáni Jónssyni, til hróss, að sú ræða, sem hann flutti hér áðan, fékk a. m. k. mig til að hlusta og til þess að hugleiða það efni sem hann ber hér fram, og kannske miklu fremur en sá texti sem er í tillgr. og við höfum í prentuðu máli fyrir framan okkur og ég játa að ég hef ekki lesið ákaflega vel. Hins vegar skrifaði ég hjá mér ýmislegt af því sem hv. 1. flm. þessarar till. hafði að segja, svona mér til minnis, vegna þess að ég er heldur gleyminn. En ég verð að segja að það var margt vel sagt í ræðunni og vissulega þannig, að það hlýtur að leiða til umhugsunar. Og þegar slíkar ræður eru haldnar, þá ber að fagna þeim.

Hv. þm. Stefán Jónsson sagði m. a. að þessi till. fjallaði um stjórn á launamálum. Þetta minnir mig á það, að nú aðeins fyrir nokkrum dögum var hér til umr. í Nd. Alþ. frv. um hámarkslaun sem flutt var af nokkrum alþfl.- mönnum. Óneitanlega vakti það frv. og sú framsöguræða, sem fyrir því frv. var haldin líka talsverða athygli hér í þinginu og hlaut að gera það, þó að umr. yrðu annars ekki miklar um málið. Ég get ekki betur séð en að málflutningur beggja þeirra hv. þm., sem um þessi mál hafa fjallað hér, af hálfu Alþfl. og nú af hálfu þeirra alþb.-manna sem flytja þá till. sem hér er til umr., — ég get ekki betur séð en málflutningur þeirra sé áskorun á Alþ. um bein afskipti af launamálum, þrátt fyrir það sem kom fram, að ég hygg, í ræðu hv. 1. flm., að svo væri ekki. Ég tel þetta engan veginn af hinu verra, en ég fæ ekki betur séð en að þarna sé um að ræða áskorun á Alþ., eins og ég segi, um það að hafa bein afskipti af launamálum, annars vegar það að ákveða hámarkslaun, eins og kom fram í frv. sem liggur fyrir Nd., og hins vegar það að ákveða launahlutfall í þjóðfélaginu, eins og kemur fram í þessari till. Og ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að þetta eru mjög athyglisverðar till. og hljóta að leiða til þess að við förum að hugleiða þessi mál. Þetta hlýtur að leiða til þess að við förum að spyrja okkur spurninga, sem hv. 1. flm. þessa máls gerði raunar, í sambandi við launamismuninn, þar sem hann tók svo sterkt til orða um launamismuninn — ég held ég hafi skrifað það nokkurn veginn orðrétt — að launamismunurinn, sem „stuðlað hefur verið að“ á undanförnum árum, hafi valdið „fjárhagsáföllum“ og „siðferðilegri hrörnun“, sem við erum að glíma við.

Hv. 1. flm. talar þarna um launamismun sem „stuðlað hefur verið að“, og þá hljótum við að spyrja okkur: Hvað hefur verið að gerast í launamálum undanfarin ár? Þetta er í raun og veru mjög einföld spurning og mætti gjarnan einangra hana eina út af fyrir sig og láta hana standa hér skýrum stöfum einhvers staðar í þingsölunum eða á plakati úti í bæ og fá menn til að velta því fyrir sér, hvað hefur verið að gerast í launamálum undanfarin ár, og vefja þetta ekki í neinar umbúðir, heldur hreinlega hugleiða það í alvöru hvað hefur verið að gerast í þessum málum, eins og hv. 1. flm. hefur vakið okkur til umhugsunar um. Við gætum líka spurt að því hvort hér ríki í rauninni nokkur ákveðin stefna í launamálum, hvort hér á landi ríki ekki algjört stefnuleysi í launamálum og algjört skipulagsleysi, þegar allt kemur til alls. Og sérstaklega finnst mér ástæða til að spyrja að því, hvort núverandi fyrirkomulag, sem óneitanlega er fyrir hendi um ákvörðun launa í landinu, tryggi það réttlæti í launamálum sem mörg okkar aðhyllast svo ekki þarf um að deila.

