15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

255. mál, veitinga- og gistihúsarektstur

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. þau svör sem hann hefur hér gefið. Ég er honum þakklátur fyrir að það kemur í ljós, að nú er verið að vinna að þessu máli með þeim hætti að líkur virðast benda til að vænta megi nokkurs árangurs. Mér er kunnugt um það, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni hér, að fjárhagsvandi þessara aðila stafar að verulegu leyti af hinum erfiðu lánakjörum og fullri vísítölubindingu lána Ferðamálasjóðs. Ef hægt er að koma þeim málum fyrir á annan hátt, þá væri það verulegur áfangi í því að bæta stöðu þessara þjónustuaðila. Það er ábyggilega leið, sem kemur til greina, eins og hæstv. ráðh. ræddi um, að breyta um með þeim hætti að þessi lán verði greidd upp og síðan verði útveguð önnur lán, annaðhvort að hluta eða að fullu, — lán sem þá verða með betri kjörum.

Ég vil einnig fagna því, að það kemur fram hjá hæstv. ráðh. skilningur á því að aðrir aðilar, sem stunda veitingarekstur einungis að sumarlagi, eins og Ferðaskrifstofa ríkisins, mega ekki með of sterkri samkeppnisaðstöðu drepa niður þau fyrirtæki sem sinna ferðamannaþjónustu fyrir okkur íslendinga sjálfa allt árið um kring og eiga í sérstaklega miklum erfiðleikum með að reka starfsemi sína að vetrarlagi, einmitt á þeim tíma sem brýnast er að geta leitað til þessara aðila um þjónustu. Er þá oft og tíðum svo, að sú þjónusta getur orðið jafnvel lífsnauðsynleg.

Ég varð hins vegar fyrir nokkrum vonbrigðum með það, að í till. þeirrar n., sem skilaði álíti 19. des. 1975, skyldi ekki koma fram nein stefna um hvernig skyldi úthluta eða ráðstafa því fé af fjárl., þótt lítið sé, sem ætlað er til að styðja einstaka aðila á þessum vettvangi, þá aðila fyrst og fremst sem sinna þessari þjónustu að vetrarlagi. Sú skipting, sem þar hefur átt sér stað, er að mínu mati umdeilanleg og hefði verið ákjósanlegt að fá fram í áliti n., sem athugaði þessi mál væntanlega ofan í kjölinn, einhverjar leiðbeiningar um það fyrir fjárveitingavaldið hvaða leiðir ætti fyrst og fremst að velja við þá skiptingu. Um það er ekki hæstv. ráðh. að saka og ekkert um að segja frekar, eins og þetta liggur fyrir. En ég tel að þarna verði þó sumpart að breyta um stefnu og veita þessu fjármagni, jafnnaumt og það er skammtað, þeim aðilum sem halda uppi þessari bráðnauðsynlegu þjónustu fyrir ferðamenn að vetrarlagi.

Ég sé svo ekki ástæðu til. herra forseti, að lengja þessa umr. Ég fagna þeim upplýsingum, sem komu fram hjá hæstv. ráðh., og þakka honum enn fyrir svörin.