15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hér er greinilega um eitt af þeim málum að ræða sem flokkast undir það að þola ekki neina bið samkvæmt skilgreiningu hv. 2. landsk. þm. og verður að ræðast utan dagskrár í dag. Það er hans mat. Ég lít nú ekki þannig á að hér sé um slíkt stórmál að ræða að það sé ástæða til þess að taka það fram fyrir eðlilega fluttar fsp. sem margar eru hér á dagskrá og enn ósvarað og fundið er að að ekki er svarað í tæka tíð — fsp. sem með lögmætum hætti eru framsettar.

Þessu lá svo mikið á að hvorugur hv. frummælenda hafði tíma til að tala við mig um þessar spurningar. Ég fékk boð frá Sþ. hv. 5. þm. Norðurl. v. mundi ætla að ræða um Sölu varnarliðseigna. Meira vissi ég ekki þegar ég kom á þennan fund. Meira vissi ég ekki um hvað þeir tveir hv. ræðumenn, sem nú hafa lokið sínum ræðum, höfðu fram að færa. En ég vil gjarnan ræða þetta nokkuð engu að síður, þó að tími til að kanna svör við sumum þessum spurningum hafi ekki gefist, og ég verð að játa það, að ég man þetta ekki allt til hlítar án þess að glöggva mig á því.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði að sá umsækjenda, sem starfið hlaut, hafi sótt eftir að tilskilinn frestur var útrunninn. Það gerði hann ekki. Hann lagði umsókn til mín áður en fresturinn var liðinn, en bað um að nafn hans yrði ekki birt ef hann hlyti ekki starfið. Þannig var um fleiri sem höfðu lagt inn umsóknir beint til varnamálanefndar. Þeir komu að máli við mig og báðu um að nöfn þeirra yrðu ekki birt ef þeir hlytu ekki starfið. Þeir tilgreindu til þess margar ástæður sem ég get ekki farið að greina hér allar, en voru sumar að mínu mati nokkuð mikilvægar fyrir þá á þeim vinnustöðum bar sem þeir vinna. Þetta varð til þess að ég, með hliðsjón af margnefndri 5. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. lofaði þessum mönnum því, að ég skyldi ekki birta nöfn þeirra ef þeir fengju ekki stöðuna. Það má vel vera að þessi túlkun á niðurlagi 5. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna fái ekki staðist. Ég skal ekki um það segja. En ég er út af fyrir sig þakklátur báðum þeim alþm., sem hér hafa gert þessi mál að umtalsefni. fyrir að hafa þó ekki borið á mig lögbrot, því að ég tel mig ekki hafa brotið lög

Morgunblaðið var svo elskulegt að birta þá grein, sem hér um fjallar, í morgun, þannig að ég þurfti ekki að hafa með mér Lagasafnið, en ég ætla að lesa þessa grein alla, ef ég má, með leyfi forseta:

„Lausa stöðu skal auglýsa í Lögbirtingablaði, venjulega með fjögurra vikna fyrirvara.“ Það var gert. „Heimilt er að taka til greina umsóknir sem berast eftir að liðinn er umsóknarfrestur, enda hafi staðan ekki þegar verið veitt eða í hana sett eða maður í hana ráðinn, eftir að frestur var liðinn.“ Þetta var ekki gert, en er heimilt. Hefði verið heimilt fyrir mig að ráða hvaða mann sem er, hvern hv. alþm. eða hvaða borgarfulltrúa eða hvern sem væri í þessa stöðu þó að hann hefði ekki sótt fyrir tilskilinn tíma, og það gildir um alla þjóðfélagsþegnana. „Nú hefur staða verið auglýst, en eigi þykir rétt að skipa nokkurn umsækjanda í hana, og má þá setja þann umsækjanda er næst þykir standa til þess að fá skipun.“ Þetta hef ég gert, ekki beinlínis vegna þess að ég vantreysti þeim umsækjendum sem sótt hafa, heldur vegna þess að ég tel að það sé rétt að það fáist reynsla á þann mann, sem settur er til að gegna þessu starfi, vegna þess hvers eðlis það er og hér hefur verið lýst að nokkru leyti réttilega. Þess vegna er hér ekki um skipun að ræða, heldur setningu sem getur svo leitt til skipunar ef þeim, sem með þessi mál fara þegar árið er liðið, sýnist svo. Og viðkomandi aðili á rétt á að fá skipun ef yfirvöldum þykir það henta, eins og segir í næstu mgr.: „Veita má slíkum manni stöðu án auglýsingar að nýju, eftir að hann hefur gegnt henni óaðfinnanlega eitt ár eða lengur, enda á hann þá rétt á að fá úr því skorið hvort hann eigi að fá veitingu.“ Og svo kemur að síðustu þetta ákvæði: „ákvæði þessarar greinar taka ekki til starfa í þágu utanríkisþjónustunnar.“

