23.02.1977
Neðri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2267 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

163. mál, atvinnulýðræði

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs rétt aðeins til að leiðrétta tvennt sem fram kom í ræðu hv. 1. flm., hv. 8. landsk. þm.

Hann svaraði aths. mínum í sambandi við form þessa frv. af svipaðri viðkvæmni og hv. síðasti ræðumaður lýsti að fram hefði komið í viðbrögðum hv. 2. landsk. þm. einnig í umr. um þetta mál. Það er engu líkara en að þeim finnist ábendingar okkar hljóma eins og veríð sé að stjaka við viðkvæmu uppáhaldsafkvæmi þeirra eða eitthvað slíkt. Það er ekki meiningin að gera þessu afkvæmi þeirra neitt mein, heldur þvert á móti að reyna að snurfusa það dálítið til og koma því í það stand að það sé frambærilegt að senda það frá Alþ. og láta það gegna því hlutverki sem því er ætlað.

Það er satt að segja enginn hégómi, hvernig frá málum Alþingis er gengið. Það er ekkert hégómamál, hvort menn ætla að flýta sér svo mikið að setja saman frv. að menn gefi sér ekki tíma til að skrifa það á nokkur blöð. Eins er ef menn gera mál, sem eru efnislega mörg þingmál. að einu, einungis til þess að spara pappír. Hv. 8. landsk. þm. lýsti því mjög skörulega og greinilega að þetta gerði nú aldeilis ekkert til. Ef við samþykktum málið í þessu formi, þá mundi það bara vera prentað upp í einhverju allt öðru formi fyrir landsins borgara sem kynnu að ætla sér að fræðast um hvernig löggjöfin sé. Það detti af sjálfu sér út úr þessum nýsamþykktu lögum kaflinn um hlutafélög og fari af sjálfu sér inn í hlutafélagalögin, og af sjálfu sér detti kaflinn um samvinnufélögin út og fari inn í lögin um samvinnufélög, eftir muni bara standa, I. og ég held II. kafli frv. Ef það er meiningin að fá frv. í því formi eftir að það er samþykkt, að það verði þannig útlítandi þegar það er orðið að lögum, þá er miklu skynsamlegra að standa þannig að málinu strax í upphafi. Það er ekki svo mikill pappírsskortur og prentsvertuskortur í landinu að þetta sé ekki hægt. Það er ekki heldur svo mikill tímaskortur nú á þessum tíma í Alþ. að þetta sé ekki hægt. Þegar það hefur verið látið viðgangast að bandormsfrv. hafi verið samþ. hér á Alþ., þá hefur þar yfirleitt verið um að ræða tímabundnar skyndiráðstafanir sem snert hafa mörg lög, og af þeim ástæðum, vegna algers tímaskorts og vegna þess að efni laganna hefur verið tímabundið, hefur það verið látið viðgangast að allt efnið væri sett inn í eitt frv., en þó þannig, að það væri tekið fram, hvaða lög ættu að breytast í þessu sambandi, og breytingarnar stílaðar inn í þau lög.

Það má til sanns vegar færa, að það getur verið ritstjórnaratriði í lagasafni að taka t. d. kafla, sem samþykktur kynni að vera, eða ef þetta frv. yrði samþ. að taka þá kaflann um hlutafélög og prenta hann upp í hlutafélagalögunum og samvinnufélagakaflann upp í samvinnufélagalögunum, rétt eins og hv. flm. sagði. Það getur verið ritstjórnaratriði í sambandi við útgáfu lagasafns og kann að vera gert, og er þá prentað jafnvel á báðum stöðunum bæði í væntanlegum lögum um atvinnulýðræði og í hinum lögunum tvennum. Ég held að ef við ætluðum að spara okkur tíma og einfalda mál með því að standa að frágangi þeirra með þessum hætti, þá yrði lagasafnið með tímanum ærið þykkt. Það yrðu þá nokkuð mörg lög sem yrðu prentuð tvisvar sinnum í einu og sama lagasafninu. Auk þess er á það að líta, að það líða nokkur ár milli útgáfu lagasafna okkar, og í Stjórnartíðindum er ekki verið að standa í svona tilfærslu á milli lagabálka, það sér auðvitað hver maður. Þar yrðu bara prentuð lög um atvinnulýðræði, og þeim, sem ætlaði að stofna hlutafélag og fræðast um hlutafélagalögin, dytti e. t. v. ekki í hug að fletta upp í lögum með allt annarri fyrirsögn í ýmsum Stjórnartíðindaheftum. Ég vil undirstrika þetta, að það er ekkert hégómamál að gengið sé þannig frá lögum á Alþ., að borgarar landsins sjái nokkurn veginn um hvað er að ræða í löggjöfinni, hvað hver lög hafa inni að halda. Þess vegna er það algert lágmark í sambandi við mál eins og þetta, að það sé tekið upp í fyrirsögn frv. hvaða lögum eigi að breyta með því.

Hitt atriðið, sem ég vildi leiðrétta, kann að byggjast á misheyrn minni. Ég heyrði ekki betur en hv. þm. væri að tala um að líklega mundi ekki vera í hópi þeirra þm., sem nú sætu á Alþ., neinir þeirra sjálfstæðismanna sem staðið hefðu að málum eins og þessu áður á tíð. Var það ekki rétt heyrt? En þetta er vitanlega rangt. Hér á móti mér sat áðan einn hv. þm. sem hafði einmitt forgöngu um mikilvægan þátt þessa máls, sem þegar er víða kominn í framkvæmd, þ. e. a. s. samstarfsnefndirnar. Það er hv. 8. þm. Reykv. Sjálfur hæstv. fjmrh. stóð að frv. um hlutdeildar- og arðskiptafyrirkomulag. Nú játa ég það, að ég hef ekki flett upp í öllum þeim þingtíðindum þar sem till. sjálfstæðismanna um þessi mál hafa verið prentaðar þegar þær hafa verið endurfluttar, en ef mig misminnir ekki, þá mun á einhverjum tíma hafa verið meðal flm. slíkra till. hv. 6. þm. Reykv. Hann ber það þá af sér ef það er rangt munað hjá mér. Alla vega er þetta ekki neitt forsögulegt fyrirbrigði í Sjálfstfl., eins og hv. 11. þm. Reykv. lýsti raunar áðan. Mikið starf að þessu hefur verið unnið á vegum sjálfstæðismanna.

Ég ætla ekki að fara efnislega út í umr. um þetta stóra mál, það koma vafalaust ábendingar í n. Ég get írekað að það, sem ég sagði í upphafi þessarar umr., að mér sýnist mjög æskilegt að útfæra sem best og víðast hugmyndina um samstarfsnefndirnar. En ég er ekki jafnsannfærð um að það sé sami áhugi meðal launþega fyrir einfaldri ákvörðun um aðild að stjórn fyrirtækja. Það fer vitanlega eftir því, hvaða hlutverk sú stjórn hefur og hvaða hagsmuni viðkomandi launþega starfsemi slíkrar stjórnar snertir hverju sinni.