21.03.1977
Efri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2675 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þessar umr. gefa mér tilefni til þess að minnast hér aðeins á nokkur meginatriði sem koma upp í hug minn.

Á því er enginn vafi, að þær skoðanir hafa verið og eru uppi hjá sumum, að æskilegust lausn á raforkumálum þjóðarinnar sé að reisa nokkrar stórvirkjanir og leiða rafmagn með háspennulínum um landið allt, og hagkvæmast muni vera að halda áfram að reisa stórvirkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu þar sem við höfum nú Búrfellsvirkjun, sem kom í framhaldi af Sogsvirkjunum, Sigölduvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, og margir fleiri álitlegir og hagkvæmir virkjunarmöguleikar eru á þessu svæði. Það má vafalaust leiða rök að því, eins og sumir hafa talið sig hafa gert, að hagkvæmast væri fyrir þjóðina í heild og landið allt að áfram yrði haldið að virkja á þessu svæði og það sæi landinu öllu fyrir rafmagni. Ég hef oft áður lýst þeirri skoðun minni, að ég er andvígur þessari stefnu og get ekki á hana fallist. Ég tel nauðsynlegt af mörgum ástæðum að virkja viðar og að dreifa virkjunum um landið. Auðvitað er það alger forsenda að þær virkjanir, sem reistar eru, séu hagkvæmar. En það eru margar ástæður sem liggja til þess, að ég tel að sú stefna, sem ég var að lýsa, sé réttari. Það er í fyrsta lagi öryggis vegna. Hvor leiðin sem farin er þarf auðvitað að leggja háspennulínur um landið allt til að tengja það saman, hvort sem það yrðu aðeins stöðvar á einu svæði, eins og Þjórsársvæðinu, eða margar virkjanir víðs vegar um land. Samtenging er nauðsynleg, hvor leiðin sem farin er. En ég tel hins vegar að það sé of mikið öryggisleysi fyrir stóra landshluta ef þeir ættu að byggja á rafmagni, sem leitt væri frá rafstöðvum á einu tilteknu svæði, og byggja á háspennulínum sem þurfa að liggja yfir fjalllendi þar sem allra veðra er von og miklir örðugleikar á því í illviðrum á vetrum, ef eitthvað bilar, að gera við og getur tekið kannske marga daga. Ég held að ef þessi leið yrði valin, þá mundi mörgum landsmönnum þykja þröngt fyrir dyrum stundum ef bilanir yrðu í háspennulínum, eins og því miður kemur alloft fyrir hér hjá okkur, og heilir landshlutar yrðu um hríð rafmagnslausir. M. a. af þessari ástæðu tel ég brýna nauðsyn að reisa virkjanir víðar, í öllum landsfjórðungum, í ýmsum byggðarlögum.

Annað atriði kemur hér einnig til. Sú stefna að halda áfram svo til eingöngu að reisa rafstöðvar á Þjórsársvæðinu leiðir einnig hugann að því, að við lifum í áhættu, það er áhættusamt land sem við búum í og þessar virkjanir eru á jarðskjálfta- og eldgosabelti, í rauninni við rætur Heklu. Þess vegna er í fyrsta lagi brýn nauðsyn að stefna að því og undirbúa það, að reist séu raforkuver annars staðar, utan þessa eldvirka beltis, og að því hefur verið unnið, m. a. með því að undirbúa virkjun í Fljótsdal, þ. e. a. s. Bessastaðaárvirkjun, og Blönduvirkjun sem hefur verið útbýtt í dag frv. um heimild til að virkja. Þessar virkjanir báðar eru utan þessa eldvirka svæðis og skapa því mikið öryggi.

