21.03.1977
Efri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2673 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Frsm. minni hl. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég vil gjarnan segja hér fáein orð í framhaldi af þeim umr., sem orðið hafa og ekki síst með tilvísun til þess, sem hv. frsm. meiri hl. sagði hér. Hann kom líklega að kjarna málsins þegar hann fór vítt og breitt, fór jafnvel að tala um Orkubú Vestfjarða og fjölmargt fleira, því að í raun og veru er ekki verið að deila hér um þessa litlu Kljáfossvirkjun, heldur er verið að deila um stefnuna í orkumálum. Stefnan í orkumálum hefur verið mjög til umr. upp á síðkastið. Fyrir hv. Alþ. liggur m. a. þáltill. um stefnuna í orkumálum, og hæstv. iðnrh. hefur, eins og ég gat um áðan, sett á fót n. til að skoða þessi mál, og þessa litlu heimild, sem hér er fjallað um, er sannarlega nauðsynlegt að skoða með tilliti til þessa.

Ég verð að taka undir það sem hæstv. utanrrh. sagði hér áðan, að ég er því mótfallinn, ég tel það rangt að skipta landinu í fjölmörg lítil orkubú, skipta því upp úr. Orkumarkaður okkar er svo lítill að við þurfum að sameina þetta. Ég féllst að vísu á heimildarlög um Orkubú Vestfjarða. Það má gjarnan koma hér fram, að ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa athugað þau mál betur, að Orkubú Vestfjarða sé vafasamt fyrirtæki. Ég held að Vestfirðirnir þurfi umfram allt annað að tengjast orkukerfi landsins og verða einn liður af orkukerfi landsins, enda hefur komið í ljós, þegar um það hefur verið fjallað, að þar þarf að gera stóra hluti til þess að Orkubú Vestfjarða hafi starfsgrundvöll. Um þetta mun þessi n. fjalla og síðan hæstv. ríkisstj. taka afstöðu til þess.

Erum við að gera þessari stofnun, Andakílsárvirkjun, nokkurn greiða ef við gefum undir fótinn með virkjun þar, en ákveðum svo e. t. v. innan skamms að sameina orkuframkvæmdir í eina landsveitu og tryggja þannig þá samræmingu, bæði í framkvæmdum og í rekstri, sem er ákaflega nauðsynleg? Sumir hafa að vísu sagt að þessa samræmingu megi tryggja með því að koma á samstarfi þessara fjölmörgu aðila, og ekki neita ég því að það má. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að þetta verði langtum betur gert með því að fela einum aðila að gera till. um virkjunarstaði og sjá um rekstur. Þessi mál eru þess vegna í mótun og það væri rangt af okkur að fara að veita heimild til enn einnar virkjunar.

Hv. þm. sagði að Orkustofnun mælti með samþykkt frv. Það er ekki rétt. „Orkustofnun sér ekki neitt því til fyrirstöðu,“ segir í áliti Orkustofnunar, það er auðvitað töluvert annað en að mæla með því, er hins vegar búin að gera svo alvarlegar aths. að varla verður framhjá þeim gengið, eins og ég las hér upp áðan. Hv. þm. talaði mikið um það, að Orkustofnun gerði enga aths. við þá starfshætti Alþ. að veita heimildir. Skárra væri það nú ! Við höfum ekki beðið Orkustofnun um aths. um starfshætti Alþ., og ég hugsa að því yrði heldur illa tekið ef opinber stofnun færi að gera opinberlega aths. við starfshætti Alþ. Það gerir hins vegar almenningur í vaxandi mæli og við þurfum kannske að líta einnig til þess. Alþ. hefur haft þann sið að veita heimildir nokkurn veginn eins og um hefur verið beðið, og Orkustofnun sér í þessu tilfelli ekkert því til fyrirstöðu að þeim starfsháttum verði áfram haldið. Við getum eflaust farið í kringum landið og fundið ótal virkjanir sem eru að öllum líkindum hagkvæmar. Við getum nefnt nokkuð margar, við hv. þm. í Vestfjarðarkjördæmi, sem við teljum að væri mjög gott að fá að virkja. Af hverju ekki að samþykkja þetta í einu lagi? Af hverju ekki að segja bara: Hæstv. ríkisstj. er heimilt að virkja þar sem hún telur hagkvæmt? Ég sé ekki mikinn mun á þeim starfsháttum. Við samþykkjum heimildir byggðar á gögnum sem okkar fremsta stofnun á þessu sviði segir að séu svo ófullkomin að þau séu ekki frambærileg með frv., sem lagt er fyrir Alþ., ef við samþykkjum þetta frv. Ég held að við getum alveg eins samþykkt eina slíka allsherjarheimild.

