22.02.1977
Sameinað þing: 54. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

152. mál, samstarf við grannþjóðir um sjávarútvegsmál

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hér er til umr. stórmál, mjög mikilvægt mál. Kannske er ekki skynsamlegt, þar sem ég hef ekki nema 2–3 mínútur til umráða, að fara að blanda í þetta öðru stórmáli, en ég ætla samt að gera það, enda er það mál náskylt þessu.

Alþjóðleg viðurkenning á útfærslu fiskveiði lögsögu í 200 mílur sprettur af þeirri forsendu, að það sé ekki aðeins réttur strandríkisins að gera allt sem í þess valdi stendur til þess að vernda fiskstofna í hafinu út af ströndum þess og bægja frá hættum sem kunna að steðja að lífinu í sjónum heldur sé það líka skylda þess.

Öðru hverju berast fréttir um miklar flotaæfingar sem eiga sér stað á hafsvæðinu innan 200 mílna lögsögu okkar og þeirra annarra þjóða sem hér er rætt um eða koma við þá ályktun sem hér er til umr. Það er enginn vafi á því, að þessum flotaæfingum, flotaæfingum Atlantshafsbandalagsins og flotaæfingum Varsjárbandalagsins, fylgir mjög mikil hætta fyrir fiskstofna.

Þess eru dæmi, þegar slíkar æfingar hafa átt sér stað, að skip hafa rekist á og sokkið. Það er ekki langt síðan þetta gerðist á Ermarsundi. Hugsum okkur að kjarnorkuknúin skip rækjust á og sykkju einhvers staðar á hafsvæði okkar eða annarra þeirra þ.jóða, sem koma við þessa ályktun sem hér er til umr., — jafnvel þótt ekki tækist svo illa til að eitrun yrði á miðunum, en það gæti hæglega orðið ef slíkur árekstur yrði á okkar hafsvæði, að öll þýðingarmestu mið okkar eitruðust af þessu, — jafnvel þó ekki tækist svo illa til, þá er ekkert vafamál að fregnir um slíkan atburð kynnu að vekja upp grunsemdir um það, að fiskur af Íslandsmiðum væri eitraður. Efnahagur okkar mundi að sjálfsögðu hrynja í rúst um leið og markaðurinn mundi lokast.

Ég álít, með skírskotun til þess að forsendurnar fyrir rétti okkar til fiskveiðilögsögunnar eru þær, að við eigum að vernda fiskstofnana, að það hljóti einnig að vera réttur okkar og skylda að gera allt það sem í okkar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að hættur af því tagi, sem ég nú nefndi, steðji að fiskstofnunum og lífinu í sjónum — hættur af völdum flotaæfinga.

Við megum vera stoltir af því, íslendingar, að hafa verið í forustu fyrir útfærslu fiskveiðilögsögu sem nú er komin út í 200 mílur og alþjóðleg viðurkenning fengin fyrir því. Við eigum einnig að vera í forustu fyrir þessu. Það á að vera næsta hlutverk okkar á alþjóðavettvangi. Við eigum að beita okkur fyrir alþjóðlegri viðurkenningu á því, að strandríkið geti harðbannað allt slíkt hernaðarbrölt, flotaæfingar af þessu tagi sem ég nú nefndi. Og ef þær þjóðir, sem hér um ræðir, tækju höndum saman um þetta, þá þýddi það að drjúgur partur af því hafi: sem við nefnum Norðaustur-Atlantshaf, væri friðlýstur. Og það fordæmi, sem við mundum setja með þessu mundi eflaust hafa mjög mikla þýðingu varðandi friðarviðleitni í heiminum yfirleitt Það mundu bætast við fleiri svæði sem yrðu friðlýst. Og hver veit nema þá renni einhvern tíma upp sú stund að öll höf á þessum hnetti okkar verði friðlýst.