Hingað til hefur það verið þannig, að Landsvirkjun hefur af myndarskap og að sínu leyti, eins og Sogsvirkjun gerði áður, undirbúið hagkvæmar virkjanir, og þegar að því kemur að þarf að ráðast í nýjar virkjanir til að koma í veg fyrir orkuskort, þá er í rauninni ekki um annað að ræða fullhannað eða tilbúið til ákvörðunartöku heldur en valkosti á svæði Landsvirkjunar. Ég hef lagt á það áherslu að undirbúningi annarra virkjana væri hraðað og nefni þar sérstaklega þessa tvo möguleika: Bessastaðaárvirkjun og Blöndu, þannig að þegar að því kemur að taka þarf ákvörðun um næstu stórvirkjun á eftir Hrauneyjafossvirkjun séu fleiri valkostir til heldur en þeir einir sem Landsvirkjun hefur að bjóða.

Ég hef nefnt hér tvenn rök: annars vegar öryggið í sambandi við háspennulínur yfir fjallgarða og mörg hundruð km og hins vegar í sambandi við eldvirk svæði. En að sjálfsögðu kemur fleira hér til. Það er byggðastefnan, það er jafnvægið í byggð landsins, það er tillitið til fólksins sem býr úti á landi. Auðvitað er það ákaflega mikilvægt frá byggðasjónarmiði að virkjanir séu allvíða um land, því að bæði skapar það mikla vinnu, meðan verið er að reisa þær virkjanir, og nokkra eftir að þær eru komnar í notkun. Auk þess er það mikilvægt fyrir héruðin að hafa virkjanir þar, en þurfa ekki að sækja allt til eins svæðis hér sunnanlands.

Ég hef stundum undrast það, að sumir þeir menn, sem mestan áhuga hafa á byggðastefnu og jafnvægi í byggð landsins, skuli komnir á þá skoðun, að meginatriðið í orkumálum landsins sé að byggja stórar virkjanir hér sunnanlands og leiða svo rafmagnið héðan til allra annarra landshluta. Því miður gætir þess nokkuð.

Í sambandi við öryggismálin er rétt að minnast á þá virkjun sem hér er rætt um, virkjun Hvítár í Borgarfirði eða Kljáfossvirkjun. Menn kynnu kannske að ætla að Vesturland ætti nú að búa við sæmilegt öryggi, þar sem það er ekki langt frá Þjórsársvæðinu þar sem þessar miklu og ágætu virkjanir eru. En sannleikurinn er sá, þegar nánar er skoðað, að hér er töluverð áhætta á ferðum. Vesturland nýtur Andakílsárvirkjunar, sem var hagkvæm virkjun og hefur reynst ákaflega vel. En hún nægir ekki fyrir þetta svæði og þess vegna þarf rafmagn héðan að sunnan. Það rafmagn er flutt m. a. með sæstreng yfir Hvalfjörð. Sá sæstrengur er nú orðinn gamall og er talið, að ef bilun verður á honum geti það orðið mjög alvarlegt mál fyrir allt Vesturland. Einu sinni hefur slík bilun komið fyrir og mun hafa tekið a. m. k. tvær vikur að gera við þá bilun. Ef slíkt gerðist nú væri það mjög alvarlegt áfall fyrir almenning á Vesturlandi og fyrir allt atvinnulíf þar. Nú má segja að úr þessu verði væntanlega bætt fyrir lok þessa árs með nýrri línu fyrir Hvalfjörð. En þetta ástand, sem lengi hefur átt sér stað, bendir okkur á að við verðum að gæta okkar í þessum efnum, láta ekki heila landshluta byggja að verulegu leyti á löngum háspennulínum. Það er því ekki að furða þó að íbúar Vesturlands og m. a. forráðamenn Andakílsárvirkjunar hafi haft í huga hvaða virkjun væri álitleg á því landssvæði til viðbótar Andakílsárvirkjun.