Hv. þm. sagði að við teldum þessa virkjun hagkvæma. Ég sagði áðan að ég teldi persónulega líklegt að þessi virkjun væri hagkvæm, og ég vil alls ekki andmæla því. Hins vegar eru þau gögn, sem fyrir liggja, svo takmörkuð að ég treysti mér ekki til að meta það svo að afgerandi sé. Ég tek undir það sem Orkustofnun segir um það: það verður ekki metið af þessum gögnum. En mér þykir margt benda til þess, þetta er rennslisvirkjun í á þar sem rennsli er tiltölulega jafnt, og oftast er það svo að slíkar virkjanir eru hagkvæmar. Hins vegar er alls ekki þar með sagt að slíkar virkjanir henti því samtengda kerfi sem við búum við í vaxandi mæli. Það má vel vera að hinu samtengda orkukerfi henti betur toppvirkjun, virkjun sem getur geymt orkuna, geymt vatnið og miðlað því til orkuframleiðslu á toppunum. Það koma fram efasemdir um það í þessum gögnum að rennslisvirkjun henti því samtengda kerfi sem við höfum núna. Við þurfum að athuga þetta. En um það liggja ekki fyrir upplýsingar, svo að ég leggi á það áherslu. Það getur vel verið að virkjunin ein út af fyrir sig sé hagkvæm. En er hún hagkvæm fyrir heildina? Er sem sagt svarað þeirri spurningu sem er í niðurlagsorðum Orkustofnunar, að áður en ráðist er í virkjun sé nauðsynlegt að athuga virkjun Kljáfoss með heildarhagkvæmni fyrir hið samtengda svæði fyrir augum? Það er þetta sem vantar.

Ég skal ekki orðlengja frekar. Ég vil leggja áherslu á það að lokum og bið menn að athuga það, að við erum hér ekki síst að ræða um þá skipan sem við viljum hafa á orkumálum. Ég hygg að við séum allir hér sammála um að það beri að stefna að samtengingu orkusvæðanna á landinu. Þeirri stefnu hefur verið fylgt. Við teljum kannske sumir að því hefði mátt hraða meira. Við erum sammála um það í grundvallaratriðum. Við erum það vegna þess að með því móti stækkar orkumarkaðurinn, með því móti verður síður þörf á því að efna til stóriðju þegar virkjað er stórt í einum landshluta. Stór orkumarkaður og hraðvaxandi tekur þá fyrr við þeirri orku sem þannig er fáanleg. Það er mikil breyting í þessu fólgin t. d. að þessu leyti. Við erum einnig allir sammála um að það eigi að samræma framkvæmdir á þessu sviði. Við erum kannske ekki sammála um hvernig það eigi að gerast, en það er í athugun. Og ég vil ljúka þessum orðum með því að segja, að ég er þeirrar skoðunar að við gerum þessum aðila engan greiða með því að vera að samþykkja heimild og með því e. t. v. að lokka þennan aðila út í frekari rannsóknir, ef því kerfi, sem við búum við, verður kollsteypt innan skamms tíma.