17.02.1977
Sameinað þing: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2144 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

139. mál, lausaskuldir bænda

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að koma í þennan ræðustól og lýsa stuðningi við þá till. sem hér er til umr. Hv. flm. till. hefur lýst því, að bændastéttin á við mikinn fjárhagslegan vanda að etja um þessar mundir, og hann hefur enn fremur lýst því, að sá vandi er ærið misjafn frá einum bónda til annars. Ég hef heyrt því slegið fram, að svo sé ástatt með fjárhag bænda um þessar mundir að 1/3 þeirra búi við góð kjör og góðan efnahag, 1/3 hafi sæmilega afkomu eða komist af og 1/3 búi við mjög þrönga afkomu og raunar afleit kjör. Hvort þetta er rétt skal ég ekki segja, en ég hygg þó að þar sem ég þekki gerst til sé þetta ekki fjarri sanni.

Ég skal ekki eyða tíma í að útmála þessa stöðu meir. Það hefur komið fram á almennum bændafundum víða um land nú að undanförnu að þetta er alvarlegt mál sem við er að fást, — mál sem þarf að bregðast við með eðlilegum hætti þannig að bót verði á ráðin.

Nú er það svo, að þótt horfið sé að því að veita bændum svokölluð lausaskuldalán, eins og till. þessi stefnir að, enda þótt hún geri einungis ráð fyrir könnun í þessum efnum, þá heggur það auðvitað ekki að rótum þess vanda sem við er að etja. Þetta getur þó verið nauðsynlegt og hefur verið gert a. m. k. tvívegis áður, í fyrsta lagi rétt eftir 1960 og í annan stað árið 1968, á miðju því kuldaskeiði sem hafði alkunn vandamál í för með sér í sveitum landsins, kal og grasbrest. Slíkar aðstæður, eins og sérstaklega erfitt árferði ásamt grasbresti, eru í sjálfu sér nokkuð skýranlegar orsakir þess að bændastéttin þarf á slíkri sérstakri aðstoð að halda og aðstoð sem vænta má að ekki þurfi að koma til þegar árferði er sæmilegt. Það er að öðru leyti ekki nægilega góður vitnisburður um hvernig búið er að bændastéttinni, ef svo á til að ganga að það þurfi á nokkurra ára fresti að hverfa að því að breyta lausaskuldum bænda í föst lán með þeim hætti sem hér er um rætt. Ég skal svo ekki fara lengra út í það. Hitt er meginatriði, að ráðast til atlögu við þann vanda sem orsakar þessa stöðu.

Hv. flm. þessarar till. kom inn á sum af þeim atriðum, sem ég tel að þarna skipti verulega miklu máli. Ef ég á að telja þau atriði upp, sem ég tel að þarna skipti mestu máli, er það í fyrsta lagi hversu seint bændur fá greitt fyrir afurðir sínar. Það verður ekki leyst með öðru en því að auka afurða- og rekstrarlán til bænda, þannig að þeir geti fengið það sem ég kalla eðlilegan hluta af andvirði vöru sinnar greitt þegar við afhendingu, og að því tel ég að eigi að stefna að þeir geti fengið 90%, eins og farið hefur verið fram á af bændafundum á undanförnum mánuðum. Þegar svo hagar til eins og í okkar þjóðfélagi, með þeirri verðbólgu og verðþenslu sem ríkir á öllum svíðum, þá er augljóst hver tekjuskerðing sprettur af því að fá ekki andvirði framleiðslunnar greitt fyrr en sumpart kannske allt að ári eftir að varan er afgreidd, — eða mundi nokkur stétt í landinu þola það að fá ekki nema sem svarar 3/4 af sínum vinnulaunum greidd fyrr en löngu eftir á? Ég hygg ekki. Og þó að ég nefni hér 3/4, sem er ekki fjarri sanni að bændur fái greitt skömmu eftir afhendingu varanna nú þá segir það ekki nema hálfa sögu vegna þess hve sá hluti, sem eftir stendur, rýrnar stórkostlega í þeirri verðbólgu sem geisar í þjóðfélaginu. Þetta tel ég að sé eitt höfuðatriðið.

