22.03.1977
Sameinað þing: 67. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2739 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

264. mál, byggingarþróun heilbrigðisstofnana 1970-1976 og ýmsar upplýsingar um heilbrigðismál

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Hinn 26. okt. s. l. var samþ. í Sþ.,heilbr.- og trmrh. skyldi gefa skýrslu um framkvæmd laga um heilbrigðisþjónustu frá 26. apríl 1973 og þegar skýrslunni hefði verið útbýtt meðal þm. færu fram umr. um hana. Skýrslu um heilbrigðismál hefur nú verið dreift meðal þm. fyrir nokkrum dögum og í þeirri skýrslu er m. a. að finna upplýsingar um framkvæmd fyrrgreindra laga ásamt mjög mörgum öðrum upplýsingum um heilbrigðismál sem rétt þótti að safna og hafa handbærar, og hefur tímasetning upplýsinga fyrst og fremst verið miðuð við tímabilið síðan sérstakt rn. var stofnað fyrir heilbrigðismál.

Í upphafi þeirrar skýrslu, sem dreift hefur verið meðal þm., er að finna yfirlit yfir heildarútgjöld til heilbrigðismála og eru þær skýrslur gerðar af Þjóðhagsstofnun. Þessar skýrslur taka yfir síðasta aldarfjórðung og við könnun þeirra kemur í ljós, að heildarútgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafa hækkað úr 3% árið 1950 í um 7% árið 1975. Sérstaklega hefur þessi vöxtur verið ör síðan 1965, en veruleg hækkun hefur einnig orðið síðan lög um heilbrigðisþjónustu tóku gildi, eða úr 5.5% árið 1973 í 7.1% árið 1975. Á þessu tímabili hefur hlutdeild atvinnu í heilbrigðisþjónustu vaxið með svipuðum hætti eins og gera mætti ráð fyrir, eða úr 3–3.5% af atvinnu landsmanna árin 1963–1965 í um það bil 6% árið 1974. Á aldarfjórðungnum hafa útgjöld til heilbrigðismála á hvert mannsbarn fjór- til fimmfaldast að raunverulegu verðgildi, á sama tíma og þjóðarframleiðsla og einkaneysla hafa um það bil tvöfaldast að raungildi. Fyrrgreindar skýrslur sýna fram á, að þótt afturkippur verði í framleiðslu eða einkaneyslu hafa heilbrigðisútgjöld haldið áfram að vaxa, og sýnir þetta vilja stjórnvalda til þess að reyna að ná ákveðnum fyrirframgerðum markmiðum í sambandi við heilbrigðisstofnanir og bætta heilbrigðisþjónustu.

Það er álit Þjóðhagsstofnunar að vandfundin sé í þjóðarbúskapnum grein sem skiptir máli og hefur vaxið jafnhratt á undanförnum árum og heilbrigðisþjónusta. Í skipuriti í upphafi skýrslunnar eru settar fram á glöggan hátt upplýsingar frá árinu 1850 til ársins 1975 um hvaða breytingar hafa orðið á ungbarnadauða, ólifaðri mannsævi við fæðingu og ólifaðri meðalævi við 50 ára aldur, og síðan gerð grein fyrir heildarútgjöldum til heilbrigðismála á árabilinu 1950–1975. Kemur glöggt fram af þessu skipuriti að Ísland hefur nú komist í tölu þeirra þjóða þar sem aukin útgjöld til heilbrigðismála ganga ekki til þess að lengja ævi manna eða lækka dánartölu ungbarna, heldur til þess að vinna að öðru starfi á heilbrigðissviði, svo sem fyrirbyggingu sjúkdóma og aukinnar og bættrar þjónustu við þá sem haldnir eru langvarandi og ólæknandi sjúkdómum. En þar eru án efa stærstu hóparnir aldraðir, geðsjúkir og þroskaheftir. Verulegur hluti af kostnaði við heilbrigðisþjónustu er vegna sjúkrahúsvistar, en um þann þátt heilbrigðisþjónustunnar verður rætt síðar í þessari skýrslu.

Til samanburðar við aðrar þjóðir er í lok kaflans um kostnaðarþætti frá Þjóðhagsstofnun skipurit sem sýnir heildarútgjöld til heilbrigðismála sem hundraðshluta af vergri þjóðarframleiðslu á markaðsverði í nokkrum löndum Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Að sjálfsögðu er mjög erfitt um samanburð á þessu sviði og það er ekki ávallt hægt að skilja í sundur kostnað milli heilbrigðismála og félagsmála í þessum löndum. Hins vegar má gera ráð fyrir að taka megi mið af slíkum samanburði að einhverju leyti a. m. k. Hins vegar skyldu menn varast að gera ráð fyrir því, að beint samband sé milli þessara heildarútgjalda og þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veitt er í viðkomandi landi, því að nýting fjármunanna fer að sjálfsögðu eftir því skipulagi heilbrigðisþjónustunnar sem komið hefur verið á á hverjum stað.

Í 3. kafla skýrslunnar er skýrt frá fjárframlögum til sjúkrahúsa, sveitarfélaga, heilsugæslustöðva, elliheimila, embættisbústaða á árabilinu 1970–1976. Allar upphæðir eru á verðlagi hvers fjárhagsárs og er gert ráð fyrir að þessar töflur gætu verið til hliðsjónar við athugun á töflum 4 og 7, þar sem rætt er um einstök verkefni og framkvæmdastig þeirra. Kafli 3 sýnir hina gífurlegu dreifingu fjármagnsins til hinna ýmsu staða og verkefna, og þetta kemur enn betur fram í kafla 5, en þar sést að fjárveitingar hafa verið veittar til heilsugæslustöðva, læknamóttaka, sjúkraskýla og sjúkrahúsa á 45 stöðum til 66 verkefna á þessu tímabili. Þá hefur verið veitt fé til byggingar læknisbústaða á 33 stöðum til 44 bústaða. Á því tímabili, sem ríkissjóður átti að styrkja byggingar dvalarheimila aldraðra, þ. e. a. s. árin 1974 og 1975, var veitt fé til alls 15 staða.

Víkjum þá nánar að kafla 4, sem er áætlun um heilsugæslustöðvar og skýrsla um stöðu byggingarmála í árslok 1976 og yfirlitstöflur sem þessu fylgja. Samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu frá 1973 er landinu skipt í 27 heilsugæsluumdæmi og innan þessara umdæma eru 40 starfssvæði. Utan Reykjavíkur eru 39 starfssvæði og þar er í lögunum gert ráð fyrir í 13 heilsugæslustöðvum að þar starfi einn læknir og 26 heilsugæslustöðvum að þar starfi tveir læknar a. m. k. Lögin gera ekki ráð fyrir skiptingu Reykjavíkursvæðisins í heilsugæsluumdæmi, en fram hefur verið lögð skipting heilbrigðismálaráðs og borgarlæknis í Reykjavík og í þessari skýrslu er stuðst við þær till.

