26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

27. mál, álver við Eyjafjörð

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Aðeins örfáar aths. — Ég vil í fyrsta lagi taka undir það, að æskilegt væri að hafa hér góða umr. um stóriðju eða öllu frekar orkufrekan iðnað. Ég vil leiðrétta þann misskilning, sem mér fannst koma fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að viðræðunefnd um orkufrekan iðnað starfi óeðlilega frjálst, hafi óeðlilega mikil umsvif. Eins og greinilega kom fram hjá hæstv. iðnrh. starfar viðræðunefndin aðeins í umboði iðnrh., og í öllum tilfellum nefndi hæstv. iðnrh. að í samráði við iðnrn. var þetta og þetta gert. Viðræðunefndin hefur sent fjölmargar skýrslur til hæstv. iðnrh. sem að sjálfsögðu leggur þær fyrir ríkisstj. eða gerir það annað við þær sem honum þóknast. Ég tek hins vegar undir það með hæstv. fyrirspyrjanda, að mjög æskilegt væri að leggja slíka skýrslu fyrir þingflokkana og sé ég ekkert því til fyrirstöðu. En það er að sjálfsögðu á valdi hæstv. iðnrh.

Í öðru lagi þá vil ég gera aths. við notkun þessa orðs; stóriðju. Hvað eiga menn við með stóriðju? Eru síldarverksmiðjurnar okkar gömlu ekki stóriðja og fjölmargt fleira. Er ekki átt þarna við orkufrekan iðnað og iðnað sem þarf mikla orku, notar lítinn mannafla, en þarf mikið fjármagn í stofnkostnað? Ég tek undir það, að við orkufrekan iðnað eru margir annmarkar. Þó vil ég ekki taka undir það, að hann eigi engan rétt á sér hér á landi. Ég vil segja fyrir mitt leyti, að það er ákaflega mikilvægt að taka afstöðu til þess eða marka stefnu í uppbyggingu orkufreks iðnaðar. En menn geta ekki gert það einangrað. Menn verða þá jafnframt að taka afstöðu til þess hvað menn vilja virkja stórt. Ekki er hægt að hafna orkufrekum iðnaði og ætla svo að virkja Dettifoss upp á 160 mw. Við verðum að fá kaupanda að einhverjum hluta þessarar orku til þess að hún verði viðráðanleg í verði. Þetta þarf að skoða. Og ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að það verði gert.

Ég vil svo segja um þetta álver við Eyjafjörð, að þar held ég að fjölmiðlar hafi gert úlfalda úr mýflugu eins og oft vill verða. Ég var að vísu

ekki á þeim fundi viðræðunefndar um orkufrekan iðnað þar sem málið var síðast rætt, en ég hef aflað mér þar allra gagna nú. Það, sem hefur gerst, eins og kom fram hjá hæstv. iðnrh., er að Norsk Hydro hefur haft áhuga á þessum málum hér. Þeim hefur nánast verið vísað frá með þeirri skýringu að það væri ekki tímabært að ræða þetta, hvorki orka fyrirliggjandi né ákvörðun stjórnvalda þar að lútandi. Þeir fóru fram á að mega sjálfir skoða vissa staði hér á landi. Þeim var bent á að líklegt væri, ef svona yrði reist, að það yrði utan Reykjavíkursvæðisins. Þeir gerðu athugun á þremur stöðum á Norðurlandi, gerðu þar þjóðfélagslega athugun sem er satt að segja svo athyglisverð að það er okkur íslendingum til skammar að hafa ekki gert slíkt sjálfir í sambandi við iðnvæðingu. Ég held að þm. ættu að kynna sér þessa athugun, sem Norsk Hydro gerði þar. Þeir komu síðan til viðræðunefndar um orkufrekan iðnað og leituðu eftir frekari umr. Þeim var enn sagt að engar ákvarðanir hefðu verið teknar við virkjanir. Þeir bentu þá á að sjálfsagt væri, ef staðsetja ætti einhverja stóriðju við Eyjafjörð, að gera þar umhverfisrannsóknir. Það, sem var ákveðið hjá viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, var að biðja forstöðumenn tveggja stofnana að athuga hvort þetta væri rétt hjá norðmönnunum og hvað slík umhverfisrannsókn kostaði. Ég hélt satt að segja að margir, m.a. hv. síðasti ræðumaður, hafi einmitt verið að krefjast slíkra rannsókna, grundvallarrannsókna. Engin ákvörðun er því tekin, heldur verði að athuga í hverju þessi rannsókn ætti að vera fólgin, og það tel ég mjög nauðsynlegt.

Ég leyfi mér enn að fullyrða að gerður sé úlfaldi úr mýflugu og ekki nokkur minnsta ákvörðun hafi verið tekin um þessa rannsókn, sem ég vona þó að verði gerð vegna okkar sjálfra, en þó af okkur sjálfum.