Í annan stað vil ég nefna að undir sömu sök er auðvitað seld greiðsla útflutningsbóta úr ríkissjóði. Ef svo fer að útflutningsbætur fást ekki greiddar að verulega miklum hluta fyrr en rétt fyrir árslok eins og var á síðasta ári, þá rýrna þær fjárhæðir einnig að sama skapi og hin réttmætu laun stéttarinnar sem ættu að fást að mestu leyti við afhendingu vörunnar. Ég get tekið það fram, að greiðsla útflutningsbóta á árinu 1976 var vissulega sérstökum tilvikum háð vegna þess að fjárlög gerðu ráð fyrir miklu lægri upphæð til þeirra en allir vissu að mundi þurfa. Því hafði þó verið lýst yfir af hálfu stjórnvalda, að þó að sú tala, sem fjárl. fólu í sér, 890 millj., dygði ekki, þá mundi það eigi að siður verða greitt. Og það var gert, en að vísu ekki fyrr en svo seint á árinu sem raun ber vitni eða verulegur hluti af því rétt fyrir jól. Nú lítur þetta dæmi allt betur út á þessu ári og er ekki ástæða til að ætla annað en að greiðsla þessa fjár til bænda verði með eðlilegum hætti. Þær orsakir liggja til þess, að bændur eiga nú í erfiðleikum, að þetta fé hefur rýrnað við að greiðsla þess dregst vegna þeirrar verðbólgu sem geisar í þjóðfélaginn. Og ef svo ætti að fara áfram, þá væri nauðsynlegt að setja um það reglur að útflutningsbætur skyldu greiddar með nokkru samræmi eftir því sem liður á árið.

Í þriðja lagi vil ég minnast á það, sem hv. fim. gerði nokkuð að umtalsefni í ræðu sinni, en það er fjármagnsliður verðgrundvallarins sem raunar um mjög mörg ár hefur verið stórlega vantalinn. Þetta kom ekki að eins mikilli sök meðan fjármagn var ódýrara, vextir voru lægri, verðtrygging á lánsfé óþekkt eða nær óþekkt og búreksturinn krafðist ekki eins mikils rekstrarfjár og nú er orðið í dag. En þegar allt í senn hefur gerst, að búreksturinn krefst æ meira fjármagns, vextir eru svo háir sem raun ber vitni, verðtrygging er komin á stofnlán og fjármagnið svo stórkostlega vantalið sem raun ber vitni í verðgrundvellinum, þá er augljóst að þarna er einn stærsti þátturinn í því að bændur geta ekki náð sambærilegum kjörum við þær stéttir sem þeim er ætlað. Og það er rétt, sem hér hefur komið fram, að þar hefur skort nú á undanförnum árum um 25%.

Enn vil ég nefna að það er auðvitað nauðsynlegt fyrir bændur sjálfa að huga að því að baga sínum búrekstri á þann veg að sem mestrar hagkvæmni sé gætt. Er sjálfsagt, um leið og bændur gera kröfur bæði til ríkisvaldsins og til þjóðfélagsins í heild um greiðslu á andvirði varanna, þá geri bændur einnig kröfu til sjálfra sín og freisti þess eftir öllum leiðum að haga svo búrekstri sínum að sem mestrar hagkvæmni sé gætt. Að því er enda ævinlega stefnt og til þess notið hinna færustu manna og leiðbeininga búvísmanna sem völ er á. Einnig þarf að gæta hagkvæmni í rekstri og uppbyggingu vinnslustöðva og huga vendilega að því máli, hvort þar hafi ekki verið gerðar e. t. v. skyssur eða hvort þar sé stefnt í rétta átt með því að haga uppbyggingu þeirra með þeim hætti sem að hefur verið stefnt á undanförnum árum. Að því hygg ég að þurfi að huga með tilliti til þess, sem komið hefur fram hjá form. Stéttarsambands bænda og í grein sem hv. þm. Steinþór Gestsson hefur ritað nú nýverið í eitt af dagblöðunum, þar sem dregið er í efa að rétt sé stefnt í uppbyggingu sláturhúsa, að byggja einungis stór og fá sláturhús með því kerfi sem þau hafa inni að halda.

Enn tel ég mjög svo þýðingarmikið að hugað sé að því af þeirra hálfu, sem fara með sölumál á vörum landbúnaðarins, ekki síst að því er snertir sölu á landbúnaðarvörum til útlanda, að þar sé gætt, eftir því sem nokkur kostur er, að ná eins hagstæðu verði og hagkvæmum mörkuðum og fyrirfinnast. Ég hef ekkert í höndum sem tortryggir það að hér hafi verið vel að verki staðið. En það þarf að koma fram betur en gerst hefur á undanförnum missirum að svo sé gert, og ég tel að það sé full ástæða til að segja það, því að ef það er ekki gaumgæfilega skýrt fyrir alþjóð hvernig að slíkum málum er staðið, þá gefur það tilefni til tortryggni sem vonandi er ástæðulaus, en eigi að síður kann að fá byr undir báða vængi.

