29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2990 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

167. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Hér liggur fyrir til umr. þáltill. um athugun á úrbótum á flugsamgöngum við Vestfirði. Hv. flm. Karvel Pálmason gat aðdragandans að þessum tillöguflutningi. En fyrir nokkrum vikum var rædd hér á Alþ. fsp. frá mér sama efnis og þessi till. er, að því er ég best fæ séð nákvæmlega í sama anda og sama efnis, grg. að vísu með nokkuð breyttu orðalagi frá grg. fsp. minnar, en ekki er till. verri fyrir það. Þarna var hreyft máli, sem samþm. minn tók undir og hafði fyllilega ástæðu til. Ég tek undir það, sem kom fram í hans ræðu, að svör hæstv. samgrh. við fsp. minni voru heldur neikvæð þannig að það var full ástæða til þess að halda málinu áfram frekar en gert var með fsp. minni.

Eftir að umr. um fsp. mína, sem ég hef minnst á, fóru fram á Alþ. átti ég fund með flugmálastjóra og einum reyndasta flugmanni sem flýgur að jafnaði til Vestfjarða. Sá flugmaður hafði eftir samræður okkar á meðal gert, eftir því sem honum gafst tækifæri til í sínu flugi, sérstakar frumathuganir á þeim möguleikum sem í þessari till. felast. Að þessari athugun flugmannsins lokinni, sem raunar er ekki nýtilkomin því að hann hefur undanfarin ár haft þetta til sérstakrar athugunar, gengum við fund með flugmálastjóra þar sem rætt var um þetta, og þar kom ýmislegt fram sem mér satt að segja fannst ekki allt til þess fallið að vekja bjartsýni í huga mínum. Þ. á m. kom fram sú ályktun þeirra beggja og þriggja raunar, því að báðir flugmálastjórarnir voru þarna viðstaddir um tíma, að það mundi nokkuð öruggt mál að ómögulegt væri að koma við lýsingu til næturflugs á Ísafjarðarflugvöll. Samtal okkar beindist því aðallega að möguleikum í Bolungarvík og Önundarfirði. Mér heyrðist á máli þeirra og þeim litlu athugunum, vil ég segja, sem gerðar hafa verið, að möguleikar í Bolungarvík væru harla litlir, en öllu meiri í Önundarfirði. Þó þannig að varla mundi fært að nota núverandi flugbraut í Önundarfirði, þótt framlengd væri og endurbætt, til næturflugs, en sennilegra væri að til þyrfti að koma ný flugbraut norðan megin fjarðarins eða vestan megin, utan við Flateyri, þannig að hægt yrði að koma við upplýstum flugvelli fyrir þá stærð véla sem Flugleiðir nota yfirleitt til síns áætlunarflugs. Sem sagt, af þessum fundi okkar fór ég ekki miklu vonbetri en ég kom.

En það, sem ég fór fram á þarna fyrst og fremst, var að gera það sem þessi till. bendir einmitt réttilega á, að það þarf að rannsaka þetta. Þetta er engan veginn fullrannsakað, og það er nauðsynlegt að þessi athugun fari fram, ekki síst með tilliti til vindáttar. Það hefur ekki, að mér skildist, farið fram viðhlítandi könnun á hegðun vinda á þessum slóðum og þá sérstaklega í Önundarfirðinum. Ég tek því heils hugar undir það, að það, sem við fyrst og fremst þurfum í þessu efni nú, er að láta kanna málið og því var mér lofað munnlega af þessum aðilum, en að sjálfsögðu verður það loforð gildismeira og líklegra til að bera árangur ef ályktun Alþ. kemur þar til viðbótar, svo að ég lýsi að sjálfsögðu stuðningi mínum við þessa till. og vænti þess, að hún megi ná fram að ganga.

Það var réttilega bent á það af hv. frsm. áðan, sem og mér og fleirum þegar fsp. mín var til umr., að Vestfirðir hafa þarna óneitanlega sérstöðu, sem hlýtur að verða tekið sérstakt tillit til. Það er ákaflega erfitt fyrir einn landsfjórðung að vera þannig settur að hvergi á neinum flugvalla hans séu aðstæður til næturflugs. Ég benti á það í framsögu fyrir fsp. minni, að þarna kæmi vafalaust ekki einungis það til að Vestfirðir hefðu verið orðnir þarna afskiptir, heldur að náttúruaðstæður væru þarna sérstaklega erfiðar. Við höfum í dag afgreitt vegáætlun, og í umr. um hana kom sérstaklega til tals í mínu máli og hjá fleirum nauðsyn þess að gera vetrarfæran veg milli Ísafjarðar og suðurfjarðanna og tengja þannig syðri hluta landsfjórðungsins við nyrsta hlutann og þá um leið mestu þéttbýliskjarna fjórðungsins. Því er það að við þessar umr. um flugmál tengi ég alveg tvímælalaust veg um Breiðadalsheiði, því að — ég segi ekki með vissu, en með það hugboð í huga að það verði ekki komið við næturlýsingu og næturflugi norðan Ísafjarðar, þá verður hitt enn þá brýnna, að geta notfært sér varavöll sunnan Breiðadalsheiðar til þess að flugsamgöngur til Ísafjarðar verði tryggari, þ. e. a. s. að jafnvel þó að ólendandi sé á Ísafirði vegna þrengsla við flugvöllinn eða vindáttar, sem æðioft er óhagstæð og hamlar flugi, þá gæti flugvöllur í Önundarfirði orðið til þess að fullnægja þörfum ísfirðinga og íbúum norðan heiðarinnar. Ég er þess vegna í engum vafa um að þetta er athugun sem hlýtur að vera gerð, og ég vona að hún sé nú þegar hafin. En með samþykkt þessarar till. yrði örugglega tryggilegar frá því gengið að hún bæri þann árangur sem til er ætlast, þannig að við fjárlagagerð jafnvel á næsta ári lægi fyrir athugun, sem væri þá hægt að taka tillit til með fjárveitingu á fjárl. næsta árs. Hvort þessi athugun getur farið fram á þetta skömmum tíma er ég ekki til komin að staðhæfa neitt um, en a. m. k. að hefjast handa um hana sem fyrst.