Ég vil t. d. spyrja að því, hvort sá viðtæki samningsréttur, sem nú er og lengi hefur verið í landinu, hvort hann tryggi, þegar upp er staðið, réttlæti í launamálum. Ég held það væri hollt fyrir okkur á stundum að skoða það hvernig þróunin hefur verið í samningsréttinum. Við aðhyllumst allir samningsréttinn og við viljum að allir hafi samningsrétt. En er það alveg öruggt mál að þessi viðtæki samningsréttur tryggi það réttlæti í launamálum sem við viljum hafa, t. d. við, ég og hv. þm. Stefán Jónsson, því eftir ræðu hans að dæma höfum við líklega svipaðar skoðanir á þessu? Hann aðhyllist gamla hlutaskiptafyrirkomulagið, svona almennt talað, til viðmiðunar. Ég held að ég geri það líka, a. m. k. skildi ég hann svo, að hann vildi taka mið af því, og í rauninni er ég talsvert skotinn í sömu hugsun og hann, þannig að launamismunur í landinu verði ekki óhóflegur, ekki meira en tvöfaldur. Vel gæti ég sætt mig við það.

En sú meginspurning, sem ég vildi koma að hérna í sambandi við þessi mál, er þessi, hvort núverandi fyrirkomulag tryggi það réttlæti í launamálum, sem ég veit að margir hér aðhyllast. Ef þessi till. verður til þess að opna heiðarlegar umr. um þessi mál, þá er vissulega ástæða til að fagna framkomu hennar, hvort sem hún verður samþ. í sínu upphaflega formi eða ekki. Ég tel mikilvægt að þessi mál verði rædd heiðarlega og opinskátt, m. a. vegna þess að ég tel að launabilið sé of mikið hér á landi og að það hafi einmitt á síðustu árum þróast í þá átt að breikka sífellt meira og meira.

Mér er það í rauninni undrunarefni hvernig hægt hefur verið að þola það á síðustu velgengnisárum að daglaunamaðurinn, sem hefur ekki einasta ótrygga vinnu og á sífellt yfir höfði sér að missa vinnu sína frá degi til dags, að daglaunamaðurinn skuli líka vera lægst launaði maður þjóðfélagsins. Ég tel ekkert réttlæti í þessu. En hvernig stendur á því, þrátt fyrir allan þann mikla samningsrétt sem launamenn hafa áunnið sér síðustu áratugina, — hvernig stendur á því að ástandið er svona eins og ég lýsi? Ég tel ekkert réttlæti í slíku. Ég held að daglaunamaðurinn, sem býr við mjög ótrygg kjör frá degi til dags, — hann getur misst vinnu sína hvenær sem er, — hann eigi vissulega að vera miklu betur launaður en margir aðrir starfshópar, einmitt vegna þess að vinnudagar hans á ári hverju kunna að verða miklu færri heldur en annarra manna. En einhvern veginn er þessu þveröfugt farið. Ég vil láta bæta úr þessu, og ég vil að það verði leitað skynsamlegra leiða til þess að hægt verði að gera þetta í reynd án þess að allt launakerfið fari úr skorðum og að allir aðrir fari af stað með kaupkröfur.

Vissulega væri tilefni til þess, úr því maður er kominn hér upp í ræðustól, að ræða um launamálin almennt í landinu og þær umr. sem um þau mál eru og hafa verið. Ég hef ekki — ég skal játa það — tekið mikinn þátt í þeirri umr., en fylgst með henni og stundum sagt álít mitt í þessum efnum. Ég tel að yfirleitt, svona í heildina, séu umr. um launamál á Íslandi á heldur lágu plani og þar skjóti upp kollinum mörg furðuleg rök og rökleysur, m. a. allur sá samanburður sem verið er að gera við það sem á sér stað í nágrannalöndum okkar og annars staðar erlendis, eins og hv. síðasti ræðumaður kom rækilega inn á og ég hygg að 1. flm. þessa máls hafi einnig rætt. Ég held að allur þessi samanburður sé meira og minna út í loftið svo og ýmsir þeir orðaleppar sem notaðir eru í því sambandi, án þess að ég ætli að ræða það frekar. En hitt vil ég enn leggja áherslu á, að ef þessi till. verður til þess að opna heiðarlegar umr. um launamál, þar sem reynt er að kryfja til mergjar allt það kerfi sem við búum við, og ef Alþ. fær að taka þátt í þeirri umr., þá fagna ég því af heilum hug.