Í töflunum á bls. 48–53 hefur verið sett upp áætlun um þörfina fyrir húsnæði fyrir heilsugæslu, þ. á m. íbúðarhúsnæði, og um starfsfólk við heilsugæslu samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu miðað við áætlaðan mannfjölda árið 1980. Í töflunni kemur fram hvaða húsnæði er fyrir hendi á hverjum stað og hvernig ástand þess er, hver áætluð viðbótarþörf er á hverjum stað, hvort fjárveitingar hafi verið veittar til verkefnis á staðnum. Hafi fjárveitingar verið veittar, þá er hægt að lesa af töflunni á hvaða stigi framkvæmd er, hvort um er að ræða frumathugun, hönnunarvinnu eða framkvæmdastig eða hvort framkvæmdum er algerlega lokið. Sama máli gegnir um íbúðir sem hluta af heilsugæslustöð í þessu sambandi. Hvað viðvíkur starfsfólki kemur fram í þessari töflu hve margt fólk vinnur að heilsugæslu nú, og er þá miðað við 1. okt. á s. l. ári. Þá er sett fram áætluð viðbótarþörf á starfsfólki í opinberri þjónustu og jafnframt getið um hvernig þessu starfi er sinnt nú og hverjir launa það, hvort um er að ræða greiðslu beint frá sjúkratryggingum, sveitarstjórnum eða heilsuverndarstöðvum.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að því í heilbrrn. að gera sér grein fyrir hvers konar húsnæði þurfi til heilsugæslu og hefur í því sambandi að sjálfsögðu verið tekið mið af reynslu annarra þjóða, svo sem Norðurlandaþjóða og breta, á þessu sviði. Á s. l. ári kom út á vegum heilbrrn. ritið „Leiðbeiningar um hönnun heilbrigðisstofnana,“ sem er rit nr. 1 1976, og er í því riti lýst hvernig hönnunarhópar eiga að standa að frumathugunum og hönnunarstarfi í sambandi við byggingu heilsugæslustöðva fyrst og fremst, en þær leiðbeiningar eru raunar jafngildar fyrir aðrar heilbrigðisstofnanir.

Af hálfu rn. hefur verið reynt að staðla þessar stofnanir og gera sér grein fyrir stærðum. Þannig hefur niðurstaðan orðið sú, að móttökur lækna utan heilsugæslustöðva þurfi að vera um 110 fermetrar að stærð, heilsugæslustöðvar, þar sem einn læknir starfar ásamt öðru starfsliði, 360–400 fermetrar og heilsugæslustöðvar, þar sem tveir læknar starfa, 450–500 fermetrar. Á vegum rn. hefur ekki verið hönnuð heilsugæslustöð fyrir fjölbýlissvæði eins og Reykjavíkursvæðið, en samkv. þeim stöðlum, sem fyrr eru nefndir, má gera ráð fyrir að miðað við 12 þús. manna byggð þurfi um 900–1000 fermetra heilsugæslustöð á fjölbýlissvæðinu. Er þá gert ráð fyrir að samtímis séu vinnuskilyrði fyrir 6 heilsugæslulækna, 2 sérfræðinga og 2 tannlækna. Frumathugun hefur verið gerð á vegum Reykjavíkurborgar fyrir heilsugæslustöð í Breiðholti. Sömuleiðis er nú gerð athugun á heilsugæslustöð fyrir Seltjarnarnes sem e. t. v. gæti þjónað vesturhluta Reykjavíkurborgar.

Við þær áætlanir, sem gerðar hafa verið, er haft til hliðsjónar að það komi að jafnaði 1500–2000 íbúar á lækni í dreifbýli, en þetta hlutfall læknar að sjálfsögðu mjög þegar um víðlend héruð er að ræða og veruleg ferðalög. Í Reykjavík er gert ráð fyrir að um 2000 íbúar verði um hvern lækni. Áætlaður fjöldi hjúkrunarfræðinga í þeim töflum, sem til er vitnað, miðast við þau verkefni, sem heilsugæslustöðvum er ætlað að sinna, og þá reynslu, sem fengist hefur af starfi hjúkrunarfræðinga á heilsuverndarstöðvum og heilsugæslustöðvum. Þess verður að geta, að áætlaður fjöldi þessa starfsliðs við heilsugæslustörf er mjög varlega áætlaður og í nágrannalöndum okkar, þar sem svipuð starfsemi hefur vaxið mjög undanfarin ár, eru tilsvarandi hlutföll íbúa og heilbrigðisstarfsmanna mun lægri en gert er ráð fyrir í þeirri áætlun sem hér hefur verið lögð fram.

Á bls. 31–42 í skýrslunni er rakið ástand byggingarmála heilsugæslustöðva á landinu öllu og mun ég nú gera grein fyrir þeim þætti málsins stuttlega.

Til Reykjavíkurhéraðs telst Reykjavík og Seltjarnarnes. Á þessu svæði hefur verið veitt fé til þriggja stöðva á fjárl. síðan lög um heilbrigðisþjónustu tóku gildi: í Árbæjarhverfi, í þjónustudeild Borgarspítala og á Seltjarnarnesi. Stöðin í Árbæ er tilbúin og var auglýst eftir læknum og hjúkrunarfræðingum að stöðinni í byrjun þessa árs. Stærð stöðvarinnar miðast við aukinn mannfjölda í Árbæ og Selási. Á annarri hæð fyrsta áfanga þjónustudeildar Borgarspítala, sem búið er að steypa upp og verður tilbúinn undir tréverk á þessu ári, er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir allt að 6 heilsugæslulækna og rými fyrir sérfræðiþjónustu sem þá sennilega yrði veitt af sérfræðingum Borgarspítala. Rannsóknarstofa og röntgendeild Borgarspítala mun annast þjónustu bæði fyrir spítalann og heilsugæslustöðina.

Eins og ég hef fyrr sagt fer nú fram frumathugun á byggingu heilsugæslustöðvar á Seltjarnarnesi. Verði samkomulag milli Reykjavíkurborgar og Seltjarnarneskaupstaðar um þetta mál er hentugasta staðsetning stöðvarinnar á miðbæjarsvæði Seltjarnarness.

Svo sem fyrr sagði er ekki í lögum um heilbrigðisþjónustu gert ráð fyrir skiptingu Reykjavíkurborgar í heilsugæslusvæði, en hér er tekin upp skipting, sem heilbrigðismálaráð og borgarlæknir hafa gert. Samkv. því verður um að ræða í Reykjavík 9 svæði með jafnmörgum heilsugæslustöðvum og er þá gert ráð fyrir að hluti Vesturbæjar nýtist með Seltjarnarneskaupstað. Áætluð húsrýmisþörf í Reykjavík og á Seltjarnarnesi er um 8000 fermetrar fyrir heilsugæslu og þar af er í byggingu og lokið um 1400 fermetrum.

Þá kem ég að Suður- og Vesturlandshéruðum. Í Vík í Mýrdal og að Kirkjubæjarklaustri eru í byggingu heilsugæslustöðvar, báðar með lítilli íbúð fyrir starfsmann eða staðgengil. Þessa daga fer fram útboð á verklokum þessara stöðva og ættu þær báðar að komast í not á næsta ári.

