27.10.1976
Neðri deild: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

18. mál, skylduskil til safna

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þeim umr. sem hér hafa orðið. Eins og hæstv. ráðh. nefndi, þá er þetta í þriðja sinn sem þetta frv. er lagt fyrir Nd. Því hefur tvívegis verið vísað til menntmn., sem ég er form. fyrir, og við höfum núna á tveimur þingum haft þetta mál til meðferðar og rætt það allítarlega og kynnt okkur ástæður fyrir þessu frv. og ýmsa annmarka sem eru á því, eins og það liggur fyrir. Ég get því fullvissað þá hv. þm., sem hér hafa talað og varað eið ýmsum annmörkum frv. og breytingum sem það hefur í för með sér fyrir ýmis söfn, að við í menntmn. höfum farið með mikilli gát í þetta og kynnt okkur sem sagt allar ástæður fyrir frv., rökin fyrir því að lög eru yfirleitt um skylduskil til safna og hvernig því sé best fyrir komið. Það er eins og oftar, að þegar frv. eru lögð fyrir þingið, þá er líklegt að þau taki breytingum, og mér þykir einmitt líklegt um þetta frv., að það taki nokkrum breytingum að lokum, áður en það verður afgr., ef ég má ráða af þeim undirtektum sem það hefur fengið hér í hv. d., og eins vil ég ráða það af þeim umr. sem orðið hafa hjá okkur í menntmn.

Ég skal nú ekki eyða löngum tíma til þess að rekja þetta frv. og ástæður þess eða fara langt út í þetta mál. En sannleikurinn er sá, að þetta mál er talsvert miklu viðameira heldur en margir skyldu halda og vilja vera láta, þannig að hver einasta grein þessa frv. þarf sinnar athugunar við. Og það er auðvitað alveg nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir höfuðástæðum þess að við höfum lög um það að varðveita prentað mál. Og þá kemur þar ýmislegt til greina. Það er augljós þjóðfélagsleg nauðsyn á því að rit séu geymd, þjóðfélagsleg og menningarleg nauðsyn. En við verðum líka að taka tillit til þess að það er dýrt að prenta bækur og það er lögð veruleg skylda á útgefendur í þessu sambandi, þannig að ég hygg að þeir, eins og þeir hafa raunar gert, geti sýnt fram á, að þeir gefi þannig hinu opinbera eða láti í té til hins opinbera allverulega fjármuni. Við þurfum líka að taka tillit til þessa.

Við þurfum sem sagt að samræma þetta tvennt, að það er þjóðfélagsleg og menningarleg nauðsyn að varðveita prentað mál jafnvel fjölritað mál, eins og er nú í þessu frv., en hins vegar má þessi skylda ekki ganga svo langt að þetta verði verulegur fjárhagslegur baggi á útgefendum.

En sem sagt, vegna þeirra umr., sem hér hafa orðið, og vegna þeirrar umfjöllunar, sem þetta mál hefur nú fengið þrátt fyrir allt, þá vil ég taka það fram að við í menntmn. munum ekki hraða mjög afgreiðslu þessa máls og við munum taka það til gaumgæfilegrar skoðunar, hverja grein þess, og mér þykir líklegt að það eigi eftir að taka nokkrum breytingum.