29.03.1977
Sameinað þing: 72. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2992 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

167. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Flm. (Karvel Pálmason) :

Herra forseti. Ég átti ekki von á öðru en hv. 9. landsk. þm. tæki undir það sjónarmið sem kemur fram í þeirri till. sem hér er til umr. Mér var það í raun og veru ljóst og reyndar hafði hugboð um það, áður en hæstv. samgrh. svaraði fsp. hv. 9. landsk. þm., að það væri ekki að vænta frumkvæðis af hálfu hæstv. ríkisstj. eða úr þeirri átt að því að taka Vestfirði sérstaklega út úr til athugunar í þessu máli. Það var því full ástæða til þess, þegar ótvírætt lá fyrir sú vitneskja að ekkert væri uppi um það að slíkt yrði gert, að fylgja þá eftir málinu með því að flytja um það sérstaka þáltill.

Varðandi það, sem hv. 9. landsk. þm. sagði um ummæli flugmálastjóra, bæði aðalflugmálastjóra og varaflugmálastjóra, og kannske einhverra flugstjóra um að ómögulegt væri að koma við lendingarljósum á Ísafjarðarflugvelli, þá má vel vera að það reynist rétt. En það liggur ekkert fyrir um það við athugun nú, og það þarf að fá úr því skorið, fá gengið úr skugga um hvort það sé svo í raun og veru, að það sé ekki um nokkurn möguleika að ræða. Það má vel vera að þeir reynist sannspáir um þetta, því að hér er ekki nema um spádóma að ræða vegna þess að a. m. k. mér er ekki kunnugt um að nokkur athugun hafi átt sér stað í þessu efni. En vel má vera, að þeir reynist sannspáir í þessu efni og að þetta komi í ljós. En þá liggur það líka fyrir alveg ótvírætt.

Mér heyrðist, eftir því sem hv. 9. landsk. þm, orðaði það, að hann hefði rætt við sama flugstjóra hjá Flugleiðum og ég einmitt ræddi við. (SigurlB: Ingimar.) Já, Ingimar Sveinbjörnsson, og það er mjög svipað sem hv. 9. landsk. þm. hafði eftir honum og hann tjáði sig um við mig. En hann tók alltaf að vísu fram að þessi tilteknu atríði þyrfti að athuga sérstaklega og gaumgæfilega, þannig að gengið yrði úr skugga um þetta. En ég man ekki betur en þegar verið var að ræða um og taka ákvarðanir um staðsetninguna á Ísafjarðarflugvelli, þá hafi einnig verið a. m. k. að einhverju leyti athugaðir möguleikar á staðsetningu flugvallar í Bolungarvík og það talið ekki síðra. Ég skal ekkert um þetta fullyrða, en ég hygg, að einhverjar athuganir hafi átt sér stað þegar þessar hugleiðingar voru uppi. En það breytir ekki því, að það er nauðsynlegt að gera þessa athugun nú og fá úr þessu skorið. Og ég vænti þess sem sagt að það auðnist að koma þessu máli samþykktu út úr þinginu áður en það lýkur nú störfum, af því að, eins og ég áður sagði, ég á ekki von á því að um þetta séu neitt deildar meiningar, menn geti verið um það sammála að þessi athugun fari fram.