Um Suðurlandið að öðru leyti verður að minna á, að frestað var gildistöku þeirra ákvæða laga um heilbrigðisþjónustu sem fjalla um Suðurland og samkv. því gilda læknaskipunarlög nr. 43 frá 1965 um þetta svæði. Nokkur biðstaða hefur því verið um áætlunargerð fyrir uppbyggingu heilsugæslu á þessu svæði. Héraðslæknar sitja á Hellu og Stórólfshvoli. Slæm aðstaða er fyrir lækni á Stórólfshvoli og er áætluð viðbótarrýmisþörf fyrir heilsugæslu um 460 fermetrar og hefur verið veitt fé á þessu ári til frumathugunar á nýju húsnæði þar. Á Hellu hafa sveitarstjórnir tekið á leigu húsnæði fyrir heilsugæslu, og verið er að innrétta um 360 fermetra húsnæði til þeirra nota. Hafa sveitarfélögin fengið styrk á fjárl. ársins í ár vegna þessa kostnaðar.

Í Laugarási sitja tveir héraðslæknar og þar eru veruleg þrengsli í heilsugæslustöðinni, enda ekki gert ráð fyrir þeim starfsmannafjölda sem þar er nú. Áætluð þörf fyrir viðbótarrými er um 300 fermetrar.

Á Selfossi er starfrækt heilsuverndarstöð í samræmi við 4. gr. bráðabirgðaákvæða laga um heilbrigðisþjónustu, en heilsugæslustöð er ætlað rými í nýjum spítala sem er í byggingu og er að komast á lokastig. Með þeirri byggingarframkvæmd fæst mjög góð aðstaða fyrir heilsugæslu svæðisins, og má þá gera ráð fyrir að sá læknir, sem nú situr á Eyrarbakka, hafi aðalaðstöðu sína á Selfossi, enda þótt móttaka verði áfram á Eyrarbakka eins og nú er.

Hvað Hveragerðishéraði viðvíkur, þá hefur orðið mikil fólksfjölgun í því héraði, einkum í Þorlákshöfn, og er aðstaða til heilsugæslu bæði í Hveragerði og Þorlákshöfn ófullnægjandi og verður að gera ráð fyrir að fjölga þurfi um lækni í þessu héraði á þessu ári og bæta verulega aðstöðu til heilsugæslu í Hveragerði.

Í Vestmannaeyjum er fullbúin heilsugæslustöð og aðstaða mjög góð fyrir heilsugæslustarfsemi. Keflavíkurumdæmi: Ekki hefur verið veitt fé til heilsugæslunýbyggingar í Keflavíkurumdæmi. Að frumkvæði heimamanna hefur heilsugæslustöð verið innréttuð í leiguhúsnæði til bráðabirgða, en læknamóttökur eru í Grindavík, Sandgerði og í Garði. Þörf er nýbyggingar heilsugæslustöðvar í Keflavík allt að 900 fermetrum. Í Keflavíkurumdæmi hafa verið veittir styrkir til sveitarfélaga vegna þeirra framkvæmda sem þau hafa ráðist í sjálf vegna heilsugæslu.

Hafnarfjarðarumdæmi: Ekki hefur verið veitt fé á fjárl. til heilsugæslustöðvar í Hafnarfjarðarumdæmi, en læknamiðstöð er starfrækt í miðbæ Hafnarfjarðar ásamt heilsuverndarstöð samkv. heilsuverndarlögum, og er það á kostnað sveitarfélaga með styrk á fjárl. úr ríkissjóði að 1/3. Áætluð viðbótarrýmisþörf í Hafnarfirði er um 900 fermetrar.

Kópavogsumdæmi : Læknamiðstöð og heilsugæslustöð eru starfræktar í miðbæ Kópavogs á vegum sjúkrasamlags og sveitarfélags Ráðagerðir eru uppi um nýtt húsnæði fyrir þessa starfsemi, en fjárveitingar hafa ekki verið veittar á fjárl. til þessa verkefnis.

Álafossumdæmi: Heilsugæslustöð er nú rekin á Reykjalundi í húsnæði sem er eign vinnuhælisins. Meðan sú skipan helst sem þar er nú er vel séð fyrir málum. En með fjölgun fólks í Mosfellssveit má gera ráð fyrir nauðsyn viðbótarhúsrýmis innan fárra ára.

Þá kem ég að Vesturlandsumdæmi.

Engin heilsugæslustöð er á Akranesi og fé hefur ekki verið veitt til slíkrar byggingar á fjárl.

Heilsugæslulæknar hafa nú aðstöðu í sjúkrahúsinu, en sú aðstaða er ekki fullnægjandi og er áætluð viðbótarrýmisþörf þar um 500 rúmmetrar.

Framkvæmdum er nýlokið við heilsugæslustöð í tengslum við dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi. Þessi aðstaða er mjög góð og til frambúðar fyrir þetta umdæmi.

Fé hefur ekki verið veitt til nýrrar heilsugæslustöðvar í Ólafsvíkurumdæmi. Tveir læknar vinna nú við stöðina ásamt starfsliði og eru mikil þrengsli. Áætluð viðbótarþörf er um 460 rúmmetrar.

Heilsugæslustöð er nú rekin í sjúkrahúsi St. Fransiskussystra í Stykkishólmi, en þar er þröngt og óhentugt og nauðsyn á nýju húsnæði. Fé hefur ekki verið veitt á fjárl. til byggingar heilsugæslustöðvar, en nú fara fram viðræður milli sveitarfélaga og St. Fransiskussystra um viðbyggingu við sjúkrahúsið þar sem hægt yrði að fá rými fyrir heilsugæslustöð.

Í Búðardal er heilsugæslustöð í byggingu ásamt lítilli íbúð. Þessi stöð er af sömu gerð og í Vík og Kirkjubæjarklaustri og ætti að verða nothæf snemma á næsta ári.

Þá kem ég að Vestfjarðaumdæmi.

Á Patreksfirði er í byggingu heilsugæslustöð sem viðbygging við sjúkrahúsið sem til er á staðnum. Er gert ráð fyrir að í heilsugæslustöðinni verði þjónustudeildir fyrir sjúkrahúsið. Þegar sú bygging rís er vel séð fyrir heilsugæslu í umdæminu.

Nú er í byggingu heilsugæslustöð í sjúkrahúsbyggingu á Ísafirði, og eru teikningar að fyrirkomulagi heilsugæslustöðvar og þjónustudeilda í skýrslunni í opnu eftir bls. 73. Vel verður séð fyrir heilsugæslu á Ísafirði þegar þessi bygging verður komin í notkun.

Húsnæði fyrir heilsugæslu, þ, e. læknamóttöku, í Súðavík er í byggingu og gæti orðið tilbúið til nota á þessu ári.

Á Þingeyri er gert ráð fyrir þeirri breytingu að byggja nýjan læknisbústað, en breyta gamla læknisbústaðnum í heilsugæslustöð með sjúkraskýli, og að þeirri breytingu lokinni verður heilsugæsla í alla staði fullnægjandi.

Á Flateyri er húsrými fyrir heilsugæslu nægjanlegt, en breytingar og lagfæringar þarf að gera.

