09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Frsm. meiri hl. (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft til athugunar frv. til l. um breyt. á lögum nr. 28 1973, um dvalarheimili aldraðra. Fóru leikar þannig í n. að hún klofnaði í afstöðu til frv:, og leggur meiri hl. þeirra nm., sem á fundi voru, til að frv. verði fellt, þar sem hann telji eðlilegt að lögin frá 1975 um skiptingu verkefna á milli ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð sem heild að liðnum hæfilegum reynslutíma, en einn þáttur ekki tekinn út úr eins og frv. gerir ráð fyrir.

Þessi afstaða var tekin á grundvelli upplýsinga um það, að nú fari fram endurskoðun, sem fjölmenn n. vinnur að, á starfaskiptingu milli sveitarfélaga og ríkisins. Fannst þeim, sem standa að nál. á þskj. 323, eðlilegt að þessi þáttur félli eðlilega inn í þá endurskoðun og yrði tekinn til athugunar í sambandi við önnur þau verkefni sem gæti hugsanlega verið um að ræða að sveitarfélög og ríkissjóður ynnu sameiginlega að.

Fjarverandi afgreiðslu málsins voru hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir og Sigurlaug Bjarnadóttir.