Það eru sem sé ýmsir þættir, sem stuðlað hafa að því að bændastéttin hefur í fyrsta lagi ekki náð þeim tekjum út úr búrekstrinum eins og að hefur verið stefnt með framleiðsluráðslögum. Fleira kemur þar auðvitað til en hér hefur verið upp talið og skal þó látið staðar numið.

Ég vil aðeins víkja að því í sambandi við stofnlán til landbúnaðar, sem hér hefur borið á góma, að þar er alkunnur fjárhagsvandi Stofnlánadeildar og Veðdeildar sem við hefur verið að etja á undanförnum árum og er enn, og er svo komið að Veðdeild Búnaðarbanka Íslands er í raun gjaldþrota. Þennan vanda er verið að athuga nú af stjórnskipaðri n., og held ég að ég megi segja að sú n. muni skila áliti til hæstv. landbrh. áður en langur tími líður. Í till. þeirrar n. verður, eftir því sem ég hygg og veit best, að því stefnt að gera kleift að frumbýlingar geti hlotið betri og meiri lánafyrirgreiðslu en verið hefur til þessa eða á undanförnum árum a. m. k. Það gerist vitaskuld best með því að auka jarðakaupalán og gera þau hagstæð. Það gerist einnig með því að gera mögulegt að lána til vélakaupa frumbýlinga, jafnvel án þess að um nýjar vélar sé að ræða. Og svo skiptir vitaskuld mjög miklu máli að takist að halda eða auka fyrirgreiðslu til bústofnskaupa. Fjármagn til þeirra lána hefur, eins og kunnugt er, verið veitt úr Lífeyrissjóði bænda, og það er auðvitað á valdi stjórnar hans hvernig þau lánakjör eru og hversu mikið fé verður fáanlegt til þeirra hluta. En ég held að enda þótt vandi frumbýlinga sé mikill og nú sé ástandið þannig að fjármagnskostnaður við að setja saman bú sé svo gífurlegur að megi með ólíkindum teljast að það sé kleift ungum og efnalitlum manni án þess að standa í skjóli einhverra venslamanna sem veita honum mikinn stuðning, þá sé sá vandi, sem bændastéttin á við að etja í dag, ekki eingöngu bundinn þessum mönnum. Sá vandi nær lengra. Og um leið og gerð er sú athugun, sem þessi till. fer fram á að gerð sé, þá held ég að við verðum að ráðast að rótum þessa vanda alfarið og horfast í augu við það, að við verðum að búa svo að þessum atvinnuvegi að hann geti staðist.

Ég skal ekki fara hér út í það að ræða þýðingu landbúnaðarins fyrir þjóðina. Það er, vona ég, öllum hér ljóst hversu mikil hún er, hversu þjóðfélagið byggist allt á því að framleiðsluatvinnuvegir gangi, hversu byggð um landið er því háð að blómlegur landbúnaður megi haldast og hversu atvinna fólksins er því háð að framleiðsla landbúnaðarvara dragist ekki saman. Ég vonast til þess að allir, sem hér eru, séu mér sammála um þetta. En ég vil líka segja það, að ég tel að íslenskir bændur geti í raun borið höfuðið hátt. Þó að því sé haldið á loft af einstökum öfgaskriffinnum að íslensk þjóð væri bættari með því að stórfækka í bændastétt eða jafnvel leggja landbúnaðinn niður, þá álít ég að það mundi í fyrsta lagi leiða til hruns okkar þjóðfélags og í annan stað held ég að sú fyrirgreiðsla, sem hið opinbera hér á landi veitir bændastéttinni, sé síst meiri en gert er í flestum eða öllum okkar nágrannalöndum. Þess vegna og m. a. vegna þess að á síðustu árum og áratugum hefur bændastéttin skilað mjög mikilli framleiðsluaukningu og mikilli framleiðni fyrir þjóðarbúið, þá tel ég að íslensk bændastétt geti borið höfuðið hátt. Og þó verið sé að finna að því t. d. að greiddar séu útflutningsbætur sem verða kunna á þessu ári í kringum 2 milljarða, þá er ég ekki í neinum vafa um að það hefur ekki vafist fyrir hæstv. landbrh. að sanna að það sé þjóðinni til hags og jafnvel að það sé ríkissjóði til hags. Þess vegna vil ég aðeins ljúka þessum orðum með því, að það er mín skoðun að við séum að efla okkar þjóðfélag, við séum að styrkja fjárhagsstöðu þjóðarinnar og treysta byggð um allt Ísland með því að gera vel við landbúnaðinn svo að hann megi blómgast á komandi tíð.