Á Bolungarvík er í byggingu heilsugæslustöð af sömu gerð og lýst var fyrir Búðardal, Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustur: Er gert ráð fyrir að hún komist í notkun á næsta ári.

Þá kem ég að Norðurlandshéraði.

Á Hvammstanga er heilsugæsla stunduð í óhentugu og þröngu húsnæði sem er tengt sjúkrahúsinu. Fjárveiting hefur ekki fengist á fjárl. fyrr en í ár til undirbúnings byggingar heilsugæslustöðvar, og viðbótarhúsnæðisþörf er nm 500 fermetrar.

Á Hólmavík er nýlokið byggingu læknisbústaðar, og við þá breytingu er gert ráð fyrir að núverandi læknisbústað og sjúkraskýli verði breytt í heilsugæslustöð. Fæst þá góð aðstaða fyrir heilsugæslu.

Á Blönduósi er allgóð aðstaða fyrir heilsugæslu, en þrengsli, og ný heilsugæslustöð ásamt þjónustudeildum fyrir sjúkrahúsið er í frumathugun. Gera má ráð fyrir að byggingarframkvæmdir geti hafist á næsta ári.

Heilsugæsla er nú rekin í sjúkrahúsinu á Sauðárkróki í miklum þrengslum. Heilsugæslustöð tengd þjónustudeild sjúkrahússins er á lokastigi hönnunar, og gert ráð fyrir að byggingarframkvæmdir geti hafist þar á þessu sumri.

Heilsugæslustöð er starfrækt í sjúkrahúsinu í Siglufirði, en þar eru veruleg þrengsli enda þótt endurbætur hafi verið gerðar á s. l. ári. Nauðsynlegt mun reynast að fá heilsugæslunni stað í viðbótarbyggingu, en fé hefur ekki verið veitt á fjárl. til þess.

Á Ólafsfirði er nýlokið útboði á byggingu sem á að hýsa heilsugæslustöð, sjúkrahús og dvalarheimili aldraðra. Þegar sú bygging er komin í notkun verður vel séð fyrir þessum þáttum öllum í byggðarlaginu.

Dalvík er heilsugæslustöð í byggingu. Þessi heilsugæslustöð er eins og sú sem verið er að byggja á Höfn í Hornafirð i. Gert er ráð fyrir, að heilsugæslustöðin verði tekin í notkun á næsta ári.

Á Akureyri eru reknar læknamiðstöð og heilsuverndarstöð, báðar í leiguhúsnæði, því að fé hefur ekki verið veitt til heilsugæslustöðvar á Akureyri, en styrkur verið veittur til þess rekstrar sem þar er nú.

Heilsugæslan í Húsavíkurumdæmi er í sjúkrahúsinu og er í töluverðum þrengslum. Áætluð viðbótarhúsrýmisþörf er 400–500 fermetrar. Enda þótt byggingu sjúkrahússins sé nýlokið mun reynast nauðsynlegt að byggja sérstaka heilsugæslustöð við sjúkrahúsið, því að hugmyndin um þörf heilsugæslu hefur breyst verulega frá því að húsið var byggt.

Ekki hefur fengist læknir til setu á Kópaskeri, eins og lögin gera ráð fyrir, og hafa læknar frá Húsavík sinnt umdæminu, en hjúkrunarfræðingur verið á staðnum. Aðstaðan fyrir heilsugæslu er allgóð.

Lögin gera ráð fyrir aðstöðu fyrir tvo lækna á Þórshöfn, en aðeins einn læknir hefur verið þar og er þá starfsaðstaða fullnægjandi. En verði gildandi lög óbreytt er áætluð viðbótarrýmisþörf um 450 fermetrar.

Á Vopnafirði er í byggingu heilsugæslustöð og ætti hún að geta komist í not á næsta ári. Á Egilsstöðum er heilsugæslustöð komin í nýtt húsnæði. Á Egilsstöðum og í Borgarnesi var byrjað að byggja læknastöðvar samkv. lögum um læknamiðstöðvar frá 1969. Er þetta því einn af þeim stöðum þar sem mest reynsla hefur fengist um heilsugæslustöðvar. Búið er að búa þessa stöð tækjum að mestu og er starfsemi þar nú öll til fyrirmyndar.

Á Seyðisfirði er í hönnun heilsugæslustöð í tengslum við sjúkraskýli og dvalarheimili fyrir aldraða, svipað og gert var á Ólafsfirði. Hönnunarvinnu á að ljúka snemma á þessu ári og er sennilegt að byggingarframkvæmdir geti hafist í ár, Þegar þessi nýbygging kæmist í notkun er vel séð fyrir þessum þörfum á Seyðisfirði.

Á Norðfirði er í byggingu heilsugæslustöð í tengslum við þjónustudeild og nýbyggingu sjúkrahússins. Gera má ráð fyrir að heilsugæslustöðin geti komist í notkun að hluta á þessu ári. Á Eskifirði er ágæt aðstaða fyrir heilsugæslu, en nokkurra breytinga er þörf á húsnæði.

Á Fáskrúðsfirði er heilsugæsla í gömlu húsnæði og fé hefur verið veitt til frumathugunar á heilsugæslustöð. Ætla má að heilsugæslustöð af þeirri gerð, sem er í byggingu á Kirkjubæjarklaustri eða í Vík í Mýrdal, henti á Fáskrúðsfirði.

Framkvæmdum er nýlokið við læknismóttöku á Stöðvarfirði og verður húsnæðið væntanlega tekið í notkun innan skamms.

Á Djúpavogi er húsnæði fyrir heilsugæslu ekki fullnægjandi, en fé hefur ekki verið veitt á fjárl. til viðbótarbygginga sem eru nauðsynlegar. Nýlokið er byggingarframkvæmdum við læknismóttöku á Breiðdalsvík sem er samsvarandi þeirri sem fyrr var lýst á Stöðvarfirði.

Heilsugæslustöð er í byggingu á Höfn í Hornafirði. Er þar um að ræða sömu teikningu og í Dalvík, svo sem fyrr er sagt. Fé er ekki nægjanlegt á fjárl. ársins í ár til þess að hægt sé að taka stöðina í notkun, en nú fara fram athuganir á því, hvort aukafjárveiting fáist á þessu ári til þess að koma stöðinni í notkun, a. m. k. að hluta, og gæti hún þá tekið til starfa á þessu hausti. Ég hef góða von um að þessi aukafjárveiting fáist.

