15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

103. mál, brúargerð yfir Eyjafjarðará

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans sem voru nú eiginlega fyrst og fremst rökstuðningur fyrir því að þessi athugun þyrfti að fara fram, en ekki beint að búið væri að láta gera það sem í þál. felst.

Það kom fram hjá hæstv. ráðh., sem rétt er, að það hefur ekki verið fé á vegáætlun til að láta kanna brúarstæði eða vegarstæði yfir Eyjafjarðará á þessum stað. En vegáætlun er nú til meðferðar í hinu háa Alþ. og þá er tækifæri til að hyggja að því máli.

Ég vil taka undir flest það sem kom fram í svari hæstv. ráðh. um nauðsynina á að láta kanna þetta mál. Ég er persónulega sannfærður um að það er hægt að leysa margvíslegan vanda í Eyjafirði, bæði fjárhagslega, hagkvæmar og félagslega, með því að þessi framkvæmd komi, og kannske hefði hún átt að koma miklu fyrr, þannig að ekki yrðu byggð félagsheimili beggja vegna við Eyjafjarðará með örstuttu bili og skilamannvirki, íþrótta- og sundlaugamannvirki, eins og stefnt er að að gera núna. Ef samgöngur hefðu verið bættar í þessu einu blómlegasta sveitahéraði landsins með brúargerð yfir Eyjafjarðará, þá hefði kannske mátt komast hjá ýmissi slíkri tvöföldun á fjárfestingu sem þarna hefur átt sér stað.

Það er m. a. þetta sem vakti fyrir mér með flutningi þessarar till. á sínum tíma, og vonandi átti Alþ. einnig við það með samþykkt þeirrar till. Ofan á þetta bætist svo spurningin um hitaveituna, og ég vil gera þá eina athugasemd við svör hæstv. ráðh., að mér hefur skilist að það kæmi til greina að bora eftir heitu vatni Hrafnagilsmegin við ána og þá þyrfti að koma til við aðveituæð yfir Eyjafjarðará á þessum stað í hina æðina sem fyrir er, þannig að til greina gæti komið enn að hitaveitumálið kæmi inn í þessa mynd.