Virkjun Kljáfoss í Hvítá er ekki ný af nálinni, því að það er komið nokkuð á annan áratug síðan undirbúningsrannsóknir hófust þar. Þetta mál hefur því verið alllengi á döfinni og rannsóknir farið fram og áætlanir gerðar. Slíkar áætlanir hafa verið endurskoðaðar oftar en einu sinni og ber allt að sama brunni, að hér sé um hagkvæma, álitlega virkjun að ræða. Ég tel því mjög eðlilegt og æskilegt að verða við óskum stjórnar Andakílsárvirkjunar og Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi að veita heimild til þessarar virkjunar. En það er eitt sem við þurfum að hafa í huga í þessu sambandi, hvað felst í heimildarlögum til virkjunar. Er með heimildarlögum verið að slá því föstu að ráðast skuli á næstunni í virkjun? Við skulum líta á Suðurland.

Í árslok 1976 var veitt virkjunarleyfi fyrir Hrauneyjafossi, rúmum 5 árum eftir að Alþ. hafði fyrir sitt leyti gengið frá þeim málum með því að samþykkja heimildarlög fyrir virkjun Hrauneyjafoss. M. ö. o.: Alþ. féllst á að veita heimild til að virkja Hrauneyjafoss árið 1971 og virkjunarleyfi er veitt rúmum 5 árum síðar. Vegna hvers? Það er vegna þess að gangur þessara mála hefur verið og verður væntanlega þessi, að þegar fyrir hendi er álitleg og hagkvæm virkjun, sem frumrannsóknir og einhverjar frekari rannsóknir hafa farið fram á, þá er málið talið það álitlegt að lagt er til að Alþ. veiti heimild. Síðan fer fram hönnun og þær rannsóknir sem þarf til viðbótar, og þegar fullnaðarrannsóknir og fullnaðarhönnun liggur fyrir tekur svo ríkisstj. ákvörðun um að beita þessari heimild sem Alþ. var búið að veita. Ég held að þess séu ekki dæmi að Alþ. samþykki heimildarlög nema að þess mati séu allar líkur til þess að um álitlega virkjun sé að ræða. Þess vegna ætla ég að alltaf séu, áður en Alþ. gengur frá slíkum málum, nokkrar undirbúningsrannsóknir og áætlanir. Og svo er um virkjun Kljáfoss, því að eins og ég gat um er það nokkuð á annan áratug sem þessar áætlanir og rannsóknir hafa átt sér stað. Hins vegar er ekki um að ræða fullnaðarrannsóknir eða fullnaðarhönnun fremur en var um Hrauneyjafoss á sínum tíma, þegar Alþ. samþykkti heimildarlögin, eða fremur en var t. d. um Bessastaðaárvirkjun þegar heimildarlögin voru samþykkt í des. 1974. Ég held að það sé byggt á misskilningi að Alþ. hafi verið sniðgengið varðandi leyfi fyrir Hrauneyjafossvirkjun, því að Alþ. hafði, eins og ég gat um, fyrir alllöngu samþykkt heimildarlög þar sem beinlínis var ráðgert að virkjunarleyfi yrði veitt á sínum tíma af ríkisstj. eða iðnrh. ef þróun mála yrði á þá lund.

Það má vera að einhverjir telji að hér eigi að breyta vinnubrögðum, sem alllengi hafa viðgengist á Alþ., og að ekki verði lögð fyrir Alþ. frv. um virkjunarheimildir fyrr en virkjun er fullhönnuð, þannig að hægt sé um leið að taka ákvörðun og þá yrði það væntanlega Alþ. sem tæki þá endanlegu ákvörðun í stað ríkisstj. Ég held hins vegar að þau vinnubrögð, sem hafa verið viðhöfð, séu eðlileg, að þegar mál eru komin á það stig að rannsóknir og áætlanir benda til að virkjun sé álitleg og hagkvæm, þá sé málið lagt fyrir Alþ. og farið fram á heimild. Ef hún er veitt, þá er þar komin nokkurs konar vilja- eða stefnuyfirlýsing af hálfu Alþ. um að áfram skuli haldið þessum undirbúningi, og ef svo fer að endanleg hönnun og endanlegar áætlanir staðfesta þessar fyrri rannsóknir, þá veiti ríkisstj. virkjunarleyfi. Vitanlega getur alltaf eitthvað komið fyrir, eitthvað óvænt, sem verður til þess að rétt þyki að hætta við þau virkjunaráform og ráðast ekki í þá virkjun. En ég held að þessi vinnubrögð séu ekki óeðlileg.Ég tel því mjög eðlilegt að verða við þeim óskum sem fram hafa komið um heimild til virkjunar Kljáfoss.