Þegar lítið er yfir þau verkefni í heild, sem hér hafa verið rakin, kemur eftirfarandi í ljós: Þær framkvæmdir sem komist hafa á lokastig á árinn 1975 og 1976 eru heilsugæslustöð á Egilsstöðum og í Borgarnesi og læknamóttökur á Stöðvarfirði og í Breiðdalsvík. Á framkvæmdastigi eru heilsugæslustöðvar og læknamóttökur í Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustri, Selfossi, Búðardal, Patreksfirði, Ísafirði, Súðavík, Bolungarvík, Ólafsfirði, Dalvík, Vopnafirði, Neskaupstað, Höfn í Hornafirði. Er hér samtals um að ræða húsrými sem er rúmlega 8000 fermetrar. Í hönnun eru heilsugæslustöðvar á Sauðárkróki, Seyðisfirði og í frumathugun heilsugæslustöðvar á Blönduósi og á Fáskrúðsfirði, samtals um 1700 fermetrar. Ef lítið er á þá staði, sem fjárveitingar hafa ekki verið veittar til á fjárl., en gera má ráð fyrir að þurfi viðbótarhúsrými vegna heilsugæslu, þá er þar um að ræða rúmlega 8000 fermetra. Sé þetta dregið saman verður niðurstaðan sú, að í byggingu eru í Reykjavík um 800 fermetrar, en utan Reykjavíkur rúmlega 8000 fermetrar. Í hönnun eru utan Reykjavíkur tæplega 900 ferm. Í frumathugun eru í Reykjavík um 900 fermetrar, en utan Reykjavíkur um 800 fermetrar. Áætluð viðbótarþörf,þar sem enn hefur ekki verið veitt fé til á fjárl., er í Reykjavík um 5700 fermetrar, en utan Reykjavíkur rúmlega 8000 fermetrar. Samtals er hér um að ræða rúmlega 25 þús. fermetra húsnæði, sem skiptist þannig, að í Reykjavík er um að ræða 7400 fermetra, en utan Reykjavíkur rúmlega 18000 fermetra.

Þessi upptalning skýrir, svo að ekki verður um villst, að það hefur verið lögð áhersla á að byggja upp húsnæði fyrir heilsugæslu í strjálbýli, svo sem lög um heilbrigðisþjónustu gerðu ráð fyrir. En þó svo hafi verið gert er enn meira húsnæði óbyggt utan Reykjavíkur samkv. þeim áætlunum um þörf, sem hér hefur verið rakin, en í Reykjavík sjálfri, en bilið hefur vafalaust minnkað.

Hér að framan hefur verið lýst byggingarþróun heilsugæslustöðva á landinu, en í lögum um heilbrigðisþjónustu er gert ráð fyrir að íbúðarhúsnæði lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sé hluti stöðvanna utan Stór-Reykjavíkursvæðisins og Akureyrar. Segja má að meiri áhersla hafi verið lögð á heilsuverndarstöðvarnar sjálfar en íbúðarhúsnæðið, og hafa sveitarfélög reynt að leysa vandann, sem upp hefur komið vegna aukningar starfsliðs í heilbrigðisþjónustu, á eigin spýtur heima fyrir með leiguhúsnæði eða húsakaupum.

1. okt. á s. l. ári voru 59 íbúðir í notkun, 46 fyrir lækna, en 13 fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður, í hönnun og byggingu eru 4 íbúðir og ein íbúð að komast í not, eða samtals 64 íbúðir. Þegar tekið er tillit til þess íbúðarhúsnæðis, sem nú er til ráðstöfunar, og áætlunar um aukinn fjölda opinberra starfsmanna við heilsugæslustöðvar, þá verður heildarfjöldi þeirra íbúða, sem bæta þarf við til að fullnægja þörfum, þannig: fyrir lækna 31 íbúð, fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður 57 íbúðir. Í samkomulagi heilbrrh. og fjmrh. hefur verið gert ráð fyrir því að læknisbústaðir séu um 200 fermetrar, en íbúðir ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga um 120 fermetrar. Samsvarar þetta því, að um 13 þús. fermetra húsnæði vanti, eða 6200 fermetra fyrir lækna og 6800 fermetra fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður.

Þegar kannað er samkv. töflunum um starfsfólk í heilsugæslu hvernig málum er háttað í dag og hvaða starfsliðsaukning sé ráðgerð samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu, þá var svo hinn 1. nóv. s. l., að 64 heilsugæslulæknar voru í fullu starfi og 2 í hálfu starfi eða samtals 65 stöður. Eru þá taldir með þeir læknar sem eru héraðslæknar samkv. læknaskipunarlögum frá 1965. Í fullu starfi voru 24 hjúkrunarfræðingar, en 8 í hálfu starfi, eða samtals 28 stöður, en ljósmæður voru 9 í fullu starfi og 5 í hálfu starfi eða 111/2 staða. Áætlun um þann fjölda lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra, sem bæta þarf við í heilsugæslu á næstu árum í samræmi við þær forsendur sem gefnar hafa verið, er þannig, að 70 læknum þarf að bæta við í fullt starf, 80 hjúkrunarfræðingum í fullt starf, en 7 í hálft starf og einni ljósmóður í fullt starf, eða samtals 151 starfsmanni í fullt starf og 7 í hálft starf. Hér er að nokkru um beina aukningu að ræða, en miklu meira um að ræða tilfærslu á læknum, sem nú eru við heimilislæknisstörf, og læknum og hjúkrunarfræðingum og öðru starfsliði á heilsuverndarstöðvum til heilsugæslu. Þannig má gera ráð fyrir að af þeim 70 læknum, sem bæta þarf við, séu 54–55 þegar í starfi og 25–30 hjúkrunarfræðingar.

Af því, sem hér hefur verið sagt, sést að veruleg aukning starfsliðs hefur orðið í heilsugæslu síðan lög um heilbrigðisþjónustu tók gildi. Læknafjöldi var þá bundinn við héruð og voru læknaheimildir um 55. Aðeins örfáar heimildir voru fyrir hjúkrunarfræðinga í heilsugæslu og engar heimildir fyrir ljósmæður. Þannig hefur markvisst verið stefnt að því að auka þjónustu í heilsugæslu utan sjúkrahúsa, eins og lögin gera ráð fyrir, enda þótt hvergi nærri hafi verið komið til móts við till. rn. um fjölgun starfsliðs á þessu sviði enn sem komið er.

Ég mun láta þetta nægja um heilsugæslu að sinni, en víkja þá að sjúkrahúsum og legurými á sjúkrahúsum.

Á bls. 61 og 62 í skýrslunni er talinn sjúkrarúmafjöldi eins og hann var í mars í ár, en legudagafjöldi eins og gert var ráð fyrir að hann yrði á árinu 1976. Hér er um að ræða um 50 mismunandi sjúkrastofnanir með rúmlega 4000 legurúmum. Nánar mun ég ekki rekja tölur fyrir einstök sjúkrahús nema þar sem það á við í umr. um þau síðar.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu er starfssvið heilsugæslustöðva mjög skýrt afmarkað og skilgreint. Áætlunargerð fyrir heilsugæslustöðvar, eins og lýst er hér að framan, er því tiltölulega einföld og hægt að koma við stöðlun, a. m. k. hvað varðar húsakynni. Vegna meiri og minni sérhæfingar og hlutverkaskiptingar sjúkrahúsa, vegna mismunandi atvinnu og staðhátta og aldursskiptingar verður eftirspurn eftir sjúkrarými nokkuð misjöfn eftir landshlutum. Ýmsir þættir hafa áhrif á eftirspurn eftir sjúkrarými og á nýtingu þess.

