19.04.1977
Sameinað þing: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3304 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

202. mál, sykurhreinsunarstöð

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans og er ánægður með að það skuli hafa verið unnið við að kanna þessi mál, því að ég tel að það sé margt sem mæli með og bendi til þess að það sé hagkvæmt að flytja þennan iðnað inn í landið. Jafnvel þó að nú um sinn hafi sykurverð lækkað á heimsmarkaði, þá held ég að muni vera hagkvæmt að hreinsa hér innanlands.

Ég vil minna á það, að tilgangurinn með þessari þál. var að reyna að flytja inn í landið þá atvinnu sem er við það að hreinsa sykurinn, auka iðnaðinn innanlands og auka atvinnuna sem er takmörkuð nokkuð víða hér á landi. Auk þess fer þjóðinni fjölgandi svo að við þurfum að hugsa fyrir því að reyna að efla iðnaðinn, þar sem sjávarútvegur og landbúnaður hafa ekki svo að sjáanlegt sé, möguleika á því að taka við verulega auknum fólksfjölda þjóðarinnar.

Þá var líka bent á það, að ef úr þessu yrði væri þetta verulega til sparnaðar á gjaldeyri því að hrásykurinn er ódýrari en hreinsaður sykur í innkaupum og þá kæmi þar verulegur gjaldeyris­sparnaður.

Þá er líka stefnt að því að koma á hóflegu verðlagi á þessa hluti með því m. a. að draga úr flutningskostnaði og koma á hagkvæmni í viðskiptum.

Það var bent á það við flutning þessarar þáltill., að með því að gera vöruskiptasamning við þær þjóðir sem framleiða hrásykur, þá hefði þetta e. t. v. mátt takast, og væri æskilegt að sá þáttur væri rannsakaður.

Þá vil ég sérstaklega minna á það, að við getum nýtt okkar innlendu orkugjafa, eins og hæstv. iðnrh. minntist á.

Þetta eru allt þættir sem ég tel að tvímæla­laust eigi að skoða niður í kjölinn, og þess vegna legg ég á það áherslu að hraðað verði svo sem kostur er að ljúka þessari athugun.