Hv. 7. landsk. þm. minntist í þessu sambandi á raforkumál austfirðinga, og ég tel vegna þeirra ádeilna, sem komu fram í hans máli, rétt að rekja hér aðeins hvernig þessi mál standa.

Síðasti áfanginn eða nýjasti í virkjunarmálum Austurlands er virkjun Lagarfljóts eða Lagarfoss og var virkjunarleyfi veitt árið 1971 — eða líklega hefur það verið haustið 1970 sem virkjunarleyfið var veitt. Þeirri virkjun var svo lokið á s.l. ári. En sú virkjun er ekki stærri en svo, að enn er þar tilfinnanlegur raforkuskortur. Þessi voru viðhorfin, þegar stjórnarskiptin urðu haustið 1974. Það var horft fram á alvarlegt ástand, orkuskort á Austurlandi. Síðan hefur gerst tvennt: Annars vegar er brugðið við og orðið við óskum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi haustið 1974 um að samþykkja heimildarlög fyrir virkjun Bessastaðaár, og voru þau lögfest í des. 1974, eins og ég gat um. Síðan hafa farið fram frekari rannsóknir. Þessi heimildarlög voru byggð á forrannsóknum sem bentu til þess að hér væri um álitlega virkjun að ræða, fyrst og fremst vegna hins geysilega háa falls sem þar væri fyrir hendi. Síðan hefur verið unnið að rannsóknum og áætlunargerð um þetta.

Það er misskilningur hjá hv. 7. landsk. þm., að Bessastaðaárvirkjun standi þannig að hún bíði aðeins ákvarðanatöku ráðh. Þetta er ekki rétt. Rafmagnsveitum ríkisins var falinn allur undirbúningur að Bessastaðaárvirkjun eftir að lög höfðu verið samþykkt um heimild til hennar. Að sjálfsögðu er um þessi mál eins og önnur haft samband við Orkustofnun. Það er álit beggja þessara stofnana að málið sé í dag ekki tilbúið til ákvarðanatöku, og á fundi, sem ég átti bæði með orkumálastjóra og rafmagnsveitustjóra ríkisins nú alveg nýlega, þá staðfestu þeir þetta, að það þyrfti vissar athuganir áður en hægt væri að taka ákvörðun um þá virkjun. Þetta vil ég undirstrika hér, vegna þess að það hefur nokkuð verið breitt út og nú komið hér á framfæri í þingsölum af hv. 7. landsk. þm., að það standi aðeins á ákvörðun af minni hendi eða ríkisstj. þetta er sem sagt ekki rétt.

En það, sem gerst hefur í tíð núv. ríkisstj. í orkumálum Austfjarða, er auðvitað fyrst og fremst þetta að samþykkt hafa verið heimildarlög um þessa virkjun í samræmi við einróma óskir manna þar eystra eða Sambands rafveitna á Austurlandi. Síðan hefur verið unnið að þessum undirbúningi, og ég vænti þess að málið fari senn að komast á það stig að hægt sé að taka ákvörðun. En um leið hefur einnig verið unnið að því að undirbúa háspennulínu frá Norðurlandi til Austurlands, og á þessu ári er ætlað að verja 500 millj. kr. til þessarar austurlínu, en þegar er að mestu búið að hanna hana og undirbúa. Þegar hvort tveggja er komið í höfn, Bessastaðaárvirkjun og háspennulína frá Norðurlandi til Austurlands, þá má segja að raforkumálum Austurlands sé sæmilega borgið, og þannig þarf að vera í sem flestum landshlutum, að sé hvort tveggja virkjun í héraðinu eða virkjanir í héraðinu og auk þess háspennulína til að tengja saman landshlutana.