Eins og ég gat um fyrr í þessari ræðu hefur kostnaðaraukning í heilbrigðisþjónustu einkum verið vegna vaxandi rýmis á sjúkrahúsum, og er fjölmargt sem stuðlar að því að aukið sjúkrahúsrými sé nauðsynlegt. Hér má t. d. nefna aukna fræðslu um heilbrigðismál, framfarir í læknavísindum sem valda því að flókinn tækjabúnaður til rannsókna verður ekki nýttur nema viðkomandi sé vistaður á sjúkrahúsi. Þá er reynslan þannig hjá öðrum þjóðum að með auknum meðallífaldri eykst eftirspurn eftir sjúkrarými, þar sem öldruðum fjölgar hlutfallslega. Í skýrslunni er sýnt, hvernig aldursdreifing á Íslandi hefur breyst á árunum 1930–1970, og sýndur framreikningur til ársins 2000. Þessar skýrslur sýna að árið 1930 voru landsbúar 65 ára og eldri 7.6% þjóðarinnar, en gert er ráð fyrir að þeir verði 9.8% þjóðarinnar árið 21100 og séu nú um 9% þjóðarinnar. Íbúar 70 ára og eldri voru aðeins 4.6% árið 1930, eru nú um 6%, en verða að talið er 6.8% árið 2000. Í skýrslunni á bls. 66 er sýnt hvernig fjöldi aldraðra er hlutfallslega mjög misjafn eftir landshlutum. Þannig voru íbúar 67 ára og eldri um 9.2% af íbúum Reykjavíkur, en 3.6% og 4.9% af íbúum Kópavogs og Seltjarnarness annars vegar og Reykjanessvæðis hins vegar. Mjög mikill munur er því á aldursdreifingu í Reykjaneskjördæmi annars vegar og í Reykjavík hins vegar. Verulegur munur er hins vegar ekki í öðrum landshlutum í þessu tillíti. Austurland og Suðurland eru með 7.4 og 7.5%, Vesturland og Vestfirðir og Norðurland eystra með 8, 8.5 og 8.6%, en Norðurland vestra er verulega hæst með 9.95%. Meðaltalið yfir landið allt er 7.9%. Eins og fyrr sagði hefur þessi aldursskipting veruleg áhrif á eftirspurn eftir sjúkrarými og tegund þeirrar sjúkrahúsþjónustu sem nauðsynleg er.

Staðall fyrir sjúkrahús hefur ekki verið settur fyrir sjúkrahús hér á landi, en tilraun hefur verið gerð til að setja fram slíkan staðal í riti heilbr.- og trmrn. nr. 3 frá 1973, um vistrýmisþörf heilbrigðisstofnana, og var við gerð þessa staðals tekið mið af könnunum, aðallega á Norðurlöndum, og áætlunum, sem á þeim hafa verið byggðar, en ekki hafa verið lagðar til grundvallar íslenskar kannanir þar sem þær eru ekki fyrir hendi að öllu leyti. Enda þótt þessi staðall hafi ekki verið formlega staðfestur, þá hefur verið tekið mið af honum þegar sjúkrarúmafjöldi hefur verið ákveðinn í þeim sjúkrahúsum sem hönnuð hafa verið eftir að staðallinn var settur fram.

Í skýrslunni er á bls. 70–96 gerð grein fyrir sjúkrahúsum landsins, eins og þau eru í dag, og byggingarþróun þeirra síðustu ár og þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið um framkvæmdir miðað við fjárveitingar til bygginga á fjárl. undanfarin ár. Ekki eru tök á að rekja þennan kafla í heild, en ég vil benda á, hvernig reynt hefur verið að standa að áætlanagerð með tímaáætlun framkvæmda, sem birt er með kaflanum fyrir sjúkrahús á Patreksfirði, Ísafirði, Ólafsfirði, Akureyri, Neskaupstað og Keflavík, svo og áætlanir heilbrigðisráðs Reykjavíkur um áframhaldandi þróun Borgarspítala og byggingarstjórnar framkvæmda á Landsspítalalóð um byggingar Landsspítalans og Háskólans á lóð Landsspítalans.

Í þessu sambandi verður að benda á kafla 3 um fjárframlög til sjúkrahúsa sveitarfélaga, þar sem rakin eru fjárframlög á fjárlögum til einstakra framkvæmda á þessu árabili, svo og skýrsluna á bls. 94 þar sem rakin eru fjárframlög til ríkisspítala á árunum 1970–1976, en á því árabili hefur verið varið alls 1 milljarði 148 millj. kr. til fjárfestingar í hinum ýmsu ríkisspítulum. Eru þessar tölur eins og aðrar í skýrslunni miðaðar við verðlag hvers árs.

Í sérstakri skýrslu í kafla 8 er skrá um dvalarheimill aldraðra og legurými og kemur í ljós að heildartala slíkra rúma var í mars í ár talin 1744, þar af 647 vegna dvalarvistunar aldraðra, en 912 vegna hjúkrunarsjúklinga, og vistmenn í einstökum íbúðum í dvalarheimilum aldraðra voru 146. Rétt er að benda á að íbúðir fyrir aldraða eru eingöngu taldar í Reykjavík, en munu vera viðar á landinu, svo sem á Egilsstöðum, enda þótt upplýsingar um það hafi ekki legið fyrir við gerð þessarar skýrslu.

Ég mun láta þetta stutta yfirlit nægja um nýbyggingar sjúkrahúsa á þessu tímabili, en er að sjálfsögðu reiðubúinn til að ræða byggingarþróun og áætlanir fyrir einstaka staði síðar í þessum umr. ef óskað er.

Ástæða þótti til að ræða um Styrktarsjóð vangefinna sérstaklega í þessari skýrslu um heilbrigðisstofnanir, því flestar stofnanir, sem byggðar hafa verið sem dvalarstofnanir eða dagvistunarstofnanir fyrir vangefna, hafa verið fjármagnaðar úr þessum sjóði undanfarin ár.

Lög um aðstoð við vangefið fólk voru sett 19á8 og er þessi sjóður í vörslu félmrn. Á siðu andspænis bls. 99 er skrá um greiðslur úr Styrktarsjóði vangefinna á árabilinu 1958–1976. Sést af þessari skýrslu að samtals hefur verið veitt á þessu árabili rúmlega 302 millj. kr. úr sjóðnum miðað við verðlag hvers árs. Þar af voru veittar úr sjóðnum 110 milljónir árabilið 1958–1969. Mestur hluti þessa fjár, eða 135 millj., hefur runnið til Kópavogshælis, 84 millj. til Sólborgar á Akureyri og 40 millj. til Skálatúns, en lægri upphæðir til annarra stofnana.

Með tilkomu Styrktarsjóðs vangefinna verður mikil stefnubreyting í málum vangefinna hér á landi og farið er að búa þeim vistunarskilyrði og aðbúnað eins og tíðkast annars staðar þar sem málefni þeirra hafa verið tekin föstum tökum.

