20.04.1977
Efri deild: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3402 í B-deild Alþingistíðinda. (2398)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um frv. til 1. um kaup og kjör sjómanna, sem nú er á dagskrá, skýrði ég frá því að ég hefði ýmsar efasemdir um setningu þeirra brbl. sem nú á að staðfesta. Ég vil fara aðeins yfir aðdragandann til að gera grein fyrir þeirri af­stöðu minni og jafnframt gera grein fyrir því, að ég mun þó nú greiða þessu frv. atkv. mitt.

Á árinu 1975 varð um það samkomulag að ósk sjómanna að sjóðakerfið, sem orðið var ákaflega víðtækt í sjávarútvegi, var tekið til endurskoðunar. Skipaði hæstv. sjútvrh. n. til þess að fjalla um það mál. Sú n. lauk störfum með skýrslu dags. 19. jan. 1976. Náðist þar mjög athyglisvert samkomulag með aðilum sjávarút­vegsins um róttækar breytingar á þessu sjóða­kerfi. Í þeirri skýrslu kemur fram að aðilar töldu nauðsynlegt að breyta nokkuð kjörum sjó­manna, skipta kjörum sjómanna fyrst og fremst, og var það að sjálfsögðu með tilliti til þess, að með hinni víðtæku breytingu á sjóða­kerfinu, sem álit n. gerði ráð fyrir, voru veru­legar byrðar færðar yfir á herðar útvegsmanna.

Til staðfestingar þessu gerðu þessir sömu aðilar samkomulag með sér sem var undirskrifað 8. febr. 1976, þar sem þeir lýsa því yfir að þeir muni á grundvelli þeirra ábendinga, sem fram komu í skýrslu n., fjalla um breytingar á kjörum sjómanna. Þar er jafnframt í 2. lið tekið fram, með leyfi forseta: „Aðilar lýsa því enn fremur yfir, að þeir muni beita sér fyrir því að heimildir verði veittar til þess að taka þegar upp samninga á þessum grundvelli um breyt. á þeim kjarasamningum aðila, sem ekki hefur verið sagt upp, með sama hætti og væru þeir lausir“

Síðan hófust í framhaldi af þessu viðræður aðila sjávarútvegsins um þessar breytingar. Jafn­framt gekk Alþ. frá lagafrv. um breytingar á sjóðakerfinu í samræmi við till. sem fram komu í fyrrnefndri skýrslu nefndarinnar. Samkomu­lag varð í samninganefndinni og voru drög að samningum lögð fyrir 1. mars 1976 og samþ. í 4 félögum, en felld í 26. Að vísu voru þau félög, sem samþ., ákaflega stór. Áfram var haldið samkomulagstilraunum, og voru nýir samningar und­irritaðir 28. júlí s. l., og voru greidd um þá atkv. sameiginlega af sjómannafélögunum. Þátt­taka var ákaflega lítil, eins og rakið hefur verið, og samkomulagsdrögin voru felld, með heldur litlum atkvæðamun þó.

Ég ætla ekki að rekja ýmislegt sem á eftir fylgdi, en þetta leiddi í fáum orðum til þess, að umrædd brbl. voru sett 6. sept. 1976.

Það er ákaflega viðamikið og alvarlegt mál að grípa inn í samkomulagstilraun aðila vinnumarkaðarins með brbl., og að mínu mati má ekki beita slíku nema í algjöra nauð sé komið. Mér þótti ekki svo vera, ekkert verkfall var yfir­lýst eða virtist yfirvofandi, og því var tími til þess að gera jafnvel enn eina tilraun til sam­komulags. Þó það kynni að hafa reynt nokkuð á þolinmæði ýmissa manna, þá hygg ég að í slíku máli hefði átt að gera enn frekari tilraun til sam­komulags. Þetta var ein af ástæðunum fyrir því, að ég lýsti efasemdum mínum um setningu þessara brbl.

Í öðru lagi var ljóst, að aldrei var á Vestfjörðum leitað þeirrar heimildar sem um er getið í 2. lið samkomulagsins frá 8. febr. 1976. Það er rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði við l. umr. um þetta mál, að það var ekki hans verk að leita slíkrar heimildar. Hins vegar hygg ég að hann hefði átt að ganga úr skugga um það, áður en brbl. voru sett, að þessarar heimildar hefði verið leitað og hún verið veitt. Þetta sýnist mér vera töluverður galli á málsmeðferð allri.

Ég vil jafnframt nota tækifærið og leiðrétta það, sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh. við 1. umr., að þingflokkur Framsfl. hefði fallist á að mál þetta yrði afgreitt með brbl. þetta er misskiln­ingur. Um málið var lauslega fjallað í þingflokki Framsfl. Þá var lýst þeirri skoðun sjútvrh., að nauðsynlegt kynni að verða að leggja fyrir Alþ. frv. til l. um kaup og kjör sjómanna í beinu framhaldi af þeim breyt. sem gerðar höfðu verið á sjóðakerfinu og með tilliti til þess samkomu­lags sem lofað var að reynt yrði með fyrrnefnd­um samningi frá 8. febr. 1976. Úr þessu varð ekki, og í mínum huga er mikill munur á frv., sem þá yrði rætt hér, og á brbl., sem sett eru án umr. á Alþingi.