Ég sé nú við lestur þessarar gr. að Morgunblaðið hefur ekki birt hana alla, því að í gr. er enn fremur, ef ég man rétt — og ég held að ég muni það rétt, ákvæði um það, að ef umsækjendur eða félög þeirra æskja þess að fá upp gefið hverjir hafi sótt um stöðu, þá sé skylt að veita þær upplýsingar. Og ég vil láta þá vitneskju hér í té, að engin slík krafa hefur komið fram. (Gripið fram í: Hún kom fram hér.) Er umsækjandi hér á meðal. (Gripið fram í.) Ég kannast ekki við það, sú umsókn hefur þá borist of seint. Það er búið að setja í stöðuna, þannig að það þýðir ekki lengur fyrir einn eða neinn að sækja um stöðuna. Ég hef ekki lengur heimild til að ráða annan mann þó ég vildi, jafnvel ekki úr þessum fríða hópi.

Ég sem sagt endurtek það, að það er fyllilega til endurskoðunar sú skilgreining mín á 5. gr. umræddra laga að hér sé um stöðu að ræða í þágu utanríkisþjónustunnar. En ég vil þó benda á að þetta fyrirtæki starfar með sérstæðum hætti, eins og hér hefur verið lýst. Um það gilda ekki nein lög frá Alþ. Og hv. 2. landsk. þm. beindi því til mín, hvort ég sæi ekki ástæðu til þess að láta leggja fyrir Alþ. frv. um meðferð þessara mála. Það má vel vera að það komi til athugunar. En ég bendi honum og öðrum hv. hm. á það. að Alþfl., sá flokkur sem hann er nú formaður fyrir, fór með þessi mál í 14 ár og sá ekki ástæðu til að setja lög um þessa starfsemi. Það má vera að þörfin hafi aukist síðan, ég veit það ekki. En ég var svolítið kunnugur þessum störfum á sínum tíma, því að ég vann við þetta fyrirtæki þegar ég var nýútskrifaður lögfræðingur, og þá var nákvæmlega sama fyrirkomulag á þessum málum og er enn í dag, þannig að þetta styðst við 25 ára gamla hefð.

Þessi stofnun heyrir beint undir rn. og er þess vegna nokkuð annars eðlis en ýmsar aðrar og framkvæmdastjórastaða hennar er nokkuð annars eðlis en ýmsar aðrar stöður vegna dvalar varnarliðsins hér, sem er skipað með sérstökum lögum, svo sem tollgæsla, löggæsla o. s. frv., o. s. frv.

Ég get ekki fallist á að það sé manni til óhelgi að hafa verið borgarfulltrúi í Reykjavík. Ég held að borgarfulltrúastarf í Reykjavík veiti margs konar innsýn í ýmisleg mál og að þess vegna eigi maður, sem því hefur gegnt og verið kjörinn til þess af fólkinu í borginni, a. m. k. ekki að gjalda þess.

Um það, hvað umræddur settur framkvæmdastjóri hyggst fyrir í stjórnmálum, get ég á þessu stigi ekki sagt neitt, en að sjálfsögðu hættir hann í því starfi sem hann hefur gegnt við dagblaðið Tímann, það liggur ljóst fyrir.

Hv. 2. landsk. þm. sagði að það væri algengt að stjórnmálaflokkar kæmu gæðingum í feit embætti. Þessu get ég mjög vel trúað, og ég er nærri viss um að hann mælir hér af nokkurri þekkingu.

Ég sem sagt mun kanna það á nýjan leik, hvort ástæða sé til að birta nöfn umsækjenda, þegar krafa hefur komið fram um það frá þeim aðilum sem rétt eiga á því, en hvað sagt er af öðrum, það skiptir ekki í þessu sambandi máli fyrir mitt leyti. En ég vil taka það fram, að ég tel mig algjörlega óhræddan að birta þann lista sem yfir umsækjendur liggur. Nokkrir hafa þegar dregið umsókn sína til baka, höfðu dregið umsóknir sínar til baka áður en sett var í stöðuna. Eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag hefur sá, sem gegnt hefur skrifstofustjórastarfi í stofnuninni dregið fyrir nokkru umsókn sína til baka, og það hafa nokkrir fleiri umsækjenda raunar líka gert. Um þetta fer ég ekki fleiri orðum nú, en sem sagt, ég endurtek að það má vel láta reyna á það, hvort skilningur minn á niðurlagi 5. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna fær staðist, þegar lögmælt tilefni gefst til að kanna það.