Óvissa ríkir um framtíð Styrktarsjóðs vangefinna. En nauðsynlegt er að sú stefna, sem mörkuð hefur verið með framlögum til sjóðsins ú þessu ári, nái fram að ganga. Nýlega hefur verið sett reglugerð um heilsugæslu og aðstoð við vangefna utan stofnana, þar sem gert er ráð fyrir göngudeildarþjónustu og greiningaraðstöðu við Kópavogshælið vegna vangefinna og samvinnu við menntmrn. í samræmi við lög um grunnskóla. Þar að auki má minna á að löggjöf um málefni vangefinna er í endurskoðun á vegum menntmrn. í samvinnu við heilbrn., og er þess að vænta að drög að nýrri löggjöf vegna vangefinna komi frá endurskoðunarnefndinni innan skamms.

Á sama hátt og rétt þótti að ræða um Styrktarsjóð vangefinna í þessari skýrslu er sérstakur kafli um Gæsluvistarsjóð, og er að finna grg. um styrki úr Gæsluvistarsjóði á árabilinu 1964–1976 á siðu andspænis síðu 103 í skýrslunni. Lagaákvæði um Gæsluvistarsjóð eru í lögum nr. 39 frá 1964, og var gert ráð fyrir að sjóðurinn hefði það hlutverk að standa undir kostnaði af framkvæmd þeirra laga, en fyrst og fremst til að byggja þær stofnanir sem um var rætt í lögunum, þ. e. a. s. meðferðar- og dvalarstofnanir fyrir drykkjusjúka. Fram til ársins 1970 var þó sjóðnum ekki varið til þessara verkefna að neinu marki, heldur til rekstrar dvalarstofnana, einkum Gunnarsholts. Síðan farið var að nota fjárveitingar til uppbyggingar hafa stærstu upphæðirnar runnið til Kleppsspítala vegna göngudeildaraðstöðu og Vífilsstaðaspítala vegna dvalardeildar fyrir drykkjusjúklinga og einnig til uppbyggingar í Gunnarsholti og í Víðinesi á vegum Bláa bandsins. Það má minna á að þegar lög um Gæsluvistarsjóð voru sett voru þær greiðslur, sem ákveðnar voru, unnt það bil 2% af nettóhagnaði Áfengisverslunarinnar, en fjárveitingar á árinu 1976 voru um það bil 1% af nettóhagnaðinum. Veruleg hlutfallsleg lækkun hefur því orðið á framlögum til Gæsluvistarsjóðs á þessu árabili, enda þótt þörf fyrir viststofnanir og meðferðarstofnanir áfengissjúklinga hafi stóraukist á þessu tímabili og skortur á þessum stofnunum hefur sérstaklega komið niður á öðrum sjúkrahúsum, einkum geðsjúkrahúsum og lyflæknisdeildum.

Í köflunum 11 og 12 í skýrslunni er rætt um stofnanir sem orðið hafa eign ríkisins á s. l. ári. Annars vegar er um að ræða Tjaldanesheimilið, sem afhent var með gjafabréfi hinn 23. mars 1976, og hins vegar er um að ræða Landakotsspítalann, sem ríkið keypti með kaupsamningi 26. nóv. á s. l. ári frá og með síðustu áramótum. Um þessar stofnanir vísast að öðru leyti til frásagnar um sjúkrahús í skýrslunni.

Enda þótt skýrsla sú, sem hér er um að ræða, sé fyrst og fremst um byggingarþróun heilbrigðisstofnana þótti rétt að taka inn í skýrsluna nokkra kostnaðarþætti um sjúkrahúsrekstur, sérstaklega þar sem þessi rekstur er, eins og fyrr er getið, sá þáttur sem mestri kostnaðaraukningu hefur valdið í sambandi við kostnað við heilbrigðisþjónustu á undanförnum áratugum. Í köflunum 13–16 er þessar upplýsingar að finna, og er fyrst og fremst um að ræða upplýsingar um kostnað ríkisspítala, en einnig tekinn til samanburðar kostnaður við Borgarspítalann og St. Jósefsspítala að Landakoti.

Ef lítið er á kostnaðarþróun sjúkrahúsa á árabilinu 1953–1974 kemur í ljós, að á árinn 1953 voru um 37% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála til rekstrar sjúkrahúsa, en árið 1974 hefur þetta hlutfall hækkað upp í 45%. Þegar þessi skipting er athuguð nánar kemur í ljós að þessi aukning hefur nær öll orðið vegna stækkunar Borgarspítala. Hlutfall sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar hefur aukist um 7% á þessu tímabili eða nær þrefaldast á 20 árum. Hlutur ríkisspítalanna og annarra hefur hins vegar aðeins aukist um 1% hjá hvorum aðila á þessu tímabili.

Þegar reynt er að gera sér ljóst hver er raunveruleg aukning sjúkrahúskostnaðar á íbúa, þá kemur í ljós að árið 1953 var sjúkrahúskostnaður 289 kr. á íbúa, en 1974 18 300 kr. á íbúa. Á þessum tíma er kostnaðaraukning vegna verðbólgu talin 22-föld og raunveruleg kostnaðaraukning er því tæplega þreföld.

Sé litið á Landsspítalann sérstaklega, þá var kostnaður á legudag á Landsspítala 1953 145 kr., 1974 8750 kr. Raunveruleg kostnaðaraukning var því 2.7-föld. Um þessa kostnaðaraukningu ræður mest launakostnaðurinn. Í ársbyrjun 1953 var 1.2 starfsmenn á sjúkrarúm, en í ársbyrjun 1974 eru 2.4 starfsmenn á sjúkrarúm. Ástæður þessarar þróunar eru tvær fyrst og fremst: Annars vegar aukning alls konar þjónustustarfsemi gagnvart og í tengslum við sjúklingana og í öðru lagi stytting meðallegudagafjölda um 5 daga, sem þýðir það í reynd að þeir sjúklingar, sem inni liggja, eru yfirleitt veikari og krefjast meiri umönnunar en áður var.

Sams konar samanburður er gerður um önnur sjúkrahús í þessari skýrslu og er raunveruleg kostnaðaraukning nokkuð misjöfn. Villa er í skýrslunni á bls. 115 þar sem ræðir um Fæðingardeild: á að standa 1.8 í staðinn fyrir 18-föld.

Sérstök ástæða er til að ræða um Kleppsspítalann í þessu sambandi, en þar hefur orðið mjög veruleg kostnaðaraukning. Raunveruleg kostnaðaraukning þar milli áranna 1953 og 1974 er 3.5föld samanborið við 1.8-föld á Fæðingardeild og 2.7-föld á Landsspítala og Vífilsstaðaspítala. Ástæðan fyrir þessu er veruleg aukning starfsliðs miðað við sjúkrarúm. Í ársbyrjun 1953 voru 0.4 starfsmenn á sjúkrarúm, en í ársbyrjun 1974 1.3 starfsmenn á sjúkrarúm á Kleppsspítala.

Veruleg breyting hefur einnig orðið á Kópavogshæll á þessu sama sviði. Í ársbyrjun 1953 voru 0.5 starfsmenn á sjúkrarúm, en í ársbyrjun 1974 1 starfsmaður á sjúkrarúm. Þess má geta hér, að þær áætlanir, sem stjórnarnefnd Ríkisspítalanna hefur gert, gera ráð fyrir að starfsmannafjöldi á Kópavogshæli verði 1.5 starfsmenn á sjúkrarúm eða 50% aukning frá því sem nú er.