Sjútvn. þessarar d. kvaddi á sinn fund allmarga fulltrúa þeirra samtaka sem hér eiga aðild að: frá Sjómannasambandi Íslands, frá Farmanna- ­og fiskimannasambandi Íslands og frá Lands­sambandi Ísl. útvegsmanna. Þar var rakinn allur aðdragandi þessa máls allítarlega og þess getið, sem ég hef nú rakið, og miklu fleira í þessu sambandi nefnt. Á þessum fundi kom m. a. fram, að í þeim samningum, sem nú eru fram undan hjá sjómönnum og útvegsmönnum, er það samkomulag, sem lögbundið var með brbl., lagt til grund­vallar. Því var ekki andmælt af hálfu sjómanna, að þeir legðu einnig til grundvallar þessi kjör, sem þannig voru lögbundin. Þetta þótti mér ákaflega athyglisvert. Ef við færum að fella þetta úr gildi nú, sýnist mér sannarlega stefnt til verulegra vandræða í þeim samningum sem fram undan eru og raunar kannske upplausnar. Þá væri sú vinna, sem þegar hefði verið unnin og byggð er á þeim kjörum, sem þarna voru ákveðin, orðin til lítils og sá grundvöllur brostinn. Ég er því mjög ósammála næstsíðustu setningunni í áliti minni hl. sjútvn., að samþykkt þessa frv. mundi leiða til harðari deilna við samninga­borðið og af eðlilegum ástæðum auka á tortryggni sjómanna. Ég hef komist að þeirri niður­stöðu, eftir að ég hef hugsað mikið um málið, að þar gæti farið þveröfugt. Ef þessi grundvöllur, sem þeir leggja nú til grundvallar, yrði felldur úr gildi, gæti það leitt til harðari deilu og vandræða í samningum sem fram undan eru.

Í þessum samningum, sem lögfestir voru, er í öllum tilfellum gert ráð fyrir því að samning­arnir gildi til 15. maí 1977, en séu uppsegjanlegir með tveggja mánaða fyrirvara. En sé samningunum ekki sagt upp framlengist þeir um eitt ár í senn með sama uppsagnarfresti.

Fram kom á fyrrnefndum fundi sjútvn., að aðilar sjávarútvegsins, sem þar voru mættir, hafa sagt lausum þessum samningum, bæði sam­tök sjómanna og einnig samtök útvegsmanna. Hins vegar var jafnframt upplýst að aðilar sjávarútvegsins á Vestfjörðum hafa ekki sagt lausum þessum samningum. Nú er það staðreynd að á Vestfjörðum voru ekki lausir samningar og heimilda var ekki leitað til nýrra samninga. Það er jafnframt staðreynd, að á Vestfjörðum náðust samningar um önnur kjör sjómanna en ráð var fyrir gert í þessum samningum. Þar náðust samn­ingar um nokkru betri kjör en gert er ráð fyrir. Og raunar hefur það ávallt verið svo á Vestfjörðum, að þar hafa kjör sjómanna verið nokkru betri og talið eðlilegt með tilliti til þess, hvernig sjávarútvegur þar er stundaður.

Vera má að aðilar á Vestfjörðum geri sér ekki grein fyrir því eða líti svo á, að ekki sé nauð­synlegt að segja þessum samningi lausum. Ég veit það ekki. En a. m. k. virðast aðilar að þessum samningi á öðrum svæðum landsins telja að svo þurfi að gera, að segja þurfi þessum samningi lausum, þrátt fyrir það að hann hafi verið staðfestur með brbl. Þetta bendir því raun­ar til þess eða getur bent til þess, að aðilar sjávarútvegsins á Vestfjörðum séu ánægðir með þau kjör sem náðust í framhaldi af setningu þessara brbl. Einnig með tilliti til þess sé ég ekki ástæðu til að leggjast gegn þessu frv. Með því að fella þetta frv. nú væri þessi grundvöllur brostinn, — ­grundvöllur sem aðilar sjávarútvegsins á Vest­fjörðum hafa ekki sagt lausum.

Að vandlega athuguðu þessu máli og þrátt fyr­ir þær efasemdir sem ég enn hef og eru óbreytt­ar um setningu þessara brbl. og ég hef hér nefnt, tel ég rétt að greiða þessu frv. atkv. mitt, því að ég tel að með því að fella úr gildi þessa samn­inga nú væri stefnt til glundroða í þeim samn­ingum sem fram undan eru, sem ekki væri séð fyrir endann á.