01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

262. mál, útflutningsgjald af grásleppuhrognum

Jón Árnason:

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál varðandi útflutningsgjald af grásleppuhrognum þyrfti að taka til sérstakrar endurskoðunar að ekkert af upphæðinni skuli renna til framleiðendanna eða bátamannanna. Mér finnst það vera ósanngjarnt, vegna þess að við vitum að það eru útflutningsgjöld á öllum sjávarafurðum sem fluttar eru úr landinu, en það er hluti af útflutningsgjaldinu sem rennur t. d. til þess að borga fæðiskostnað. Það væri ekki óeðlilegt að grásleppuútgerðarmennirnir fengju t. d. eitthvað af þessu útflutningsgjaldi, sem talið hefur verið nauðsynlegt að leggja á, til þess að efla þennan iðnað hér í landinu, sem má fullyrða að hefur m. a. haft það í för með sér að verðlagið á grásleppuhrognunum er miklu öruggara í dag. Það hefur alltaf verið stígandi upp síðan var farið, þó að litlu leyti væri, að framleiða kavíar hér á Íslandi. Þeir, sem hafa fylgst með þessum málum, vita að s. l. 10 ár, sem það hefur aðallega verið gert, hefur verðið verið stigandi ár frá ári. En það kom oft fyrir áður, að grásleppuhrognin voru ekki seljanleg og þeir, sem ekki gátu selt fyrst, gátu ekki komið vöru sinni út nema fyrir mjög lítið verð. Þetta hefur ekki komið fyrir að undanförnu, og ég hygg að það sé íslenskum framleiðendum m. a. að þakka, að slíkt hefur ekki átt sér stað.

Víst er það rétt, sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson sagði, að hér er um mikið verðmæti að ræða í þjóðarbúið, um 2 milljarða kr. á 4 árum. Það er hreint ekki svo lítið. En ef við hugsum okkur að hagnýta þetta hráefni og gera það að verðmikilli útflutningsvöru, þá sjáum við best dæmi af því sem hæstv. ráðh. las hér upp áðan. Árið 1974, þ. e. áður en við fáum tollaþvingunina frá Efnahagsbandalaginu, eru unnin hér í landinu 13% af hrognum, 1600 tunnur. Fyrir þessar 1600 tunnur eða 13% koma 70 millj. kr., en fyrir 11 þús. tunnur koma ekki nema 156 millj. kr. í útflutningi þegar hrognin eru ekki unnin. Þarna sjá allir hvað mikið verðmæti fer forgörðum sem ætti að koma í þjóðarbúið, en fer handa útlendingum til þess að fullvinna hrognin og fá svo meiri verðmæti út úr þeim á þennan hátt, eins og við ættum að geta gert sjálfir. Það er þetta sem ég vildi benda á. Nú er það síðasta árið, 1977, sem lögin eru í gildi. Ef þau verða framlengd að einhverju leyti, þá er það eitt út af fyrir sig sem ég tel réttlætismál hrognaframleiðendum til handa, að þeir fái a. m. k. verulegan hluta af þessu útflutningsgjaldi í sinn hlut til þess að bera uppi ýmsan kostnað.