Í sambandi við samanburð á milli sjúkrahúsa og einstakra kostnaðarþátta í sjúkrahúsrekstri er fróðlegt að skoða töflu á bls. 136 í skýrslunni og bera saman hina ýmsu kostnaðarþætti milli sjúkrahúsanna, og raunar er samanburð af þessu tagi einnig að finna í rekstrarskýrslum daggjaldanefndar sjúkrahúsa fyrir árið 1973 um flestöll sjúkrahús landsins. Beinn samanburður milli spítalanna verður þó erfiður þar eð mismunandi rekstur á sér stað á þessum sjúkrahúsum sem veldur skekkju í viðmiðun. Þar má t. d. nefna stórar dagdeildir og göngudeildir á Landsspítala sem fá litlar eða engar tekjur beint, en valda kostnaðaraukningu í sjúkrahúsarekstrinum í heild.

Ef litið er á hlutfallsskiptingu launa eftir stéttum sést að stærsti hluti launa fer til lækna og hjúkrunarfræðinga, en mjög mismunandi eftir stofnunum. Hlutur lækna er nær tvöfalt meiri á Landsspítala og Fæðingardeild en á Vífilsstaðaspítala og Kleppsspítala. Hlutur hjúkrunarfræðinga er nokkuð jafn nema á Fæðingardeild þar sem ljósmæður koma í stað hjúkrunarfræðinga.

Síðasti kafli skýrslunnar er rekstrarskýrslur sjúkrahúsa fyrir árið 1973 frá daggjaldanefnd og er þar í fyrsta lagi birt kostnaðarsundurliðun ársins 1973 vegna hinna ýmsu kostnaðarliða í sjúkrahúsarekstri, í öðru lagi skipting kostnaðar á legudag, í þriðja lagi skipting kostnaðar eftir hinum ýmsu launaliðum og í fjórða lagi skipting kostnaðar eftir hinni ýmsu starfsemi sem rekin er í sjúkrahúsunum. Þá er í skýrslunni á bls. 144 og 145 gerð grein fyrir rúmafjölda og skiptingu starfsliðs eftir sjúkrahúsum og starfsþáttum, og kemur í ljós að í árslok 1974 hafi verið rúmlega 3500 manns starfandi á sjúkrahúsum landsins, en þá vantaði upplýsingar frá öllum hjúkrunarheimilum með alls um 400 rúmum og stofnunum fyrir vangefna nema Kópavogshæli. Má því gera ráð fyrir að rúmlega 4 þús. manns hafi starfað á sjúkrastofnunum á þessu ári.

Ég mun ekki rekja hér frekar efni skýrslunnar um þætti sjúkrahúsrekstrar, en þær upplýsingar, sem skýrslan geymir, og það, sem hér hefur verið sagt, ætti að sýna nauðsyn þess að koma á betri upplýsingaöflun og könnun kostnaðar við sjúkrahúsrekstur en nú er, því eins og málum er nú háttað er enginn aðili sem sérstaklega á að hafa eftirlit með rekstri sjúkrastofnana annar en daggjaldanefnd, en hún hefur hingað til ekki fengið tækifæri til að sinna því hlutverki að neinu verulegu gagni. Hér er um að ræða svo viðamikinn þátt í heildarútgjöldum ríkisins að nauðsynlegt er að taka þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar. Það hefur alllengi verið tillaga heilbrn., að sérstakri sjúkrahúsmálanefnd innan rn. yrði falið þetta verkefni, og hefur verið sótt um heimildir til starfsliðs í rn. til þessara verka undanfarin ár, en fjárveitingar hafa ekki fengist til þessa.

Þegar litið er yfir þá skýrslu í heild, sem hér hefur verið rakin í mjög stórum dráttum, er þar annars vegar um að ræða að safnað hefur verið mjög veigamiklum upplýsingum um fjölmarga þætti í heilbrigðisþjónustunni annars vegar hvað' snertir heilsugæslustöðvar og hins vegar hvað snertir sjúkrahús og sjúkrahúsrekstur. Þessar upplýsingar eru grundvöllur sem nota má til að byggja upp heildaráætlun um uppbyggingu heilbrigðisstofnana sem lög um heilbrigðisþjónustu gera ráð fyrir að gerð sé til 10 ára í senn. Það verkefni, sem fram undan er að fengnum þeim gögnum sem fyrir liggja í þessari skýrslu, er að gera slíka áætlun sem taka mundi til eftirtalinna atriða: 1. heilsugæslustöðva, 2. sjúkrahúsa, 3. embættisbústaða, 4. mönnunar heilsugæslustöðva, 5. mönnunar sjúkrahúsa.

Það er auðséð að þessi skýrsla hefur ekki þær upplýsingar allar sem þarf til gerðar slíkrar áætlunar. Í skýrsluna vantar upplýsingar um heilbrigðisstéttir og verður að koma til samvinnu við menntmrn. um gerð þess þáttar áætlunar, þar eð aðalmenntastofnanir heilbrigðisstétta heyra undir menntmrn.

Í inngangi að skýrslunni er látin í ljós sú skoðun, að við lestur hennar muni vakna fleiri spurningar en svarað er, og er það ætíð svo, að fáar skýrslur er u tæmandi og allra síst um jafnfjölþætt og fjölbreytilegt efni og heilbrigðismál. Þess er því að vænta að gerð og umr. um þessa skýrslu verði hvatning til nánari og ítarlegri úttektar á einstökum þáttum innan heilbrigðiskerfisins og að heilbrn. eða aðrir aðilar í samvinnu við það fái betra tækifæri en hingað til hefur verið til kannana og athugana á þessu sviði.

Skýrslan hefur, eins og fram kemur í inngangi, verið unnin af starfsliði heilbrn. undir forustu ráðuneytisstjórans, en utan rn. hafa aðallega unnið að skýrslunni skólayfirlæknir og aðstoðarframkvæmdastjóri Ríkisspítalanna. Vil ég nota tækifærið til að þakka öllum aðilum, sem hér hafa unnið, fyrir þeirra framlag.

Ég tel engan vafa leika á því, að þær upplýsingar, sem hér hefur verið safnað saman, eru gagnlegar fyrir alþm. og sveitarstjórnarmenn og aðra þá sem fara með fjármál á sviði heilbrigðismála.

Vegna þess, hve reynt var að hraða gerð skýrslunnar, má búast við að í ljós komi einhverjar talnavillur þegar skýrslan verður lesin gaumgæfilega. En ég tel að í öllum meginatriðum sé hún rétt og upplýsingar hennar séu eins réttar og nokkur kostur var að veita við þau skilyrði sem hún er samin. Ég geri ráð fyrir að framlagning skýrslunnar geti orðið gagnlegur grundvöllur að almennum umr. um heilbrigðismál, bæði um heilbrigðismál almennt og einnig ef þm. æskja eftir upplýsingum um heilbrigðismál einstakra landshluta eða staða.